Áhrif skammdegis á líðan okkar
Skammdegið fer misvel í okkur landsmenn. Meðan mörg okkar kunna vel við sig í rökkrinu og njóta þess að geta kveikt á kertaljósum og hafa það notalegt eru aðrir sem sakna birtunnar og eiga erfiðara með að aðlagast lækkandi sól.
Flestir finna þó fyrir einhverjum breytingum á líðan eftir árstíðum og getur minnkandi birta í skammdeginu haft þau áhrif á fólk að það finni fyrir kraftleysi, mislyndi, erfiðleikum með svefn, aukinni matarlyst og minnkaðri löngun til samskipta við aðra.
Hvernig lýsir það sér?
Ef andleg vanlíðan í kjölfar skammdegis verður það mikil að það hamli eðlilegu, daglegu lífi getur það verið merki um vetraróyndi eða skammdegisþunglyndi. Þá er um árstíðarbundna geðlægð að ræða sem hefst á svipuðum tíma ár hvert, með lækkandi sól að hausti og lýkur með hækkandi sól að vori. Í þeim tilfellum er mikilvægt að leita sér aðstoðar sálfræðinga eða annarra sérfræðinga. Það er þó aðeins lítið hlutfall þjóðarinnar sem glímir við vetraróyndi en ein árangursríkasta meðferðin við því er sérstök ljósameðferð, þar sem viðkomandi situr í ljósi frá lampa sem líkir eftir dagsbirtu.
Vetraróyndi er mun sjaldgæfara hér á landi en annars staðar í heiminum þar sem breytingar á birtu eru svipaðar og hér. Þótt skammdegið leiði ekki til röskunar hjá meirihluta þjóðarinnar hefur það einhver áhrif á flest okkar. Það getur verið mun erfiðara að hafa sig á fætur þegar dimmt er úti og þá er freistandi að liggja lengur í rúminu, sem getur leitt til þess að við verðum of sein og við það litast andrúmsloftið á heimilinu af stressi. Slík byrjun á degi getur haft áhrif á líðan okkar það sem eftir er dagsins og ef þráðurinn varð stuttur um morguninn getur samviskubit læðst að okkur síðar.
Geðrækt í skammdeginu
Til þess að minnka neikvæð áhrif skammdegisins er mikilvægt að hlúa að geðheilsunni. Grunnurinn að góðri geðheilsu og lykillinn að vellíðan er nægur svefn, gott mataræði, regluleg hreyfing, jákvætt viðhorf og góð félagsleg samskipti. Þegar þessir þættir eru í ójafnvægi getur það haft neikvæð áhrif á líðan okkar. Það er mikilvægt að vera meðvituð um að minni birta í skammdeginu geti leitt til ójafnvægis í dægursveiflu og þannig truflað svefn og aðra lykilþætti geðheilsunnar. Til að vinna gegn þessum neikvæðum áhrifum er gott að huga að geðrækt til dæmis með því að:
- fara fyrr að sofa til að eiga auðveldara með að vakna að morgni,
- hreyfa sig reglulega,
- reyna að nýta dagsbirtuna eins vel og hægt er
- borða vel og reglulega
- forðast álag
Fyrir þá sem vilja meiri dagsbirtu en hægt er að fá utandyra í skammdeginu, er hægt að kaupa lampa sem líkir eftir dagsbirtu. Það hjálpar að viðurkenna að skammdegið er manni erfitt og bregðast við því til dæmis með því að búa til notalega stemmningu með ilmi og ljósum, fara í freyðibað, kveikja á kertum, líka inni á baði og dekra aðeins við sig hvort sem það er með því að fara í jóga, nudd eða að láta annað eftir sér sem við vitum að hefur góð áhrif á líðan okkar.