Andleg heilsa skiptir líka máli
Upp úr miðjum aldri fer að skilja á milli hvernig fólk hefur farið með sig síðustu tíu til tuttugu árin á undan. Ef ekki hefur verið hugsað nógu vel um heilsuna getur það komið niður á geðheilsunni og einstaklingurinn hefur minna úthald til vinnu, minna þrek og einbeitingu og svefntruflanir geta komið upp.
Uppsker meira úthald
Andleg og líkamleg heilsa tengjast líka. Ef líkamleg heilsa er slæm eru meiri líkur á vöðvaverkjum og vefjagigt og því er mikilvægt að halda í hreyfinguna. Fólk sem hreyfir sig reglulega þó að það léttist ekki neitt uppsker meira úthald og vellíðan. Hreyfing er eitt besta þunglyndislyf sem til er, hún kemur endorfínframleiðslunni af stað og bætir svefninn sem er grunnur þess að viðhalda taugakerfinu. Mikilvægt er að færast ekki of mikið í fang varðandi vinnu og nauðsynlegt að læra að slaka á, taka færri verkefni að sér eða finna sér sinn farveg í því. Misjafnt er milli einstaklinga hvað menn þola mikið álag, hver og einn þarf að sníða sér stakk eftir vexti því annars geta menn brunnið upp í starfi og allskyns vandamál komið upp. Áhyggjur, kvíði og svefnleysi geta fljótlega orðið að vítahring.
Hanga ekki á biturð
Tengsl við annað fólk skipta máli. Mikilvægt er að passa sig á að gera upp mál ef einhver óuppgerð mál eru fyrir hendi og að hanga ekki lengi á biturð, spennu, reiði eða öðrum neikvæðum eða sársaukafullum tilfinningum sem geta komið upp í samskiptum við vinnufélaga, yfirmenn eða nánustu ættingja. Öllum er í hag að leysa úr málum, safna þeim ekki upp án þess að gera þau upp því að svona mál geta safnað upp spennu í undirmeðvitundinni. „Við fáum á hverjum degi nokkra einstaklinga á öllum aldri sem koma í panikkasti inn á bráðamóttökur spítalanna, heilsugæslustöðvar og læknavaktina með ofsakvíðaköst eða panikköst. Þessi köst eru merki frá taugakerfinu og ber að taka sem viðvörun um að viðkomandi sé mögulega að ofgera taugakerfinu eða hafi ekki unnið nógu vel úr einhverju andlegu álagi,“ segir Svanur Sigurgeirsson, lyflæknir á Landspítalanum.
Að efla sig
Þegar ofsakvíðaköst eða panikköst koma upp er gott að endurskoða líf sitt og reyna að slaka á. Svanur bendir á að sjúkdómar af þessu tagi komi oftar fyrir hjá mjög samviskusömu fólki og þá þurfi menn að slaka á kröfunum hjá sjálfum sér, gera upp við nánustu vini, vinnufélaga, fjölskyldu eða ættingja og minnka þannig spennuna.
Þegar kvíðavandamál, fóbíur eða félagsfælni koma upp mælir hann með að leita til sálfræðinga eða geðlækna og fara kannski í atferlismeðferð.
Á vefnum www.reykjalundur.is er hægt að fara í gegnum ákveðið prógramm til að skoða líf sitt og hvernig menn bregðast við. Í gegnum þetta prógramm er fólki hjálpað til að vinna betur úr álagi, streitu og yfirvinna ótta og hindranir. Svanur segir slæmt ef fólk lætur ótta stýra lífi sínu. Það þurfi hughreystingu til að efla sig og læra að takast á við lífið á annan máta en þegar það er fast í vítahring kvíða og erfiðra tilfinninga.
Þjálfa minnið
Fólk á efri árum getur hjálpað sjálfu sér með að viðhalda andlegu heilbrigði með líkamsæfingum og þjálfa hugann og minnið, til dæmis með því að lesa, tefla, vera í leikjum sem reyna á hugann og passa svo að einangrast ekki félagslega heldur leita félagsskapar og taka jafnvel þátt í góðgerðastarfsemi, vera innan um fólk sem er hresst og jákvætt. „Við erum félagsverur og nærumst á því að umgangast annað fólk og þjálfa hugann. Fólk sem heldur heilsu og heldur áfram að vinna langt fram eftir ævi lifir yfirleitt lengur og nær meiri gæðum út úr lifinu. Þeir sem eru hraustari ná að vinna lengur. En fólki sem glímir við verkefni eftir að það hættir vinnu, heldur sér virku og er í krefjandi áhugamálum vegnar betur,“ segir Svanur.
Í kringum heilbrigðiskerfið er hægt að fá ýmsa vellíðunarþjónustu á borð við hugleiðslu, jóga, nudd, leirböð og heita pottinn og þessi vellíðunarþjónusta getur gefið afslöppun og ánægju og hefur því sjálfstætt gildi sem slíkt þó að ekki hafi verið sýnt beint fram á að það hafi sannanlega heilsubætandi áhrif.
Guðrún Helga Sigurðardóttir skrifar.
Heimild: lifdununa.is