Fara í efni

Berry.En Aktiv - Heilsufæði eða sælgæti?

Ég var nýlega spurður álits á Berry.En-Aktiv sem er vara sem auglýst er og seld hér á landi sem meðal gegn liðvandamálum, brjóskskemmdum og slitgigt.
Um þetta snýst umræðan
Um þetta snýst umræðan

Ég var nýlega spurður álits á Berry.En-Aktiv sem er vara sem auglýst er og seld hér á landi sem meðal gegn liðvandamálum, brjóskskemmdum og slitgigt. Varan er seld í kössum með mörgum litlum skammtapokum sem innihalda smávegis af bragðbættum hlaupkenndum vökva til inntöku. Seljendur kalla vöruna ýmist "heilsufæði" eða "heilsugel" og loforðin um ágæti efnisins fyrir heilsuna eru fjölbreytt og litrík og auglýsingarnar af ýmsu tagi. Mest virðist varan vera seld í kunningjakeðjum og með auglýsingum manna milli á samfélagsmiðlum.

Ég athugaði hvað væri í þessari merkilegu vöru og komst að því að samsvarandi vara hvað varðar innihaldsefni og áhrif á mannslíkamann fæst í sælgætisdeildum almennra verslana og er þar að auki iðullega seld á hálfvirði á laugardögum. Hér mun ég rökstyðja þessa fullyrðingu og fleira því tengt. 

Að gera svona álitamáli góð og vönduð skil krefst mikillar vinnu og ekki er hægt að afgreiða það í stuttu máli því mikið er í húfi þegar um er að ræða gagnrýni á viðskipti og markaðssetningu og fjárhagslegir hagsmunir eru undir. Því er grein þessi óhræsilega löng.
Þeir sem ekki nenna að lesa allt geta skrunað niður í samantektina og ákveðið síðan hvort þeir vilji lesa rökstuðninginn. 

Kraftaverk við liðmeinum?
Sjálfur er ég með slæma slitgigt með öllum þeim leiðu og takmarkandi einkennum sem því fylgja. Ég hef að sjálfsögðu leitað með logandi ljósi að því sem hugsanlega geti bætt úr þessu og prófað margt. Þessi leit hefur ekki skilað neinu öðru gagnlegu en því sem í dag er mælt með af sérfræðingum, að taka mátulega virk verkjalyf og hreyfa sig mikið og lifa heilbrigðu lífi með fjölbreytt og skynsamlegt mataræði og lífsstíl.

Það sem ég fann við skoðun á Berry.En vörunum breytir þessu ekki.

Áskorunin
Góður vinur minn hafði keypt kassa af Berry.En Aktiv af kunningja sínum með margvíslegum loforðum um að neysla þess myndi bæta úr einkennum svo sem stirðleika og verkjum. Það stóð heldur ekki á áhrifunum. Nánast daginn eftir að neysla vörunnar hófst þá upplifði vinurinn að stoðkerfisóþægindin höfðu skánað. 

Þegar ég leit á innihaldslýsinguna sem er að finna á netsíðu seljanda varð ég alvarlega hugsi:

“Vatn, kollagen-hýdrólýsat (40%), frúktósi, sítrónusafaþykkni, vítamín C, náttúrulegt bragðefni, hleypiefni (xanthangúmmí, guargúmmí)”

Innihaldsefni þessi eru ekki einu sinni líkleg til þess að hafa áhrif á stoðkerfisvandamál, hvað þá að áhrifin komi fram innan sólarhringa eins og upplifun vinar míns gefur í skyn.

 Viðkomandi sagðist reyndar ekki hafa trúað á þetta en fyrst batinn lét ekki á sér standa þá hlyti að vera eitthvað varið í vöruna svo efasemdarorðum mínum var tekið með efablandinni undrun. Því ákvað ég að kafa dýpra og skrifa um málið í stað þess að karpa þarna við minn kæra vin.

Innihaldið
Skoðum fyrst innihaldsefnin hvert fyrir sig:

·      Kollagen hýdrólýsat er annað nafn á matarlími, öðru nafni gelatín (E441). Reyndar kemur í ljós að hér er um að ræða matarlím sem hefur verið brotið meira niður, það er að segja melt áfram niður í minni sameindir. Á heimasíðu seljanda er þetta sagt vera virka innihaldsefnið og þar má finna upplýsingar um að hráefnið er af vörumerkinu Fortigel®
Til einföldunar skulum við hér eftir nota skammstöfunina á ensku nafni efnisins,CH sem stendur fyrir Collagen Hydrolysate.

·      Frúktósi er sykur, nánar tiltekið einsykra. Frúktósi telst sætasta sykurtegundin. Mikið hefur verið deilt um og á frúktósa og fæstir telja það sérlega holla eða gagnlega sykurtegund. Frúktósinn er væntanlega hafður með til að gera vöruna sætari og þar með meira aðlaðandi.

