Bara krakki með túrverki
Sagan mín byrjar fyrir um það bil 5 árum síðan, þegar ég var 16 ára gömul. Þá byrjaði ég fá gríðarlega slæma túrverki. Ég hélt að allar konur fengu túrverki en mínir fóru bara versnandi með hverjum mánuðinum uns ég leitaði á bráðamóttöku í fyrsta skipti. Ætli ég hafi þá ekki verið 17 ára.
Ég bjó þá með kærasta mínum sem hafði horft á mig þjást í fleiri daga, búinn að dæla í mig verkjalyfjum sem virkuðu ekki og ákvað hann loks að fara með mig upp á spítala. Þar var engin svör að fá, hvað á bráðamóttakan svo sem að gera við krakka með túrverki? Jú, ég fékk morfín og var svo send heim. Í næsta mánuði endurtók sagan sig, og svo aftur og aftur og aftur. Þangað til ég var loksins send í skoðun á kvennadeild en það fannst ekkert óeðlilegt.
Ég labbaði út með engin svör, túrverkir væru bara partur af því að vera kona og ég yrði bara að vera sterkari.
Auminginn ég
Ég fór að halda að ég væri aumingi sem þyldi ekki smá túrverki en á þessum tíma voru þetta ekki bara túrverkir, heldur verkir allan daginn, alla daga, allan mánuðinn.
Ég datt úr skóla og var meira og minna burtu frá vinnu. Lá alla daga uppí rúmi, grenjandi úr verkjum og það endaði í alvarlegu þunglyndi. Ég var bara aumingi, gat ekki unnið, gat ekki verið í skóla, gat ekki farið á æfingar, gat ekki séð um heimilið mitt, gat ekki farið út með hundinn minn, gat ekki einu sinni stundað kynlíf með kærastanum mínum.
Ég gat ekki gert neitt og það gat enginn útskýrt fyrir mér afhverju. Ég var byrjuð að taka þunglyndislyf og sama hversu oft ég fór til læknis heyrði ég alltaf: „Já ertu þunglynd? Þú ert bara svo rosalega þunglynd að líkaminn er farinn að ímynda sér líkamleg einkenni“. Sjálfsálitið mitt fór hrakandi með hverjum deginum og endaði í núlli.
Það endaði með því að ég fór að trúa þessu. Það fannst ekkert að mér, svo ég hlaut bara að vera svona rosalega þunglynd. Ég ákvað aldeilis að taka til í mínu lífi því svona ætlaði ég ekki að vera. Ég sleit sambandinu við þennan yndislega strák því ég þurfti að vinna í sjálfri mér, dreif mig aftur í skóla, eignaðist yndislegu vini mína aftur og varð nokkuð hamingjusöm. En afhverju var ég þá ennþá með verki? Líkaminn átti ekki að vera að ímynda sér verki því mér var ekki lengur illt í sálinni, ég var orðin svo hamingjusöm.
Óþarfi að skera upp unga konu
Um svipað leyti hafði ég byrjað að taka pilluna án hlés eftir eina læknisheimsóknina og var sagt að mögulega gæti ég verið með endómetríósu. En endómetríósa væri bara greinanleg með kviðarholsspeglun og það væri nú óþarfi að skera svona unga konu fyrir eitthvað sem væri óvíst. Þar sem ég tók pilluna án hlés fór ég ekki lengur á blæðingar einu sinni í mánuði. Það gerði það að verkum að mér versnaði ekki svona svakalega með hverjum mánuðinum sem leið.
Ég stóð í stað og það var mikil breyting fyrir mig. En fyrst ég var orðin svona rosalega hamingjusöm og sátt við sjálfa mig afhverju var ég þá ennþá með þessa ímynduðu þunglyndisverki?
Erfiðasta vika lífs míns
Það var svo í janúar 2014 sem ég þurfti að taka viku pilluhlé til að fara á blæðingar, þá í fyrsta skipti í ár. Líkaminn minn fór á hliðina. Ég var í vinnunni á Borgarspítalanum og á einum tímapunkti þoldi líkaminn ekki meira, ég hné niður vegna verkja og var að lokum send upp á bráðamóttöku. Ég man ekki mikið frá þessum tíma enda er þetta líklegast erfiðasta vika lífs míns. Ég byrjaði á næturgistingu á bráðamóttökunni. Þann sólahring fékk ég morfín á 2 tíma fresti.
Daginn eftir fór ég upp á kvennadeild í skoðun þar sem ekkert sást, engar blöðrur, ekkert. Það er nefnilega svo erfitt með endómetríósu að oft á tíðum sést ekki neitt, ekkert utan á líkamanum og ekkert í ómskoðun. Grunur var um botnlangabólgu sem síðar var útilokuð, þá var grunur um nýrnasteina en þeir voru fljótt útilokaðir líka. Loks fékk ég endanlega læknisfræðilega greiningu: Ég var með hægðatregðu! Mig skal ekki undra, þá var ég búin að liggja fyrir í 4 daga á rífandi sterkum og stemmandi verkjalyfjum og ekki búin að borða í marga daga.
Ákveðið var að hætta að gefa mér verkjalyf. Ég var verkjalyfjalaus í einn sólahring og það var án efa ógeðslegasti sólahringur sem ég hef upplifað. Ég lá samanhnipruð í rúminu, með hálf fullan ælupoka í fanginu og augun full af tárum þegar einn læknirinn kom inn og spurði hvort ég gæti nú ekki bara farið heim. Það væri ekkert að mér, ég þyrfti bara að fara heim og kúka. Ég sagði nei, ég færi ekki heim svona.
Loksins sjúkdómsgreining
Sem betur fer fór ég ekki heim því seinna þann dag kom til mín læknir sem sagðist halda að ég væri með endómetríósu og vildi senda mig í kviðarholsspeglun daginn eftir. Loksins kom einhver með möguleg svör. En daginn eftir kom svo nýr læknir sem vildi ekki skera mig upp. Þá hringdi ég grátandi í mömmu, gjörsamlega búin á því á líkama og sál og sagðist vilja fara heim. Það væri ekkert hægt að gera fyrir mig og ég gæti þetta ekki lengur. Mamma var ósátt, í gær hafi átt að skera mig en í dag allt í einu ekki. Hún kom niður á kvennadeild og reifst við læknana þangað til þeir gáfu eftir og ákveðið var að framkvæma kviðarholsspeglun og ég var drifin strax í aðgerð. Í ljós kom endómetríósa.
Greiningin breytti ýmsu fyrir mig, ég fékk hormónalyf til að stöðva blæðingarnar mínar og þar af leiðandi líka blæðingu inn í kviðarholið. Ég fæ sterkari verkjalyf og það sem meira er, ég fæ svör. Ég er ekki bara aumingi, ég er kona með endómetríósu.
Leitaðu svara
Gruni þig að þú sért að berjast við endómetríósu, hvet ég þig til að leita svara. Það er ekki til lækning, en það eru til meðferðir og það eru til svör.
Á endo.is eru margar góðar upplýsingar, meðal annars um einkenni endómetríósu og meðferðir. Ef þú hefur einkenni endómetríósu ættir þú að tala við kvensjúkdómalækninn þinn og leita svara.
Ekki þjást í hljóði, fáðu svör.
Höfundur greinar er Karolína Sigurðardóttir