Að taka ábyrgð á eigin lífi er val - Guðni og hugleiðing dagsins
Maður án viljandi tilgangs
Að taka ábyrgð á eigin lífi er val, afstaða um að opna lófann, velja hvaða leið þú vilt fara og hvaða þræði þú vilt halda í.
Að taka ábyrgð er að velja að hætta að vera „rangur maður á röngum tíma í vitlausu húsi“.
Uppljómuð manneskja upplifir sanna hamingju markmiða sinna í hverju augnabliki. Markmið hennar byggja á tilgangi og á bakvið hann liggjagildi, en það sem gerir henni kleift að ná markmiðum sínum er sterk sýn.
Dyggð er óáþreifanlegt fyrirbæri: Fegurð, sannleikur, réttlæti.
Gildi er grunnhugmynd sem snýr beint að mér og ég vel að nota sem leiðarljós
í mínu lífi. Gildi er lítið eitt áþreifanlegra en dyggð: Auðlegð, hjálpsemi, einlægni, örlæti.
Gildi er hornsteinn tilgangsins
Til að skilja muninn á dyggð og gildi er ágætt að hugsa um sannleika og heiðarleika. Sannleikurinn bara er, en ég þarf að iðka heiðarleika.
Tilgangurinn er forsenda hamingjunnar – hann er „af hverju“? Af hverju gerirð
það sem þú gerir? Hver er tilgangurinn með því? Hvert stefnirðu með því sem þú gerir? Hvaða hlutverki viltu gegna?
Tilgangurinn er kjölfesta markmiðanna.
Markmið er „hvernig“? Hvernig ætlarðu að vinna í þágu tilgangsins og framkvæma sýnina? Eftir hvaða leiðum? Á hvaða vettvangi? Hvernig ætlarðu að auðkenna framlag þitt til heimsins? Hvernig viltu elska og ráðstafa ljósinu?
Markmið er leiðarvísir þegar það hefur tilgang og er heitbundið – annars erum við aðeins að elta skottið á sjálfum okkur. Markmið er skrifleg yfirlýsing um áfanga sem er ákvarðaður með tímasetningu og umgjörð. Markmiðið er mælanlegt, framkvæmanlegt, nákvæmt, verulegt og tímasett.