Að lifa í ljósinu - Guðni með hugleiðingu á föstudegi
Að mæta og verða máttugur.
Af hverju vilja svona fáir lifa í ljósinu?
Þetta er spurningin sem hefur ómað í huga mér óralengi.
Þegar ég var þrettán ára gamall skildi ég til fulls að ég bar ábyrgð á lífi mínu og að allt snerist um orsök og afleiðingu. Eftir á að hyggja skil ég ekki hvernig ég gat komist að svona niðurstöðu á þessum aldri, en í sjálfu sér skiptir það ekki máli.
Þegar ég var 35 ára varð ég gjaldþrota. Það varð mér mikið áfall og við tók flókið uppgjörstímabil þar sem ég barðist við vindmyllur því það var of þungbært að sjá sannleikann.
Ég skildi áfallið ekki fyllilega fyrr en ég hafði flust til Bandaríkjanna og þannig skapað ákveðna landfræðilega, samfélagslega og tilfinningalega fjarlægð. Í skjóli nýrrar tilvistar minnar sá ég að þetta var ekki í fyrsta skipti sem ég hafði rekið líf mitt í þrot. Ég sá að svipað hafði verið uppi á teningnum þegar ég var í kringum tvítugt – þá hafði ég líka keyrt áfram af mikilli ástríðu, inn í stórar hugmyndir með aðgang að fjármagni. Þá varð ég reyndar ekki gjaldþrota, en hafði treyst mörgum án trygginga og ýtt velsæld og peningum frá mér.
Ég sá mynstrið mitt: Þegar velsældin var í aðsigi fór mér að stafa ógn af henni og ég tók til við að vísa henni frá mér. Ég treysti mér ekki í návist þessarar orku, ég gat ekki þrifist í ljósinu. Ég hafði takmarkaða heimild og skildi að til að öðlast velsæld þyrfti ég að breyta þessum heimildum.
Ég skildi að í lífinu verðum við aldrei ánægðari en okkar eigin heimild til velsældar segir til um.