Álag á rass og læri eykst við að stíga á hærri pall.
Í pistli dagsins ræðir Dr. Anna Sigríður um vinsældir Pallatíma í gegnum tíðina og kosti þeirra, hún bendir einnig á að slík þjálfun sé þolþjálfun.
Vissir þú að pallatímar hafa verið vinsælir í yfir 20 ár og lifað af allar tískusveiflur á markaðnum?
Pallar komu fyrst fram á sjónarsviðið fyrir rúmum tuttugu árum og náðu strax miklum vinsældum. Þrátt fyrir að fjöldinn allur af þolfimitímum, tækjum og kerfum hafi litið dagsins ljós síðan eru fáir tímar sem verða jafn lífsseigir. Þeir sem einu sinni hafa komist upp á lagið með að svífa um og yfir pallana þreytast seint á því og vilja stöðugt meira. Þannig hafa pallarnir þróast og sporin geta á köflum orðið ansi flókin fyrir þann sem er að taka fyrstu skrefin.
Færni á pöllum krefst nokkurrar tækni og færni sem þarf að gefa sér tíma til að ná. Það er því nauðsynlegt að gefa sér tíma til að prófa nokkra tíma og venjast hreyfingunum, en eftir það er það eins og að hjóla eða prjóna, þegar grunninum er náð er eftirleikurinn auðveldur og hann gleymist heldur ekki aftur. Gott er að byrja á einfaldari tímum, svokölluðu StepFit, en Freestyle Step hentar vel þeim sem eru farnir að venjast pallinum og/eða finnst gaman að dansa.
Byggjum upp – hjartavöðva!
Pallatímar eru fyrst og fremst þolþjálfun. Þolþjálfun reynir á hjartað, æðakerfið og lungun auk þess sem það eykur styrk í neðri hluta líkamans – sérstaklega lærum, rassi og kálfum – verulega að klífa pallinn. Fjölbreytt spor auka álag á fleiri vöðva og tryggja að við fáum sem mest út úr æfingunum. Hliðarlyftur vinna á mitti, utanverðum lærum og mjöðmum, hæll í rass (hamstring curl) styrkir neðra bak, rassvöðva og aftanverð læri, framspörk vinna á lærum, beygjuvöðva mjaðma og kvið og þannig mætti lengi telja.
Það eru margir kostir við að stunda þolfimi á pöllum.
Á meðal kosta pallanna er að fólk getur æft undir mismiklu álagi og stillt sig af í takt við eigið þol og getu þar sem að það á sinn fasta stað en getur nýtt skrefalengd, hæð pallsins, handahreyfingar og aflið í hreyfingunum til að stjórna álaginu. Þar sem hver á sinn stað þarf heldur ekki að hafa neinar áhyggjur af því að trufla neinn þótt maður sleppi spori eða kjósi að „impróvísera“. Tækifæri gefst til að kynnast fjöldamörgum öðrum kostum pallanna ef maður gefur sér tíma í að læra undirstöðuatriðin og lærir að njóta augnabliksins!
· Pallar byggja upp þol og vöðvastyrk í fótleggjum og mikil brennsla gerir pallana kjörna til að vinna að góðu formi og kjörþyngd.
· Við brennum um 6-11 kcal á mínútu á pöllum, þannig að 40-50 mínútur samfleytt á ferð á pallinum gefur mikla brennslu.
· Mikil ákefð í tímum eykur eftirbruna.
· Ákefðin og álagið á pöllum ásamt taktfastri tónlistinni léttir lundina og geðið.
· Hægt að stilla ákefð og álag að einstaklingnum (sjá ofan).
· Aukinn styrkur og liðleiki samhliða þolþjálfuninni.
· Eykur beinþéttni.
· Bætir jafnvægisskyn og samhæfingu.
· Með réttri beitingu stuðla hreyfingarnar að bættri líkamsstöðu og styrk kviðar og baks.
· Góður undirbúningur fyrir fjallahlaup, göngur og skíðamennsku.
· Gott mótvægi við styrktarþjálfun.
· Hugarleikfimi – þjálfar einbeitingu að læra sporin.
· Fjölbreytni - tíminn er fljótur að líða.
Anna Sigríður Ólafsdóttir, leiðbeinandi í freestyle step og dósent í næringarfræði á Rannsóknastofu í Íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands.