Fara í efni

Anorexia, meðferð og batahorfur

Ein algengasta tegunda átröskunar er svokallað lystarstol eða anorexia. Íslenska nafnið er í raun rangnefni þar sem röskunin einkennist ekki af skorti á lyst.
norexia er flókið vandamál og er misalvarlegt
norexia er flókið vandamál og er misalvarlegt

Ein algengasta tegunda átröskunar er svokallað lystarstol eða anorexia. Íslenska nafnið er í raun rangnefni þar sem röskunin einkennist ekki af skorti á lyst. 

Einstaklingur sem þjáist af anorexiu minnkar magn þess sem hann borðar og hættir jafnvel að borða í því skyni að forðast þyngdaraukningu.  Þessir einstaklingar eru ofurseldir hugsunum um þyngdartap og líður best þegar þeim finnst þeim hafa tekist að tryggja áframhaldandi þyngdartap.  Þetta þýðir í raun að einstaklingar með anorexiu leggja allt í sölurnar til að tryggja að þeir léttist og þeim hættir til að missa stjórn á allri hegðun sem snýr að þyngdartapi. 

Við greiningu anorexiu eru tveir undirflokkar sem koma til greina.  Sá fyrri einkennist af því að viðkomandi sveltir sig einvörðungu en hinn seinni einkennist af því að samhliða sveltinu hefur einstaklingurinn flest einkenni lotugræðgi eða búlimíu, tekur átköst og framkallar uppköst.  Greining anorexiu fer fram hjá sálfræðingi eða geðlækni og er þá stuðst við viðurkennd greiningarviðmið.  Til þess að greinast með Anorexiu þarf líkamsþyngd einstaklings fyrst og fremst að vera innan við 85% af kjörþyngd hans en auk þessa þarf einstaklingurinn að vera upptekinn af áframhaldandi þyngdartapi og blindur á alvarleika stöðu sinnar.  Að lokum er almennt skilyrði fyrir greiningu, að ef kona er á barneignaraldri þá hafi hún ekki haft reglubundnar blæðingar í þrjá samfellda tíðarhringi.

Algengast er að Anorexia greinist fyrst á aldursbilinu 14-18 ára og langoftast eru það stúlkur sem greinast og eru stúlkur í raun 90% þeirra sem greinast.  Vegna þess að Anorexia greinist oftast á unglingsárunum, er algengt að hún teljist unglingaröskun.  Líkt og með aðrar geðraskanir er algengt að einstaklingar þjáist af öðrum vandamálum samhliða Anorexiunni.  Algengustu fylgikvillar Anorexiu eru: lotugræðgi (bulimia), þunglyndi, kvíði, árátta-þráhyggja og félagsfælni.



Anorexia er flókið vandamál og getur verið misalvarlegt.  Almennt er talið að batahorfur einstaklinga tengist líkamsþyngd þeirra, aldri og tímann sem þeir hafa þjáðst af vandanum. Með öðrum orðum verður ólíklegra að einstaklingur nái bata ef hann er mjög léttur, gamall eða hefur þjáðst af Anorexiu um langt skeið.  Ef einstaklingurinn þjáist af öðrum vandamálum samhliða Anorexiunni minnka einnig batahorfurnar.  Tiltölulega fáar rannsóknir hafa verið framkvæmdar á batahorfum einstaklinga með Anorexiu en þær sem framkvæmdar hafa verið sýna að Anorexia er mjög flókið og óútreiknanlegt vandamál.  Stundum getur Anorexia verið einföld og auðlæknanleg en í öðrum tilfellum getur hún verið langvinn og óviðráðanleg.  Almennt er það þó álit sérfræðinga að vegna þess hve erfiður vandinn er viðureignar þá beri að reikna með því að meðferð hans taki langan tíma. 

Mjög erfitt getur verið að vinna með fólki sem þjáist af Anorexiu þar sem það er yfirleitt í mikilli afneitun og því verður samband þess við meðferðaraðilann mun mikilvægara.  Mikilvægt er að einstaklingurinn myndi traust samband við þann sem hyggst hjálpa honum og treysti honum fullkomlega.  Sem dæmi um hve erfitt getur verið að vinna með einstaklingum með Anorexiu, líta þeir oft á þyngdartapið sem lausn vandans í stað þess að sjá það sem orsökina.  Markmið meðferðar við Anorexiu er að koma aftur á eðlilegum matarvenjum og hjálpa fólki að ná aftur eðlilegri líkamsþyngd.  Bestu meðferðarúrræðin eru almennt talin vera þau sem taka á sem flestum þáttum vandans.  Ekki nægir fyrir úrræði að takast eingöngu á við hugsanir, hegðun eða félagslega þætti eina og sér heldur þarf gott úrræði að taka á öllum þessum þáttum. 

Mikilvægt er fyrir einstaklinga með Anorexiu og aðstandendur þeirra að fylgjast vel með og bregðast skjótt við þegar vandinn gerir vart við sig.  Því fyrr sem einstaklingur leitar sér hjálpar hjá færum fagaðila sem hann treystir, þeim mun líklegra er að hann muni ná tökum á vandanum.     

 Eyjólfur Örn Jónsson, Sálfræðingur - www.persona.is