Fara í efni

Anna Birgis ritstjóri HEILSUTORGS um megrunarkúra: „Skyndilausnir virka aldrei!“

Anna Þóra Birgis hefur atvinnu af því að fjalla um heilsu og uppbyggilegan lífsstíl. Hún ritstýrir íslenska heilsuvefnum heilsutorg.is, en er sjálf búsett ásamt Gabriele, unnusta sínum, fjórum kolsvörtum köttum og flökkunaggrís í belgíska bænum Charleroi og gegnir fjarvinnu frá vesturhluta Evrópu í fullu starfi.
Anna Birgis ritstjóri HEILSUTORGS um megrunarkúra: „Skyndilausnir virka aldrei!“

Anna Þóra Birgis hefur atvinnu af því að fjalla um heilsu og uppbyggilegan lífsstíl.

Hún ritstýrir íslenska heilsuvefnum heilsutorg.is, en er sjálf búsett ásamt Gabriele, unnusta sínum, fjórum kolsvörtum köttum og flökkunaggrís í belgíska bænum Charleroi og gegnir fjarvinnu frá vesturhluta Evrópu í fullu starfi.

 

Sjálf segir Anna fjarvinnuna glæða hversdaginn skemmtilegum ljóma og að netið geri fólki í sífellt auknum mæli kleift að vera statt hvar sem er á jarðarkringlunni, það eina sem til þurfi er tækjabúnaður og þráðlaust net, ágæt íslenskukunnátta og þekking á umfjöllunarefnum. Að ritstýra heilsuvef er þó ekki jafn einfalt og ætla mætti, því flæði upplýsinga er talsvert og sannreyna þarf staðreyndaöflun áður en lengra er haldið.

Anna er búsett í belgíska bænum Charleroi og ritstýrir Heilsutorg að utan

„Það er ansi margt sem ég þarf að hafa á hreinu. Til dæmis reynum við [hjá heilsutorg.is innsk. blm] ávallt að vera fyrst með það sem er nýjast og flottast er viðkemur heilsu og heilbrigðum lífsstíl. Uppskriftir af hollum réttum eru mjög mikilvægar og svo að fá okkar lesendur til að vera virkir með okkur. Til dæmis er í gangi núna 30 daga áskorun; að drekka einn grænan drykk á dag og þýði ég allar uppskriftir að þessum drykkjum sjálf.”

Erfitt að finna heilnæma veitingastaði í Charleroi

Aðspurð segir Anna að Belgar séu því miður ekki jafn hlynntir heilsufæði og Íslendingar, þó sannlega megi finna gnægt heilsuverslana í Brussel sem er höfuðborg Belgíu. „Belgar eru ekkert rosalega framalega í þessum málum,” svarar Anna með vísan til slakrar heilsuvitundar íCharleroi. “Þá er ég aðallega að tala um hollustumat, það er t.d erfitt að finna veitingastaði hér þar sem ég bý sem selja bara hollt og gott.”

Þetta gerir að verkum að Anna og unnusti hennar leggja reglulega upp í heilnæma innkaupaleiðangra til Brussel, þar sem þau versla holl hráefni í sérverslunum og ferja svo heim til Charleroi. „Það er aftur á móti nóg af líkamsræktarstöðvum hér upp um alla veggi en því miður eru alltof margir Belgar í ofþyngd. Það er mjög mikið af konum, þá sérstaklega hér í Charleroi, sem eru alltof þungar. En að fara inn í Brussel er allt annað, enda erum við að flytja þangað í lok janúar og hlakka ég mikið til. Þar eru á hverju strái dásamlegir vegan staðir, flottir djúsbarir, heilsubúðir og margt fleira.”

Íslendingar afar sólgnir í fræðslu um heilbrigðan lífsstíl

„Íslendingar eru ansi framalega þegar kemur að hollustu og heilbrigðum lífsstíl, miðað við hér í Belgíu” svarar Anna ennfemur, en segir hryggilegt að svo margir kjósi að sneiða hjá óunnum matvælum og kippi fremur tilbúnum réttum með heim. „Sem mér finnst eiginlega sorglegt, því í matvöruverslunum hér er svo gríðarlegt magn og úrval af ávöxtum,berjum, hnetum og grænmeti sem kostar alls ekki mikið. Ef ég horfi í matarkörfu hjá hinni týpísku belgísku húsmóður þá verð ég bara svolítið sjokkeruð, þar eru mest tilbúnir réttir til að hita upp og lítið ber á ávöxtum og grænmeti.”

Anna er mikill dýravinur og á fjóra kolsvarta ketti

Skyndilausnir bera engan árangur

Aðspurð segir hún þó úrval matvöru skemmtilegt á meginlandi Evrópu, að val milli ólíkra hráefna sé talsvert og gagnrýnir um leið að verðmunur á ferskum ávöxtum og grænu káli skuli vera svo gífurlegur milli landa. „Ég stökk út í búð um daginn um daginn því mig vantaði í grænan drykk og ég greip tvo stóra poka af spínat, haus af grænkáli, bláber, hindber, banana og risastóra melónu. Þetta allt saman kostaði mig heilar 15 evrur. Ef þú reiknar að 10 evrur séu í kringum 1500 íslenskar krónur [ sjá gengi gjaldmiðla á vef Seðlabankans innsk. blm] þá var þetta sko ódýrt.”

Önnu verður ekki svaravant þegar talið berst að árangursríkum lausnum og iðkun heilbrigðra venja. Þá segir hún margt að varast í heilsuumfjöllunum og að ófáar galdraformúlur virki ekki sem skyldi. „Eitt svar: Skyndilausnir. Þær virka aldrei.”

Starfið fletti ofan af glútenóþoli ritstjóra

Staða ritstjóra átti þó eftir að umbylta lífsvenjum Önnu og þannig rann upp fyrir henni eftir ákveðinn tíma í starfi að sjálf væri hún sennilega með glútenóþol. „Ég reyni að vera dugleg að borða hollt og hef gert lengi. Ég er mikill aðdáandi kókósvatns og drekk það daglega ásamt því að það er ávallt einn grænn drykkur í morgunmat hjá mér, nema þegar ég malla mér hafragraut og skelli út á hann kanel, bláberjum, hindberjum og banana. Þetta með glútenóþolið var eitthvað sem mig grunaði að ég væri með, en einhvern veginn spáði ekki í því lengi. Það var svo ekki fyrr en ég las rosalega góða grein um einkenni glútenóþols að ég ákvað að prufa að taka allt glúten úr mataræðinu.”

Anna fer reglulega í heilnæmar innkaupaferðir til Brussel

Þegar þetta er ritað hefur Anna iðkað glútenlausan lífsstíl í rúma þrjá mánði og segir mikinn mun á líðan sinni.  „Ég finn stóran mun á mér, andlega og líkamlega.  Ég þarf auðvitað að passa að allt hráefni sem ég nota í minn mat sé glútenfrítt, enda borða ég rosalega mikið af grænmeti, ávöxtum, hnetum og fræjum. Ég elska kjúkling og kalkún og auðvitað túnfisk.” Anna er þó ekki hrædd við að viðurkenna að henni, rétt eins og flestum, dreymi oft um óhollan og sætan mat og það jafnvel í bókstaflegri merkingu. „Ég er ennþá að þreifa mig áfram í þessu öllu og sumar nætur dreymir mig pizzur frá Dominos og djúsí hamborgara frá American style.”

„Mamma veit best“

Heilsuritstjórinn veit þó lengra en nef sitt nær og segir Anna ekki síður mikilvægt að hlúa að sálarlífinu, en heimþránna sefar hún með handavinnu. „Prjónaskapurinn, hann er snilld og ekkert nema snilld. Akkúrat núna er ég að prjóna einn bleikan trefil fyrir vinkonu mína, en það var litur að hennar ósk því hún er svo æðislega frábær og bleikt fer henni svo vel.” Aðspurð segir hún engan vafa leika á því að prjónaskapur og hekl geti beinlínis unnið bug á streitu og kvíða.

„Ég hef prjónað og heklað síðan ég var krakki, amma kenndi mér eitthvað fyrst og svo mamma, en mamma er snillingur þegar kemur að handavinnu. Ég hef prjónað með hléum árum saman og þegar ég greip í prjónana aftur núna, en þá hafði ég ekki gert neitt í langan  tíma. En þannig var nú málið að ég var svo til nýflutt hingað til Belgíu með kærastanum og fékk rosalega heimþrá, þunglyndisköst og kvíðaköst dag eftir dag. Ég hélt ég yrði bara að fara aftur heim. Ég ákvað að skrifa mömmu línu á Facebook og segja henni frá því hvernig með leið. Elsku mamma kom með lausnina: „Anna mín, taktu nú bara upp prjónana aftur því það er svo róandi og leiðir hugann að einhverju allt öðru en því hvernig þér líður,“ og viti menn og konur, ég fór í garnbúðina sem er beint á móti þar sem ég bý og verslaði helling af garni, prjónum og byrjaði. Mamma hafði rétt fyrir sér. Mikið sem að prónaskapur er róandi, ég gleymi stað og stund og er alveg eins og í hugleiðslu-trans þegar ég prjóna. Þetta gerir mér ofsalega gott og ég mæli með því að prjóna eða hekla fyrir ykkur þarna úti sem eru að kljást við kvíða eða þunglyndi.”

Anna og Gabriele unnusti hennar flytja til Brussel í janúar

Anna segir að endingu ekkert mál að prjóna og litla fyrirstöðu þó kunnáttan sé ekki upp á marga fiska; allir geti lært að fitja upp og setja í myndarlegan trefil. „En fyrir þá sem vilja prófa sig áfram með flóknari uppskriftir, þá er YouTube gullnáma í prjóna og heklkennslu og hef ég kíkt þangað og rannsakað málið, en þar fann ég flott munstur sem mig langar að prófa næst.  Ég er voða mikið bara að prjóna uppúr mér. Ég er að prjóna trefla sem eru ætlaðir í jólagjafir, en þeir eru bara þetta hefðbundna, 2 sléttar, 2 brugðnar. Svona held ég áfram þangað til hann er orðinn nógu langur og þá skelli ég á hann kögri, því mér finnst trefill ekki vera trefill nema kögur sé á honum!”

Klara á sykur.is á heiðurinn af þessu flotta viðtali. 

Viltu sjá meira hvað sykur.is er að gera þessa dagana ?