Barbapapa forspáir um umhverfismál framtíðarinnar
Voru höfuar Barbapapa forspáir um umhverfismál framtíðarinnar?
Hver man ekki eftir sögunni um Barbapapa þar sem Barbapapafjölskyldan gekk með súrefnisgrímur af því að mengunin í umhverfinu þeirra var orðin svo mikil. Á sínum tíma var þetta ekki svo hugvekjandi en í dag mætti segja að höfundarnir þau Annette Tison og Talus Taylor hafi búið yfir einhverskonar forspá um það sem verða vildi.
Umræður um margþættan umhverfisvanda, jafnvel á Íslandi, hefur ekki farið fram hjá neinum og er málið mjög umfangsmikið. Oft á tíðum er umræðan mjög heit og tengingar gerðar við öfga í veðurfari og aðrar náttúruhamfarir. Mengunin í dag er þó ekkert glænýtt fyrirbæri, á síðustu öld og fyrr var mikil mengun í mörgum iðnvæddum borgum þar sem notast var við kol við ýmiss konar iðnað og við að hita upp híbýli fólks. Sú mengun var veruleg en sem betur fer náðist að sporna gegn henni með tækninýjungum, hitaveitum og rafmagni.
Að undanförnu hafa kannanir sýnt að margir á Íslandi trúa því ekki að hlýnun jarðar sé af mannavöldum og á sama tíma er nokkur hópur fólks farinn að þjást af svokölluðum umhverfiskvíða. Er staðan virkilega orðin svona alvarleg? Margir segja – já! Margir trúa – já ! Aðrir vilja draga úr. Hverju eigum við almenningur að trúa? Það sem mestu máli skiptir er hins vegar að við nýtum okkur þá þekkingu og möguleika sem við til að snúa við blaðinu og gera það sem í okkar valdi stendur til að snúa málum til betri vegar.
Byrjum áramótunum
Umræða í fjölmiðlum um mengun af völdum flugelda og tengingu við aukningu á svifryki á höfuðborgarsvæðinu og í öðru þéttbýli fer á flug strax eftir jólastressið og sú umræða hefur verið eins nú síðastliðin ár. Þessi mengun er ekki ástættanleg eins og kom fram í erindi Þrastar Þorsteinssonar prófessors á Læknadögum í janúar.
Margir hafa skoðun á málinu og mikið er talað um hvaða möguleika við höfum en svo náum við ekki að taka skrefið af alvöru og gera eitthvað róttækt. Þessar umræður eru að mestu uppbyggilegar og rætt er um flugeldana, sölu þeirra og hvað ef ekki þeir. Aðstæður á Gamlárskvöld eru þó töluvert háðar veðri og vindum. Ef það er stilla og kalt hlýst af meiri mengun samanborið við ef það er rok og rigning, munurinn er þó minni ef af er látið.
Umhverfisstofnun hefur gripið til þess ráðs að auka til muna upplýsingaflæðið og spá fyrir um mengun og var það áberandi fyrir tvenn síðustu áramót.
Rætt hefur verið að setja upp sérstök skotsvæði þar sem flugeldum er skotið upp og að velja þá svæði sem eru tiltölulega opin og ekki inni í þéttum hverfum það er ágæt hugmynd sem mætti prófa til reynslu.
Það er að minnsta kosti ekki lausn að segja þeim sem eiga við öndunarfærasjúkdóma að stríða að fara burt úr borginni, eins og sumir hafa sagt, það er virðingarleysi við náungann. Flestir með öndunarfærasjúkdóma halda sig inni við og auka lyfjanotkun því þeir hafa lært af reynslunni, þessir einstaklinga leita ekkert endilega læknis og því fréttum við ekki af þeirr vanlíðan. Við eigum öll að geta fagnað áramótunum í sátt og samlynd.
Hins vegar þurfum við að taka af skarið með markvissum og langvarandi aðgerðum til að ástand eins og skapaðist áramótin 2017/2018 eigi sér ekki aftur stað. Þá leituðu 15 manns á bráðamóttöku Landspítala vegna öndunar örðugleika enda mengunin sú mesta sem mælst hefur í Reykjavík, 4.000 µg/m3 á klst en til viðmiðunar þá náði styrkurinn 2.000 µg/m3 á 10 mín kafla árið 2010 vegna gossins í Eyjafjallajökli.
Hefur fólk gefast upp á að kvarta?
Við hjá AO heyrum því miður ekki mikið frá okkar félagsmönnum, mögulega eru þeir búnir að gefast upp á því að kvarta og kveina. Þó berast stundum fyrirspurnir um staði þar sem hægt er að ganga innandyra sem getur skipt verulegu máli þegar kuldinn og hálkan er sem verst. Þá kom í ljós að Egilshöll í Grafarvogi og Fífan í Kópavogi eru opin á tilteknum tímum sem eldra fólk, fólk með öndunarfærasjúkdóma og aðrir sem vilja geta nýtt sér, og sloppið við kulda, hálku og léleg loftgæði.
