Bein tengsl milli fæðu og hegðunar - segir Michael Clausen barnalæknir
Michael Clausen barnalæknir hefur um árabil stundað rannsóknir á fæðuofnæmi og hann nefnir rannsóknir á áhrifum fitusýra á ónæmiskerfið sem einn þeirra þátta sem hann hefur beint athygli sinni að. „Út frá því vaknaði áhugi minn á því hvernig fæðan sjálf hefur áhrif á hegðun.
Það er svo sem ekkert nýtt í sjálfu sér þar sem kjörorðið Þú ert það sem þú borðarhefur lengi verið þekkt en spurningin snýst frekar um hvernig maður nálgast þetta,” segir Michael.
Um þetta fjallaði málþing á Læknadögum sem Michael skipulagði, en þar var fjallað frá ýmsum sjónarhornum um áhrif fæðunnar á líkamann, áhrif hennar á ýmsa sjúkdóma, stoðkerfið, húðina og taugakerfið. Breytingar á
fæðumynstri þjóðarinnar voru einnig reifaðar, en þar hefur nánast orðið bylting á undanförnum árum.
„Líkaminn nýtir þá fitu sem er í boði til að mynda frumuhimnurnar,“ segir
Michael Clausen barna- og ofnæmislæknir.
Fitusýrur í frumuhimnum
Michael ræddi síðan sjálfur um áhrif fæðunnar á miðtaugakerfið og segir að lengi hafi verið þekkt að fæðan hefði ýmiss konar áhrif á hegðun og ofnæmisviðbrögð. „Á síðustu áratugum hefur rannsóknum á þessu sviði hins vegar vaxið mjög fiskur um hrygg og margt athyglisvert komið fram. Má nefna rannsóknir á áhrifum litarefna í matvælum á hegðun barna, sem hefur aftur verið staðfest í nýlegri vel gerðri breskri rannsókn. Fæðan sem við látum ofan í okkur samanstendur í meginatriðum af sykri, fitu og prótíni, auk steinefna og vítamína. Ekki hefur verið sýnt fram á að sykur hafi beinlínis áhrif á hegðun, önnur en þau að þegar börn fá stóran sykurskammt verða þau ör og kraftmikil um stund vegna þessa skyndilega orkuskots í líkamann. Fitan hins vegar er áhugaverðara rannsóknarefni þar sem hún hefur beinlínis áhrif á hegðunina. Það hefur verið sýnt fram á með góðum rannsóknum hvernig ómega-3 fitusýrur hafa áhrif á miðtaugakerfið. Bæði geta þær haft áhrif á þroska miðtaugakerfisins hjá barni í móðurkviði, á fyrstu árum barnsins og einnig hjá fullorðnum.
Allar frumuhimnur í líkamanum eru búnar til úr fitusýrum og líkaminn nýtir þá fitu sem er í boði til að mynda frumuhimnurnar. Fitusýrurnar í frumhimnunni hafa mikil áhrif á gegndræpi frumuhimnunnar, framleiðslu á boðefnum, starfsemi viðtaka og jónaganga, auk losunar taugaboðefna. Fitusýrur koma einnig inn í genatjáningu. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu sviði hafa staðfest ótvírætt þessi áhrif fitunnar og þá sérstaklega ágæti ómega-3 fitusýra hvað varðar jákvæð áhrif á taugakerfið. Rannsókn á mæðrum sem tóku lýsi á meðgöngu sýndi ótvírætt að það hafði jákvæð áhrif á hegðun og þroska barnanna við fjögurra ára aldur.
Í þessari rannsókn var tæplega 12.000 börnum fylgt eftir og það kom í ljós að fiskneysla á meðgöngu hafði mælanleg áhrif á greindarvísitölu barnanna. Þá hefur verið rannsakað að þunglyndissjúklingar eru með lág gildi af ómega-3 fitusýrum og einnig hefur komið í ljós að þeir sem svipta sig lífi eru með lág gildi af ómega-3. Það má því tengja skort á ómega-3 fitusýrum beint við þunglyndi hjá bæði börnum og fullorðnum.
Lýsi er lífsnauðsyn
Michael segir að breytingar á neyslumynstri Íslendinga séu þess valdandi að neysla á ómega-3 fitusýrum hafi minnkað hjá þjóðinni. „Fiskneysla hefur minnkað gríðarlega og í rannsókn sem ég gerði fyrir nokkrum árum á fiskneyslu 10-11 ára barna kom í ljós að börnin borðuðu ekki fisk nema í mesta lagi einu sinni til tvisvar í viku. Það má auka. Hvað lýsið varðar þá er það einfalt. Við eigum að taka lýsi. Þeir sem ekki gera það þjást af D-vítamínskorti stærsta hluta ársins. Það er ekki tilviljun að forfeður okkar tóku lýsi.“
Michael nefnir einnig að neysla á alls kyns jurtum og kryddi hafi ýmiss konar áhrif á líkamsstarfsemina. „Það var gerð athyglisverð rannsókn á áhrifum óreganókryddsins á boðefni í heilanum og birt í fyrra. Þar er sýnt fram á að óreganó getur hamlað endurupptöku á mónóamínum og haft þannig hugsanleg jákvæð áhrif á líðan okkar. Til eru margar ágætar rannsóknir sem sýna ótvírætt fram á að fæðan sem við borðum getur haft bein áhrif á hegðun okkar og lífsgæði. Það er mikilvægt að fræða almenning um kosti góðrar næringar og hvað sé gott fyrir mann og hvað ekki. Það er því miður mikið af upplýsingum í gangi sem lítið mark er takandi á, en þumalputtareglan gæti verið sú að taka ekki mark á upplýsingum frá seljandanum. Það skyldi enginn gera. Betra er að treysta óháðum fagaðilum.“
Michael Clausen barnalæknir
Grein af vef laeknabladid.is