Að losna úr eftirsjá og iðrun - Sunnudagshugleiðing Guðna
Ástin blæs á höfnunina – og framgangan fær leyfi
Fyrsta skrefið er alltaf að taka út forsendu höfnunar og refsingar, að losna úr eftirsjá og iðrun og velja að elska sig samt – annars breytist aldrei neitt og loforð um breytni verða hjóm eitt og jafnvel trygging á frekari vansæld.
Við búum til ferli velsældar – öðru nafni umgjörð – en eftir það pökkum við ferlunum og förum inn í valið viðbragð, í vitund, í val, í vald. Í vald yfir eigin lífi, vald yfir skuggahegðuninni sem í okkur býr.
Umgjörðin er tímabundin skjólgirðing.
Eftir það er aðeins velsæld, aðeins valsæld, aðeins gjafir, ekkert annað en blessun og tækifæri.
Við æfum okkur og þjálfum þangað til við getum sjálf. Við treystum því að hlutirnir breytist. Rétt eins og börn sem læra að tala – þau babla fyrst, þau æfa og æfa og að lokum mynda þau rétta orðið.