Að hafa hlutverk skiptir máli
Eymundur Eymundsson, verkefnastjóri hjá Grófinni, geðverndarmiðstöð á Akureyri, segir mikilvægt að sinna forvörnum og geðrækt um allt land. Að upplýsa ungt fólk um geðraskanir og úrræði sem í boði eru. Hann segir vinnutengd úrræði skipta miklu því það að hafa hlutverk auki sjálfstraust og bæti sjálfsmynd fólks.
Haldið er upp á alþjóðageðheilbrigðisdaginn víðs vegar í heiminum 10. október ár hvert. Dagurinn var fyrst haldinn 1992 af alþjóðasamtökum um geðheilsu og markmiðið er að vekja athygli á geðheilbrigðismálum, fræða almenning um geðrækt og geðsjúkdóma og sporna við fordómum í garð geðsjúkra.
Á Akureyri verður dagurinn haldinn hátíðlegur líkt og undanfarin ár og verður opið hús í Grófinni geðverndarmiðstöð frá 16:00 til 18:00 og svo verður haldin geðveik messa klukkan 20:00 í Akureyrarkirkju þar sem meðal annars Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrarbæjar, talar.
Ungt fólk og geðheilsa í breyttum heimi
Þema dagsins í ár er samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) ungt fólk og geðheilsa í breyttum heimi.
Á vef WHO kemur fram að helmingur allra geðrænna veikinda hefjist fyrir 14 ára aldur en í flestum tilvikum er ekkert að gert. Sjálfsvíg eru önnur algengasta dánarorsök fólks á aldrinum 15-29 ára.
Eymundur Eymundsson hefur lengi barist við kvíða og mikla félagsfælni. Hann stofnaði ásamt fleirum Grófina, geðverndarmiðstöð á Akureyri, haustið 2013 og segir starfið þar hafa bjargað mannslífum.
Eymundur segir mikilvægt að sinna forvörnum og sjálfur barðist hann við kvíða og félagsfælni frá barnæsku. „Í forvarnarstarfi okkar hér á Akureyri og víðar leggjum við áherslu á að heimsækja skóla og útskýra fyrir krökkum hversu mikilvægt það sé að fá hjálp glími þau við vanda. Að þetta sé ekki þeim að kenna líkt og maður hélt sjálfur þegar maður var krakki og talaði aldrei um vanlíðanina við nokkurn mann,“ segir Eymundur.
Eymundur hefur heimsótt fjölmarga grunnskóla síðustu fjögur árin og í vetur hefur hann einnig heimsótt framhaldsskóla. „Við höfum líka farið á fleiri staði á landsbyggðinni, svo sem Ísafjörð og Bolungarvík auk staða á Austurlandi. Sýnir sig að þegar fólk, sem hefur verið að glíma við sjúkdóma eins og félagsfælni allt frá barnæsku, fer að tala um líðan sína kemur í ljós hvað þetta hefur haft á allt þeirra líf,“ segir hann.
Eymundur er verkefnastjóri geðfræðslunnar hjá Grófinni og hann segir að Grófin vinni eftir hugmyndafræði valdeflingar og batamódeli þar sem hver og einn kemur á sínum forsendum.
„Með því að taka þátt í starfi Grófarinnar í einhvern tíma áttar fólk sig á því að það á margt sameiginlegt með öðrum sem einnig glíma við geðraskanir. Fólkið finnur sína rödd og hefur tækifæri á að vinna í sjálfum sér á sínum hraða,“ segir Eymundur en starf ungliða innan Grófarinnar (Unghugar) hefur verið að eflast undanfarin misseri.
„Við hjá Grófinni erum í góðu samstarfi við Hugarafl, Háskólann á Akureyri, geðsvið Sjúkrahússins á Akureyri, Starfsendurhæfingu Norðurlands, Virk, Vinnumálastofnun, Rósenborg, Fjölsmiðjuna, Pieta, Búsetudeild og fleiri samtök og fyrirtæki sem hafa stutt okkur,“ segir Eymundur.
