Fara í efni

Ætlar þú að taka þátt í Mottu Mars?

Þann 1.mars hefst söfnunarátakið undir kjörorðunum Mottu Mars.
Karlmenn og skegg fyrir Mottu Mars
Karlmenn og skegg fyrir Mottu Mars

Þann 1.mars hefst söfnunarátakið undir kjörorðunum Mottu Mars.

Ef eitthvað málefni er verðugt því að karlmenn láti sér vaxa skegg þá er það einmitt Mottu Mars.

Karlmenn og krabbamein.

HVAÐ GERA FORVARNIR?

Mikilvægt að þekkja almenn einkenni krabbameina. Við leggjum áherslu á að kynna einkenni algengustu krabbameina og að auka umræðuna í þjóðfélaginu, því krabbamein er ekki feimnismál.

Einnig leggur Krabbameinsfélagið sérstaka áherslu á að hafin verði ristilkrabbameinsleit.

HVAÐ GETUR ÞÚ GERT?

Smábreytingar í daglegu lífi, málið snýst ekki bara um krabbamein heldur almennt betra heilsufar og líðan. Hægt er að koma í veg fyrir að minnsta kosti 1 af hverjum 3 krabbameinum með breyttum lífsstíl.
Vertu vakandi fyrir einkennum og þekktu líkama þinn. Ef einkenni koma fram og eru ekki horfin eftir þrjár til fjórar vikur ættir þú að leita til læknis.

STAÐREYNDIR UM KRABBAMEIN KARLA

Ár hvert greinast rúmlega sjö hundruð íslenskir karlar með krabbamein, samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins. Algengust eru krabbamein í blöðruhálskirtli, lungum og ristli.

-Nú eru á lífi um fimm þúsund karlar sem fengið hafa krabbamein.

-Tæpur helmingur þeirra sem greinast eru á aldrinum frá 40 til 69 ára.

-Meðalaldur við greiningu er um 67 ár.

-Lífshorfurnar hafa batnað mikið. Um 26% karla sem greindust með krabbamein fyrir fjörutíu árum lifðu í fimm ár eða lengur en nú geta um 63% vænst þess að lifa svo lengi.

-Samkvæmt útreikningum frá Krabbameinsskránni getur þriðji hver karl búist við að fá krabbamein.

-Talið er að um tíunda hvert krabbamein skýrist af arfgengum þáttum.

-Hver og einn getur gert ýmislegt til að draga úr líkum á að fá krabbamein, til dæmis með því að reykja ekki, hreyfa sig reglulega, borða hollan og fjölbreyttan mat, takmarka neyslu áfengis og varast óhófleg sólböð.

-Því fyrr sem krabbamein greinist, því meiri líkur eru á lækningu.

Fjármunir sem safnast í átakinu Karlmenn og krabbamein verða notaðir í forvarnir, fræðslu, ráðgjöf og rannsóknir. Á þessari vefsíðu getur þú stofnað þína eigin fjáröflun til styrktar málefninu. Hér getur þú hvatt vini og kunningja til að leggja málefninu lið. Einnig er hægt að styrkja Krabbameinsfélagið með því að gerast Velunnari félagsins. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu félagsins www.krabb.is.

Hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins er hægt að leita svara við spurningum af öllu tagi um krabbamein, bæði að kostnaðarlausu og nafnlaust.

Gjaldfrjáls símaráðgjöf er í síma 800 4040. Netfangið er radgjof@krabb.is