Andaðu, gerðu ekkert annað - hugleiðing dagsins frá Guðna
Af hverju viltu ekki vera með sjálfum þér?
Sestu í stól. Andaðu eins og þér er tamt. Gerðu ekkert annað. Gáðu hversu langur tími líður þar til þér er farið að leiðast.
Ein mínúta? Tvær? Þrjár? Ertu farinn að ókyrrast? Iða í sætinu? Finna þér leið út úr þessari áþján?
Af hverju finnst okkur við svona leiðinleg? Af hverju þolum við ekki við í eigin félagsskap? Við erum alveg jafn spennandi, heillandi, gáfuð og gefandi og besti vinur okkar sem við viljum endilega hitta og verja tíma með. Er það vegna þess að þegar við erum iðjulaus og sitjum kyrr í stól þá fer hugurinn af stað? Er það vegna þess að við höfum gengist inn á þá hugmynd að við séum hugsanir okkar? Og vegna þess að okkur líkar hreint ekki við þessar hugsanir?