Þessi valkostur þarf þó einnig að vera til staðar á öðrum árstímum vegna þess að þegar frjókornin fara að gera vart við sig þá geta sumir ekki verið útvið án þess að fá heiftarleg ofnæmisviðbrögð og eftirköst sem geta varað svo dögum skiptir.
Astmasjúklingar finna fyrir menguninni
Töluverð mengun skapast í kjölfarið á þurrkatíð, vegna vinds sem þyrlar upp ryki og tjöru af götum og stígum og vegna þess að ekki var ráðist í að sópa og þrífa götur og gangstéttar tímanlega. Skýring sem gjarnan er gefin er að tækin sem notuð virki ekki í frosti!
Ástandið verður oft einnig slæmt í Reykjavík í mikilli stillu og kulda þegar vindurinn nær ekki að hreyfa við loftinu og menguninni. Þá er það helst mengunin frá bílaumferðinni sem við finnum hvað mest fyrir undir þessum kringumstæðum.
Eigin reynsla
Mín reynsla sem einstaklings með áreynslu astma er eins og reynsla margra með annarskonar astma. Versnun á astmaeinkennum verður með aukinni mengun, það eykur mæði og hæsi, ýtir undir þreytu tilfinningu, eykur lyfjanotkun, eykur líkur á veikindum og skerðir lífsgæði.
Verstu aðstæðurnar
Staðan nú er þó ekki sú allra versta sem getur komið upp, því auðvitað er mengun af völdum eldgosa á landinu eitthvað sem við höfum fundið fyrir og vitum hvernig fer með fólk og dýr, og allir finna fyrir henni ekki bara sjúklingar. Undirritaðri þótti reyndar sérstakt í Eyjafjallagosinu hvað áhuginn frá erlendum fréttamiðlum var mikill gagnvart stöðu mála og mun meiri en af hálfu íslenskra fjölmiðla. Mikilvægt er að það sé til viðbragðsáætlun þegar eldgos verða til að draga úr skaða sem mengun af þeirra völdum getur valdið.
Leiðir til úrbóta
Stjórnvöld og bæjaryfirvöld á hverjum stað setji aukið fjármagn í að þrífa götur, gang- og hjólastíga, það þýðir ekkert að leggja hjólastíga út um allt án þess að hafa á planinu að þrífa þá reglubundið! Skipuleggja þarf þessi þrif á skynsamlegan máta þannig að þegar þörfin er mest þá er mest þrifið.
Vinna með hagsmuna aðilum að því að hingað séu aðeins fluttir inn vottaðir flugeldar, þetta er mikilvæg því Íslendingar eru ekki að fara að hætta að flytja inn flugelda að stjórna gæðum þeirra er það sem skiptir mestu máli að mínu mati. Mögulega mætt stjórna betur magninu sem flutt er inn. Það er reyndar áhugavert hvernig afstaða almennings hefur breyst á einu ári en samkvæmt könnun Maskínu vildu 37% svarenda óbreytt fyrirkomulag á flugeldasölu í kringum síðustu áramót (2019) samanborið við rúm 45% árið á undan.
Leggja alfarið af áramóta- og þrettándabrennur. Brennur eru bara framleiðsla á reyk, sóti og mengun, þó svo að ástandið hafi batnað á síðustu áratugum og einungis megi setja tiltekinn eldsmat á brennurnar.
Ég myndi vilja sjá meira af mengunarmælum við leik- og grunnskóla borgarinnar og að þeir séu vaktaðir á viðeigandi máta og starfsmenn upplýstir um það hvenær börnin mega ekki fara út að leika sér og hvenær ekki. Börn átta sig síður á lélegum loftgæðum en við fullorðnu gerum og kvarta síður. Öndunarfæri barna eru viðkvæm og enn að þroskast og því er mengun mjög skaðleg fyrir þau eins og komið hefur fram hjá Gunnari Guðmundssyni lungnalækni. Einnig má nefna að svifryk kemst niður í lungnablöðrurnar og þaðan í blóðrásarkerfið og getur magn agna í öndunarfærum barna verið 2-4 sinnum meira en hjá fullorðnum. Reykjavíkurborg og sveitarfélögin þurfa því að sinna þessu eftirliti sérlega vel og hafa virkt upplýsingaflæði til þeirra sem sinna börnunum og bera ábyrgð á þeim á skólatíma.
Hvetja fólk til að nota almenningssamgöngur meira og að hjóla, ganga eða hlaupa til vinnu eða í skóla. Mörg fyrirtæki og stofnanir hafa sýnt gott fordæmi og bjóða upp á samgöngustyrki til sinna starfsmanna eitt dæmi um þetta er Landspítali.
