Fara í efni

Aukin verðmæti gagna

Þegar ákvarðanir eru teknar þarf upplýsingar og þekkingu. Burt séð frá því hvaða ákvarðanir eru teknar og hverjum þær reynast best þá eru gögn og upplýsingar grunnur rökræðunnar. Mikilvægt er að upplýsingar byggist á samræmdum og stöðluðum aðferðum þannig að nýta megi þær af þekkingu.
Páll Gunnar Pálsson
Páll Gunnar Pálsson

Þegar ákvarðanir eru teknar þarf upplýsingar og þekkingu. Burt séð frá því hvaða ákvarðanir eru teknar og hverjum þær reynast best þá eru gögn og upplýsingar grunnur rökræðunnar. Mikilvægt er að upplýsingar byggist á samræmdum og stöðluðum aðferðum þannig að nýta megi þær af þekkingu.

Í sjávarútvegi sem öðrum greinum er mikið magn upplýsinga að finna, upplýsingar sem eru grunnur að mörgum mikilvægum og afdrifaríkum ákvörðunum, sem hafa áhrif á alþjóðasamskipti, samfélagið, fyrirtæki og einstaklinga. Nú er það ekki svo að ekki sé hægt að teikna upp stóru myndina, afli allra tegunda er þekkt stærð og heildarútflutningsverðmætin liggja einnig fyrir, en þegar meta á t.d. þróun og nýsköpun einstakra tegunda eða afurða þá er erfiðara um vik.

Lögð hefur verið mikil áhersla á að skrá allan afla og er því að sjálfsögðu fylgt vel eftir, en þegar kemur að útflutningi þá tekur við annað kerfi sem byggist á skráningu útflutnings eftir tollskrárnúmerum.

Tollskránni er ætlað að vera það kerfi sem á að ná utan um allar afurðir sem fluttar eru til og frá landinu og upplýsingarnar sem útflytjendur setja á útflutningspappíra og skila til Tollsins, eru síðan grunnurinn að birtingu gagna hjá Hagstofunni, þannig að ef útflytjendur eru að kasta til hendinni við upplýsingagjöfina þá verður minna mark á takandi þeim upplýsingum sem Hagstofan birtir.

g

Þegar verið er að rýna tölur um útflutning þá er fyrsta stopp að skoða vörulýsinguna og finna út hvað er átt við eða hvað ekki er átt við, það getur reynst mjög erfitt að fá glögga mynd af þeim afurðum sem skráðar eru í tiltekin tollskrárnúmer. Vörulýsingar er oft á tíðum mjög opnar og geta átt við mismunandi afurðir, en yfir 100 hugtök eru notuð til að lýsa sjávarafurðum í tollskránni og er hvergi að finna nánari skýringar á þeim hugtökum.

Tollskrárnúmer fyrir sjávarfang eru örfá hundruð meðan tollskráin í heild hefur að geyma þúsundir annarra vörulýsinga, því er mikilvægt að sjávarútvegurinn sé með í ráðum þegar svona mikilvægur gagnagrunnur er skipulagður. Með góðum upplýsingum verða tækifærin sýnileg.

Það er engan veginn hægt að greina hver nýting einstakra tegunda er, sem sést m.a. af því að fjórða verðmætasta tegundin sem flutt er frá Íslandi er „annar fiskur“ eða „ýmsar tegundir“ það eru afurðir þar sem engin sérstök fisktegund er nefnd í vörulýsingu.

Það eru á floti fullyrðingar um svo og svo mikla nýtingu einstakra tegunda og eru menn að berja sér á brjóst og fullyrða að við séu öðrum þjóðum fremri. En það er erfitt að halda slíku fram nema að fyrir hendi liggi betri upplýsingar um allar afurðirnar. Meðan ólíkum afurðum er safnað saman í einstök tollskrárnúmer þá er ekki hægt að reikna til baka og segja hver nýting aflans er.

Þeir sem hafa komið nálægt vinnslu sjávarafurða vita að það skiptir máli að vita hvort fiskur er með eða án hauss, slægður eða óslægður, flök með roði og beinum eða roðlaus og beinlaus o.s.frv., ef þessar upplýsingar eru ekki fyrir hendi þá er útilokað að reikna út heildarnýtingu einstakra tegunda.

Matís vann í samstarfi við Tollstjóraembættið, Hagstofu Íslands, Samtök fiskvinnslustöðva, Landssamband fiskeldisstöðva, Icelandic og Iceland Seafood, verkefnið Aukin verðmæti gagna, sem styrkt var af AVS sjóðnum.

Afrakstur verkefnisins er samantekt um hver staðan er og hvernig núverandi upplýsingakerfi er ekki að ná nægjanleg vel utan um þessi gögn sem til verða. Einnig er sett fram tillaga að úrbótum og hvernig mætti ná fram mjög ítarlegum upplýsingum um allar tegundir, verðmæti og nýtingu. Skýrsluna má nálgast á heimsíðu Matís.

Páll Gunna Pálsson B.Sc verkefnastjóri hjá Matís er höfundur greinar.