Eykur sjálfstraust að hafa hlutverk
Þrír einstaklingar sem glíma við geðraskanir eru í hlutastarfi hjá Grófinni við verkefni sem nefnist atvinna með stuðningi, segir hann.
„Að hafa hlutverk skiptir máli og um leið eykur það sjálfstraust og bætir sjálfsmyndina. Það hefur sýnt sig hvað góð samvinna með opnum huga er gott fyrir fólk sem þarf á hjálp að halda og fyrir aðstandendur þeirra. Það er hörkuvinna að vinna í sjálfum sér en það er meiri vinna að vera í feluleik allan sólarhringinn,“ segir Eymundur.
Í viðtali við Sunnudagsmoggann í fyrra sagði Eymundur að það væri margt jákvætt í því starfi sem unnið er í geðheilbrigðismálum og að mikilvægt sé að draga ekki einungis fram hið neikvæða.
Ráðast þarf að rót vandans
Eymundur segir marga sem glíma við geðraskanir leita í vímuefni og þess vegna þurfi að ráðast að rót vandans; vanlíðaninni.
„Við erum öll manneskjur með tilfinningar en stundum þurfum við hjálp til að byggja upp tilfinningarnar. Enginn ætti að þurfa að fela eigin vanlíðan; við erum búin að missa allt of marga út af slíkum feluleik, fólk sem hefur ekki treyst sér til að leita sér hjálpar vegna ótta við fordóma. Áður fyrr var geðveikt fólk bara lokað inni, en nú er þekkingin svo mikil að hægt er að hjálpa. Þar geta félagasamtök eins og Hugarafl og Grófin til dæmis gert mikið gagn, bæði fyrir þá veiku, fyrir aðstandendur og með því að sinna forvörnum,“ sagði Eymundur í viðtali við Skapta Hallgrímsson í Sunnudagsmogganum í fyrra.
Líf er því miður ekki sama og líf
Hann segist vilja sjá starfsemi samtaka sem vinni að geðrækt og forvörnum, svo sem Pieta Ísland, samtök gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða,í hverjum landsfjórðungi. Það geti bjargað mannslífum. „Við getum sett meiri fjármuni í þetta líkt og við sjáum hvað forvarnir í umferðarmálum eru að skila miklu. Þau viðbrögð sem við fáum eru mikið þakklæti og ég vildi óska þess að ég hefði fengið fræðslu á unglingsárum um geðraskanir. Að ég hefði ekki verið 38 ára gamall þegar ég kemst að því hvað amar að mér eftir að hafa verið í feluleik með vanlíðan mína áratugum saman. Ef ég hefði fengið hjálp fyrr þá hefði ég losnað undan mikilli þjáningu,“ segir hann.
Að sögn Eymundar var hann í verkjameðferð á Kristnesi eftir mjaðmaliðaskiptiaðgerð þegar hann var 38 ára gamall þegar hann fær upplýsingar um hvað ami að honum, félagsfælni og þunglyndi.
„Ég fékk strax stuðning þegar þetta kom í ljós, bæði á Kristnesi og hjá heimilislækni. Ég var náttúrulega fullur af ranghugmyndum varðandi geðsjúkdóma enda vissi ég fátt annað en það sem ég hafði séð í bíómyndum. Þegar heimilislæknirinn bauð mér upp á samtalsmeðferð þá valdi ég hana frekar en geðdeildina þar sem ég var svo fullur fordóma. Ég myndi vilja sjá kennslu í hugrænni atferlismeðferð (HAM) í grunnskólum. Að hún væri kennd af fagaðilum. Með því væri hægt að kenna þeim þetta bjargráð sem þau geta notað verði þau fyrir áföllum á lífsleiðinni. Ég held að það geti hjálpað mörgum við að efla sjálfsmyndina,“ segir Eymundur.
