Fara í efni

Áfengi er ekki einkamál

“Verslunarfrelsi má ekki rugla saman við einstaklingsfrelsi. Frjálslynd samfélög reisa öll ýmsar skorður við verslun, ekki síst með áfengi.”
Áfengi er ekki einkamál

“Verslunarfrelsi má ekki rugla saman við einstaklingsfrelsi. Frjálslynd samfélög reisa öll ýmsar skorður við verslun, ekki síst með áfengi.”

 
Þeir sem vilja leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum telja sig hafa málstað að verja í nafni frelsis. Vandinn er á hinn bóginn sá að þeir hafa ekki sýnt fram á að núverandi skipan áfengissölu hérlendis feli í sér skerðingu á einstaklingsfrelsi. Þeir gefa sér einfaldlega að áfengisstefna okkar byggist á gamaldags forræðishyggju. En þeirri spurningu er látið ósvarað hver frelsisskerðingin sé.
 
Á Íslandi hafa þeir sem náð hafa 20 ára aldri greiðan og nokkurn veginn jafnan aðgang að áfengi. Áfengisneytendum er a.m.k. ekki mismunað á grundvelli kyns, stéttar, kynþáttar eða efnahags. Færa má rök fyrir því að slík mismunun hafi viðgengist fyrir árið 1989 þegar flugmenn og flugfreyjur gátu keypt bjór umfram aðrar starfsstéttir. Nú er öldin önnur og flestir Íslendingar búa snertispöl frá vínbúð sem segir sína sögu um frelsið sem ríkir í málaflokknum þótt sumum reynist erfitt að sjá það. En skoðum hliðstætt dæmi. Gefum okkur að í framtíðinni væru margar gerðir harðra fíkniefna seldar í 12 sérverslunum á höfuðborgarsvæðinu og 36 verslunum á landsbyggðinni, auk þess sem nokkur hundruð matsölustaðir og vínveitingahús hefðu þau á boðstólum. Hvaða ályktun mætti draga af þeirri framtíðarsýn? Væntanlega þá að sala efnanna hefði verið gefin frjáls.
 
Ákafir frelsissinnar myndu væntanlega lofa einstaklingsfrelsi Íslendinga. Ætli við myndum eyða orðum á þann sem kvartaði yfir frelsisskerðingu í fíkniefnaríkinu á þeirri forsendu að ekki væri hægt að nálgast efnin í matvöruverslunum? Fíkniefnaneytandi í svo frjálsu samfélagi gæti einungis kvartað yfir lítilsháttar óhagræði sem honum væri búið. Hið sama gildir auðvitað um þann sem vill drekka áfengi á Íslandi í dag. Hann býr við ríkulegt frelsi til að fá sér í glas.

 

Ég hef rætt hér um einstaklingsfrelsi. Núverandi tilhögun á sölu áfengis á Íslandi felur vitaskuld í sér augljósa skerðingu á verslunarfrelsi. En verslunarfrelsinu má ekki rugla saman við einstaklingsfrelsi. Samkvæmt viðteknum skilningi á einstaklingsfrelsi byggist það á óskoruðum rétti einstaklings til að gera hvað sem honum sýnist svo lengi sem það varðar hann einan, eða fyrst og fremst hann einan. Slíkt frelsi felur óhjákvæmilega í sér rétt fullveðja einstaklings til að valda sjálfum sér skaða svo lengi sem hann eða hún skaðar ekki réttmæta hagsmuni annarra, án samþykkis þeirra, og er fær um að sinna skyldum sínum.

Verslunarfrelsi getur aldrei byggst á þessari réttlætingu vegna þess að verslun, sem félagsleg athöfn, varðar hagsmuni annarra og samfélagsins alls. Frjálslynd samfélög reisa því öll ýmsar skorður við verslun, ekki síst með áfengi. Vitaskuld má færa gild rök fyrir verslunarfrelsi. Höfuðrökin fyrir því eru og hafa verið hagkvæmnisrök: Frjáls verslun stuðlar að bættum hag almennings. Reynslan hefur sýnt að þetta eru góð rök. En hagkvæmnisrök eru ekki réttlætisrök.

