Alþjóðleg vika tileinkuð bólusetningum
Undanfarin ár hefur Alþjóðaheilbrigðismála - stofnunin (WHO) tileinkað bólusetningum eina viku á ári sem í ár eru dagarnir 24.–30. apríl.
Með þessu framtaki vill WHO leggja áherslu á að lönd, svæði og þjóðir um allan heim leggi aukinn kraft í bólusetningar og almenn þátttaka í bólusetningum aukist á öllum aldursskeiðum.
Í ár er sérstaklega lögð áhersla á að auka þátttöku í bólusetningum gegn rauðum hundum og mislingum með það að markmiði að útrýma þessum sjúkdómum.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur áætlað að bólusetningar komi í veg fyrir 2–3 milljónir dauðsfalla árlega af völdum barnaveiki, stífkrampa, kikhósta og mislinga en um 85% barna í heiminum eru bólusett gegn þessum sjúkdómum. Á árinu 2014 er talið að um 115.000 einstaklingar hafi látist af völdum mislinga og um 100.000 börn fæðst með vanskapanir af völdum rauðra hunda, langflest þeirra óbólusett.
Á Íslandi hefur þátttaka í bólusetningu gegn mislingum og rauðum hundum verið 90–95%, en æskilegt er að þátttakan sé um eða yfir 95% til að halda þessum sjúkdómum frá landinu.
Mislingar greindust síðast á Íslandi 2014 og rauðir hundar 2012, en sýkingarnar bárust hingað erlendis frá.
Svo vel vill til að dagana 28.–29. apríl nk. verður haldin hér á landiNorræn ráðstefna um bólusetningar. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár í einhverju Norðurlandanna. Á ráðstefnunni verður rætt um ýmis mál sem tengjast bólusetningum eins og notkun nýrri og eldri bóluefna, kostnaðarhagkvæmni bóluefna, heilsufarsskoðun og bólusetningar hælisleitenda, skortur bóluefna og samanburður á fyrirkomulagi bólusetninga á Norðurlöndunum.
Bætt aðgengi að bólusetningum
Með alþjóðlegu bólusetningavikunni vill WHO hvetja lönd um allan heim til að bæta aðgengi að bólusetningum og flýta aðgerðum sem auka þátttöku í bólusetningum.
Á Íslandi hafa bólusetningar komið í veg fyrir margar alvarlegar sýkingar og greinast hér vart lengur þeir sjúkdómar sem bólusett er gegn.
Á vef Embættis landlæknis má finna töflu yfir þá sjúkdóma sem bólusett er gegn. Taflan sýnir hvaða fæðingarárgangar hafa verið bólusettir í almennum bólusetningum á Íslandi og gegn hvaða smitsjúkdómum. Þar má líka finna lista sem sýnir hversu alvarlegar afleiðingar sjúkdóma sem bólusett er gegn geta haft og hver dánartíðni þeirra er.
Báðar þessar töflur má einnig finna á facebook sóttvarnalæknis.
Sjá nánar á vef WHO.
Sóttvarnalæknir