Án árekstra fortíðar værirðu ekki hér - Guðni og hugleiðing dagsins
Að fyrirgefa felur í sér nokkrar staðreyndir:
Það er aðeins ein tilfinning: Ást. Þú elskar allt sem þú varst, allt sem þú ert, allt sem þú verður. Þú elskar alla sem þú hefur kynnst og elskar allt sem þeir hafa gert með þér, fyrir þig, handa þér – en líka það sem þeir hafa gert þér. Þegar þú lifir uppljómaður í ljósinu elskarðu sérstaklega heitt það sem aðrir hafa gert þér, gert á þinn hlut, valdið þér vonbrigðum eða sárindum, því að þau svöðusár hafa hjálpað þér á leiðinni hingað, inn í gáttina til velsældar. Án „svika“ og „vonbrigða“ af hálfu annarra og án árekstra fortíðarinnar værirðu ekki hér.
Ekkert er slæmt þegar allt er orka. Þegar allt í heiminum er orka þá á allt í heiminum jafn mikinn rétt á sér. Þetta finnst sumum erfitt að ná utan um, sérstaklega vegna þeirra fjölbreyttu hörmunga sem eiga sér stað. Ég hef stundum sagt dæmisögu af sjálfum mér og byssukúlu:
Ég er orka og ég fer í fjallgöngu í þokunni. Á sama tíma gengur annar maður á svipuðum slóðum. Hann er orka. Hann er á veiðum og heldur á byssu, hann setur kúlu í byssuna. Kúlan er orka.
Maðurinn sér mig ekki og hleypir af, kúlan leggur af stað í góðri framgöngu og ég og kúlan mætumst. Kúlan – þessi fljúgandi, samþjappaða orka – mætir mér og minni orku og endar í miðju lærinu á mér.
Hver var í rétti? Og hver í órétti?
Hver var heppinn og hver óheppinn?
Hvað er heppni?
Hugsanlega var ég „heppinn“ að fá kúlu í lærið? Hugsanlega bjargaði kúlan mér frá því að stíga eitt skref í viðbót fram af klettabelti? Ég veit það ekki og get ekki vitað það – ekki í þoku lífsins. Á venjulegu andartaki sé ég ekki hið stóra samhengi ævi minnar og get því ekki dæmt um það hvort tilteknir atburðir eru af hinu góða eða af hinu slæma.
Ég stend á fjöllum í þoku með holu í lærinu. Hvað ætla ég að gróður setja í holunni? Fallegt blóm eða beiska jurt?