Einstaklingar hafa ekki rétt á að selja áfengi. Sala áfengis er samfélagslegt úrlausnarefni. Gera má þá kröfu til neytenda að þeir leggi á sig lítilsháttar erfiði við kaup á vörum sem geta verið skaðlegar. Þetta gildir t.d. um skotvopn, eiturefni ýmisleg, lyf og líka áfengi. Neysla áfengis er ekki einungis einkamál. Áfengi getur ekki bara skaðað neytandann, heldur líka aðra einstaklinga og samfélagið allt. Umfang skaðans ræðst af magni og mynstri neyslunnar, sem aftur ræðst af aðgengi, verði vörunnar og auglýsingum. En tilfinningin fyrir skaðsemi áfengis dofnar vitaskuld með tímanum, og rótgrónar áfengishefðir blinda okkur sýn. Við getum t.d. reynt að gera okkur í hugarlund hvaða viðbrögð sölumaður fengi sem vildi nú um stundir kynna nýjan svaladrykk á markaði sem valdið gæti 200 líkamskvillum og sjúkdómum, yki verulega líkur á heimilisofbeldi og misnotkun, og kæmi iðulega við sögu í morðum, limlestingum, hvers kyns smáglæpum og banaslysum í umferðinni. Slíkur drykkur er ekki venjuleg vara. Frjálslynt samfélag hefur fullan rétt á að takmarka sölu slíkrar vöru, ekki síst þegar það er gert án þess að skerða frelsi einstaklingsins svo heitið geti, líkt og gert er á Íslandi og í mörgum fylkjum Bandaríkjanna og ríkjum Kanada.

Vilhjálmur Árnason, alþingismaður, hefur boðað að hann muni leggja fram frumvarp um sölu áfengis í matvöruverslunum á haustþingi. Athygli vekur að sjálfur segist hann aldrei hafa drukkið áfengi og ætli sér ekki að gera það í framtíðinni. Í blaðaviðtölum er þessu stundum slegið upp og munu vafalítið margir álykta um óeigingjarna frelsisást þingmannsins af þessu tilefni. En líta má á málið öðrum augum.

Drykkjusiðir þingmannsins eru þessum málaflokki nefnilega allsendis óviðkomandi. Uppsláttur blaða um bindindismennsku þingmannsins er einungis til þess fallinn að beina athygli almennings frá kjarna málsins sem er sá að áfengisstefna okkar er tilraun til að virða í senn einstaklingsfrelsi og almannahagsmuni. Að bindindismaður beiti sér fyrir aukinni neyslu áfengis er líkast því að hjólreiðamaður beiti sér gegn hámarkshraða bifreiða eða langhlaupari gegn reykingabanni á veitingahúsum. Slíkur málflutningur væri skondinn, en um áfengi virðist gegna öðru máli. Þar nær yfirborðslegt frelsishjal iðulega að beina athygli fólks frá þeim skaða sem síaukið aðgengi að áfengi veldur samfélagi okkar. Að bjóða upp á áfengi í matvöruverslunum er ekki hænuskref, líkt og stundum er haldið fram. Það fæli í sér margföldun á útsölustöðum áfengis (allt að tíföldun sýnist mér, væri leið Dana farin). Þetta óheillaskref ættum við ekki að stíga í nafni óljósra frelsishugmynda. Við eigum vitaskuld að virða frelsi fullveðja einstaklinga til að ráða eigin lífi sjálfir en líka rétt samfélagsins til að takmarka skaðann sem áfengi veldur einstaklingum, fjölskyldum, atvinnulífinu og samfélaginu öllu.

Áframhaldandi bann við sölu áfengis í matvöruverslunum fer ekki gegn hugsjóninni um frelsi einstaklingsins.

s

Grein eftir Róbert H. Haraldsson

Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands

Grein fengin af vef foreldrasamtok.is