Á þennan hátt má draga úr bílaumferð en við hér á höfuðborgarsvæðinu gætum fljótlega farið að sjá og reyna á eigin skinni það sem borgarbúar í stórborgum heimsins þurfa að sætta sig við og snýr að notkun ökutækja innan borgarinnar. Við þyrftum þá að hafa í huga í okkar þétta skipulagi, að mega kannski aðeins aka bílnum okkar á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum.
Mælingar á svifryki í Reykjavík þurftu að vera á fleiri stöðum og upplýsingaflæði til almennings virkara til að þeir sem eru viðkvæmir fyrir geti reynt að forðast útiveru á versta tíma dagsins eða að fara út fyrir borgarmörkin til að stunda útivist sé þess nokkur kostur. Það getur þó verið snúið fyrir suma en með batnandi skipulagi almenningsvagna ætti þetta að vera tiltekinn möguleiki.
Svo heyrum við líka af mengun af völdum skemmtiferðaskipa sem spúa reyk og mengun út í andrúmsloftið, það munar um minna. Lausnin á þessu væri að banna þessum skipum að koma til landsins .... nei annars það er ekki málið. Kannski mætti mögulega styrkja rafmagnskerfið á bryggjunum þar sem þessi skip leggjast að landi þannig að þau nýttu meira rafmagn úr landi. Rafmagnið mætti selja þeim.
Málin snúa að fleiru en eiginlegri loftmengun utandyra
Fyrir nokkru, líklega árið 2016 áttum við hjá AO kost á því að senda inn ábendingar til Reykjavíkurborgar varðandi umhverfistengda þætti sem betur mættu fara. Þar listaði undirrituð upp, hreinsun á götum sem er gríðarlega mikilvægan þátt, hversu oft gras á umferðareyjum og á almennum stöðum væri slegið auk þess sem plöntun tiltekinna trjátegunda nærri opinberum stöðum var til rædd. Þarna erum við að koma inn á eiginlega mengun sem skiptir okkur öll máli en einnig málefni tengt sérhæfðari vandamálum okkar skjólstæðinga sem snýr að frjókornaofnæmi og öðrum gróðurtengdum ofnæmum.
Á þessum tíma voru fyrirhugaðar sparnaðaraðgerðir hjá Reykjavíkurborg sem meðal annars áttu að felast í minni grasslætti, en sá sparnaður var greinilega tekinn af annarsstaðar því það var slegið reglubundið sumarið eftir. Síðustu sumur höfum ekki fengið ábendingar um óðeðlilega loðnar umferðareyjur eða að gras sé ekki hirt eftir slátt og vonandi verður það svo áfram.
Loftgæði innandyra eru töluvert til umræðu erlendis og þá ekki aðeins í tengslum við myglu heldur almenn loftgæði. Við hér á Íslandi tengjum vel við umræður um myglu sem er orðið stórt mál og veldur fólki miklum heilsufarslegum vanda og vanlíðan svo mánuðum og árum skiptir.
Annað sem færri átta sig á, en gott er að komi fram hér, er að hópur fólks, er með ofnæmi fyrir ilm- og hreinsiefnum, og ekki síður flókið og hamlandi, ilmvötnum og rakspíra. Fyrir þessa einstaklinga eru heimsóknir í sum apótek og snyrtivöruverslanir ávísun á vanlíðan, hvað þá leikhús- og listsýningar. AO hefur áhuga á að ná til einstaklinga sem eiga við þetta vandamál að stríða með stofnun hóps í huga og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband við félagið.
Er útivera á höfðuborgarsvæðinu skaðleg fyrir okkur ?
Undirrituð, sem hlaupari, hlaupaþjálfari og næringarfræðingur, sem hvetur fólk til hreyfingar sér til heilsubótar, hefur áhyggjur af því hvort að við séum að setja okkur í heilsufarslega áhættu með útiveru á þeim dögum sem mengunin er hvað mest. Snúa áhyggjur að langtíma áhrifum á lungu og öndunarveg. Áhugavert væri að gera læknisfræðilega rannsókn til að kanna þetta en ekki hefur fundist farvegur fyrir slíka rannsókn ennþá.
Það er ljóst að grípa verður fast og yfirvegað í taumana til sporna gegn þeirri mengun sem við verðum ítrekað fyrir í okkar nánasta umhverfi. Við getum ekki stöðvað eldfjöllin í að gjósa en við getum gert svo ótal margt til að vernda umhverfið okkar betur og betur á hverjum degi.
Af framangreindu má ráða að það er í mörg horn að líta en fyrst þurfum við Íslendingar að viðurkenna, hversu erfitt sem það er, að við eigum við mengun að stríða, við erum ekki lengur „ferskasta land í heimi“
Fríða Rún Þórðardóttir
Næringarfræðingur
Formaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands