Andleg heilsa
Samkvæmt orðabók þýðir andlegur allt það sem varðar hugann, þar með talið trúarbrögð og andleg málefni. Andleg heilsa (e. Mental health) er hugtak sem er notað til að lýsa því hvernig fólk upplifir líðan sína, það tjáir sig um hvernig því líður (huglægt mat). Við mat á andlegri heilsu er einnig athugað hvort manneskjan getur hugsað eðlilega eða rökrétt og hversu vel viðkomandi er til þess fallin/n að takast á við atburði í eigin lífi. Þó flestir stefni að því að hafa fullkomna andlega og líkamlega heilsu, er talið að enginn einstaklingur búi alltaf við fullkomna andlega heilsu allt sitt líf. Við erum hluti af umhverfi okkar og höfum ekki stjórn á öllu því sem þar gerist. Þegar á móti blæs eru miklar líkur til þess að við upplifum vanlíðan og streitu. Þessar tilfinningar eru algengar ef við finnum að við höfum ekki stjórn á því sem er að gerast, eða það ógnar öryggi okkar og velferð, sem mega þó teljast eðlileg varnarviðbrögð í mörgum tilfellum. Andleg heilsa byggist á að þekkja muninn á réttu og röngu, finnast við tilheyra, að hafa tilfinningu um tilgang og viljann til að láta gott af sér leiða. Hugsa um hag annarra til jafns við sinn eigin hag. Ójafnvægi og óánægja á þessu sviði getur oft leitt til þunglyndis, því án tilfinningar um, að við tilheyrum einhverju eða einhverjum, getur verið erfitt að finna tilgang í lífinu.
Allir þessir þættir eru jafn mikilvægir. Það er einstaklingsbundið hversu lengi við komumst upp með að sinna þeim ekki. Hinn gullni meðalvegur hefur reynst best. Ekki er endilega nauðsynlegt að neita okkur um alla hluti, heldur að gæta hófs.
Streita er samkvæmt orðabók áreynsla, erfiði, þreyta, taugaspenna sökum langvarandi áreynslu eða að láta sig ekki með eitthvað. Hugtakið streita er oftast notað um neikvæða tilfinningalega líðan sem einkennist af spennu með tengdum hegðunar- og líffræðilegum breytingum sem tengjast skynjun einstaklingsins á atburðum eða hlutum. Flest viðbrögð við streitu fela í sér tilfinningu um ófullnægjandi getu og félagslega einangrun viðkomandi. Streita getur þó verið hvetjandi eða jákvæð í sérstökum aðstæðum, t.d. sem hvatning til að lesa fyrir próf. Streita er andstæða slökunar. Streituvaldar eru þeir atburðir sem orsaka streituviðbrögð.
Grein af vef heil.is