Aukið aðgengi að áfengi – aukinn skaði
Vegna umræðu um frumvarp um sölu áfengis í matvöruverslunum vill Embætti landlæknis ítreka afstöðu sína.
Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu er það eitt af hlutverkum embættisins að veita ráðherra og öðrum stjórnvöldum ráðgjöf og fræðslu með það markmið að stuðla að heilbrigði landsmanna.
Sú breyting sem lögð er til í frumvarpi um afnám einkasölu ríkisins á áfengi getur haft skaðleg áhrif á heilbrigði landsmanna og því mikilvægt að hafa lýðheilsusjónarmið að leiðarljósi og að farið sé að ráðgjöf þeirra fagaðila sem hafa það hlutverk að vera stjórnvöldum til ráðgjafar.
Aukið aðgengi að áfengi, sem leiðir til aukinnar áfengisneyslu, er líklegt til að auka tíðni einstaklingsbundinna og samfélagslegra vandamála sem geta tvöfaldað samfélagslegan kostnað vegna áfengisneyslu. Því verður að skoða heildarmyndina og hafa heilbrigðissjónarmið að leiðarljósi í umræðunni áður en einkasala ríkisins á áfengi er afnumin.
Auk beinna áhrifa á einstaklinginn eru einnig töluverð áhrif sem áfengisneysla hefur á aðra en þann sem þess neytir og samfélagið í heild. Í Aðgerðaáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar kemur meðal annars fram að þessi áhrif eru ekki minni en vegna óbeinna reykinga og mun meiri en vegna notkunar ólöglegra vímuefna.
Samkvæmt nýlegri könnun á vegum embættisins hefur nálægt helmingur Íslendinga 18 ára og eldri einhvern í sínu nánasta umhverfi sem hefur drukkið of mikið áfengi einu sinni eða oftar á síðustu tólf mánuðum og af þeim segjast 60% hafa orðið fyrir neikvæðum afleiðingum vegna þessa, heldur fleiri konur en karlar (Capacent 2013).
Leiðir til að draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu
Sterkur vísindalegur grunnur er fyrir virkum aðgerðum til að draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu. Stýring á aðgengi að áfengi er árangursrík leið til að takmarka áfengisneyslu og um leið mjög virk forvarnaraðgerð.
Rannsóknir á aðgengi áfengis sýna að takmörkun afgreiðslutíma, fjölda söludaga og fjöldi sölustaða helst í hendur við minni neyslu og minna tjón af völdum hennar. Þetta kemur meðal annars fram í Aðgerðaáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Evrópu til að draga úr skaðlegri notkun áfengis 2012–2020 og Heilsa 2020 (sjá ítarefni að neðan) en hún leggur grunn að forvarnarstarfi stofnunarinnar til ársins 2020.
Ítarefni:
- Rannsóknarskýrslur um áfengismál (PDF). Samantekt, gerð í október 2014. Rannsóknarskýrslur um áfengi, neyslumynstur áfengis, áhrif áfengisneyslu á einstaklinga og samfélög, áhrif breytinga á sölufyrirkomulagi áfengis og gagnreyndar aðgerðir til að draga úr eða sporna við skaðlegum áhrifum áfengis.
- Áfengi – engin venjuleg neysluvara. Stutt íslensk þýðing á samantekt úr bókinni Alcohol – no ordinary commodity. (PDF)
- Áfengi - aðgengi - áhrif (umfjöllun frá 2005)
- Áfengi og heilsa landsmanna (umfjöllun frá 08.10.2014)
Embætti landlæknis