Hann bendir á að hann hafi útskrifast úr Ráðgjafaskóla Íslands árið 2009 og sem félagsliði árið 2016. Þegar hann var yngri entist hann tvo mánuði í framhaldsskóla.
„Það væri fróðlegt að vita hversu margir fara ekki í framhaldsskóla eða gefast upp í námi þar sem þeir treysta sér ekki til þess að sækja tíma þrátt fyrir að dreyma um að mennta sig. Ef þessir einstaklingar fengju stuðning fyrr, svo sem í gegnum HAM í grunnskóla, er líklegt að mun fleiri sem eru með geðraskanir myndu ljúka framhaldsskólanámi en nú er,“ segir Eymundur.
Hann segir mikilvægt að efla starfsemi geðþjónustunnar á Akureyri og það sé orðið tímabært að koma upp sérdeild fyrir þá sem glíma við tvígreiningar, það er geðrofssjúkdóma og fíkn. Mikilvægt sé að fólk, einkum og sér í lagi ungt fólk, fái þessa þjónustu í nærumhverfinu í stað þess að allir þurfi að leita á höfuðborgarsvæðið eftir aðstoð.
Stefnir í skort á geðlæknum
Hugræn atferlismeðferð (HAM) hefur náð mikilli útbreiðslu undanfarin ár í tengslum við ýmsan heilsuvanda, en þó einkum þunglyndi og kvíða. Rannsóknir sýna að HAM er gagnleg aðferð til að ná og viðhalda bata í þunglyndi.
Í dag eru margir þeirrar skoðunar að fyrsta hjálp við sálrænum vanda felist í sjálfshjálp. Margar sjálfshjálparbækur hafa komið fram, en undanfarið hefur í auknum mæli verið boðið upp á hugræna atferlismeðferð þar sem nýtt er tækni veraldarvefjarins. Þetta hefur skilað árangri sem gefur fyrirheit um enn frekari útbreiðslu þessarar nálgunar.
Félagsfælni er viðvarandi og hamlandi ótti við að verða sér til skammar, niðurlægingar og minnkunar innan um annað fólk. Sá sem er félagsfælinn er viss um að aðrir séu að horfa og hugsa um hann. Sú vissa er einnig fyrir hendi að þessi athygli stafi af því hve klaufalegur, illa klæddur eða hverjir þeir aðrir gallar sem viðkomandi er viss um að einkenna sig valdi þessu. Félagsfælnir ímynda sér að allt hið versta hendi þá innan um fólk, sérstaklega ókunnuga og að þeim verði hafnað af öðrum.
Af þessum sökum forðast félagsfælnir aðstæður þar sem annað fólk er eða halda þær út með kvíðabeyg vegna áhyggna um álit annarra á sér. Fólk sem þjáist af félagsfælni er mjög meðvitað um það sem það gerir og segir. Dæmigert er að hugsa um hvað geti farið úrskeiðis þar sem annað fólk er. Þegar atburður er um garð genginn dvelur sá félagsfælni við það sem hann/hún telur að hafi farið úrskeiðis. Afleiðingin getur verið sú að viðkomandi forðast þær aðstæður sem valda óttanum, jafnvel svo mjög að úr verður félagsleg einangrun.
Félagsfælni er falið vandamál en talið er að hún sé þriðja algengasta geðröskunin. Talið er að um 12% Íslendinga glími við félagsfælni einhvern tíma á ævinni og minnihluti þeirra leitar sér hjálpar. Félagsfælni kemur oft í ljós og er greind þegar aðrar geðraskanir gera vart við sig eða þegar fólk leitar sér læknis vegna annarra kvilla. Rannsóknir benda til þess að meðferð sé árangursrík, en hún felst í því að draga úr kvíða og feimni og auka þar með lífsgæði viðkomandi.
Félagsfælni getur beinst að samskiptum almennt, svo sem því að taka upp símann og hringja, segir á vef Geðhjálpar.
Höfundur greinar:
Eymundur Eymundsson