Aníta varð í 2. sætinu í kjörinu um Íþróttamaður ársins 2013
Þau Aníta Hinriksdóttir, Guðmundur Sverrisson og Gunnar Páll Jóakimsson voru glæsilegir fulltrúar frjálsíþrótta og ÍR á glæsilegu og mannmörgu hófi sem félag íþróttafréttamanna og Íþrótta og Ólympíusamband Íslands héldu í Gullhömrum í gærkvöldið, 28. desember, og var sjónvarpað í beinni útsendingu til allra landsmanna.
Aníta varð í 2. sætinu í kjörinu um Íþróttamaður ársins 2013 en hún var á dögunum kjörin Frjálsíþróttakona ársins og Frjálsíþróttamaður ársins 2013. Aníta hlaut mikið lófatak enda stórkostlegt ár að baki hjá þessari ungu afrekskonu sem ÍR hefur alið upp af mikilli kostgæfni.
Guðmundur Sverrisson sem var valinn frjálsíþróttakarl ársins 2013 fékk einnig viðurkenningu og lófatak enda glæsilegur íþróttamaður þar á ferðinni sem skipað hefur sér sess meðal 50 bestu spjótkastara heimsins þrátt fyrir ungan aldur.
Gunnar Páll Jóakimsson var einn þriggja afreksþjálfara tilnefndur sem þjálfari ársins en hlaut ekki viðurkenninguna að þessu sinni. Það er þó ljóst að mjótt var á mununum milli þeirra Gunnars, Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar og Alfreðs Gíslasonar sem hlaut nafnbótina.
Frjálsíþróttadeild ÍR getur sannarlega vel við unað þegar litið er til ársins 2013 og sífellt eflist deildin að mannauð og styrk og á orðatiltækið "menn uppskera eins og þeir sá" vel við þegar deildin er annars vegar.