Anis - Fróðleikur um krydd og kryddjurtir
Anísfræ = Pimpinella anisum
Notuð heil eða marin í karrýrétti með kjúklingi og öðru kjöti, einnig með osti og ávöxtum eða út í vatnið sem fiskur er soðinn í. Ítölsk og portúgölsk matargerð inniheldur oft anís sem hráefni, Þjóðverjar og Ítalir nota anís í brauð, kökur og sætabrauð en á norðurlöndunum eru anísfræ stundum notuð í brauð í staðinn fyrir caraway fræ. Annars eru fræin notuð í kökur, græn salöt, rauðrófusalöt og ávaxtasalöt. Einnig er anís stundum sett saman við súr-sætar agúrkur sem stundum er kallað pickles. Aníslíkjör er vel þekktur t.d. Ouzo grískur líkjör.
Um anísfræin
Anísplantan sem er ein elsta kryddjurtin í heiminum, vex í fjölmörgum heimsálfum og löndum. Hún kýs frekar þurran og kalkríkan jarðveg og þrífst illa blautu umhverfi. Plantan vex upp í að vera um 50 cm á hæð yfir árlegan vaxtartíma sinn og blómstrar fallegum hvítum blómum. Fræin eru grænbrún að lit og hafa sætan sérstakan ilm og sætt bragð. Gæði anísfræanna eru metin á magni olíunnar sem þau innihalda, litur þeirra og skerpan í bragðinu skipta einnig máli. Eins og með aðrar afurðir náttúrunnar halda fræin betur bragði sínu ef þau eru geymd í heilu lagi og á þurrum stað.
Lesa má ýmsar sögur og frásagnir um óstaðfestar verkanir anísfræja, meðal annars að anísfræ undir koddann komi í veg fyrir martraðir og að þau dragi úr hósta og kvefi og minniháttar verkjum. Einnig að þau dragi úr maga- og ristilkrömpum og auki matarlist. Rómverjar til forna bökuðu kökur með anísfræjum sem borðar voru eftir þungar máltíðir í þeim tilgangi að róa magann eftir ofátið.
Grikkir bera gjarnan fram anís líkjörinn, Ouzo, sem fordrykkja til dæmis á grískum veitingahúsum. Hollendingar borða kexkökur, kallaðar „muisjes“ (litlar mýs) skreyttar með marglitum, sykurhúðuðum anísfræjum til að fagna fæðingum barna svo fátt eitt sé nefnt.