·      Sítrónusafaþykkni er væntanlega haft með til bragðbætingar. Ekki er getið nánar um uppruna eða verkun þess.

·      Vítamín-C, öðru nafni askorbínsýra (E300) er lífræn sýra sem oft er höfð með í matvælum og sælgæti til þess að bragðbæta (sýra) vöruna og til þess að auka geymsluþol þar sem hún hefur þráavarnandi eiginleika. Hún er mjög algengt aukaefni í hvers konar unnum matvælum og sælgæti.  C-vítamínskortur er nánast óþekktur í dag. Mjög einhæft og óeðlilegt mataræði eða alvarlega sjúkdóma þarf til þess að skortur (skyrbjúgur) komi fram. Einu sinni var talið að stórir skammtar af þessari sýru gætu haft heilsubætandi áhrif, meðal annars á kvef en allar hugmyndir um að hún hafi slík áhrif hafa löngu verið lagðar til hliðar þar sem rannsóknir hafa ekki staðfest þær og trúverðugar ástæður slíkra eiginleika vantar.

·      Náttúrulegt bragðefni. Ekki er þess getið hvað þarna er um að ræða. Ekki einu sinni E-númerið. Gæti allt eins verið ofnæmisvaldur?

·      Hleypiefni   Xanthangúmmí (Xanthan gum, E415) og Gúargúmmí (Guar gum, E412) eru mjög algeng hleypihjálparefni í unninni matvöru og sælgæti. Þetta er notað til þess að þykkja vökvann svo hann slettist ekki úr pokunum þegar þeir eru opnaðir, því eins og fyrr segir er CH-ið meira melt en venjulegt matarlím og því lapþunnt.

Unnið úr sláturafgangi
Á heimasíðu seljanda er gefið upp að CH-ið í Berry.En vörunum sé af vörumerkinuFortigel®. Framleiðandi Fortigel® er þýska risafyrirtækið Gelita AG sem fyrst og fremst framleiðir matarlím (gelatín) úr svínshúðum. Svínshúðir falla til við slátrun og vinnslu svína. Þjóðverjar eru jú þekktir svínakjötsneytendur svo ekki skortir þetta hræódýra hráefni sem annars væri hent. Í auglýsingakvikmynd frá Gelita AG sýna þeir stoltir hvernig húðirnar eru brytjaðar niður og leystar upp í sýru. Við þetta brotna burðarprótín í húðunum sem einu nafni eru kölluð kollagen, niður í minni einingar. Þetta niðurbrot er kallað hýdrolýsa. Þegar slíkt niðurbrot á sér stað í magasýrunni okkar þá kallast það melting. Afurðin er sem sagt hálfmelt eða for-melt eggjahvítuefni (prótín) úr svínshúðum. Efnið er svo hreinsað úr meltunni, þurrkað og malað og unnið á ýmsan hátt til sölu sem hleypiefni í matvæli.

Mynd: Svínshúð tilbúin til vinnslu. Myndin fengin af söluvef sláturhúss í Rúmeníu.

aa 

Matarlím er gríðarlega mikið notað í alls konar unna fæðu, sælgæti, snyrtivörur, lyfjahylki, ljósmyndafilmur og margt fleira. Hylkin utan um lýsið og D-vítamínið sem ég tek daglega eru til dæmis hreint matarlím. Hylkin sem  fæðubótarefni og grasameðul eru gjarnan seld í eru nánast alltaf úr gelatíni.

CH efnið Fortigel® sem er í Berry.En aktiv er aukabúgrein hjá Gelita AG. Það er unnið á sama hátt og matarlímið en er látið meltast lengur svo sameindirnar brotna enn meira niður. Það missir við þessa meðferð mestalla hleypieiginleikana þvi agnirnar verða minni. Þetta er eins og fyrr segir það sama og gerist í meltingarfærunum ef við borðum matarlím eða kjöt og annað dýrahold.

Fortigel® og önnur slík meira niðurbrotin CH efni eru sem sagt ekkert annað og merkilegra en hálfmelt hold. Það voru talsverðar vonir bundnar við þessi efni fyrir rúmum áratug síðan og því fór framleiðslan af stað. Enn er framleiðslan í gangi því þetta selst vel svo lengi sem þeir komast upp með fullyrðingarnar um frábæra virknina.

Heilsubótarvörur af mörgu tagi frá ýmsum framleiðendum innihalda sama eða svipuð efni. Yfirleitt er notað ódýrt dýrahold, t.d. fiskúrgangur en stundum sjaldgæfari afurðir eins og hákarlabrjósk. Þá eru auðvitað látnar fylgja tilheyrandi hástemmdar yfirlýsingar um kraftaverkavirkni slíkrar meltu. Á íslandi er t.d. til vara sem heitirNutriLenk Gold sem inniheldur efni úr hákarlabrjóski og fiskbeinum, svokallað chondroitin sem heldur ekki hefur reynst virka á gigt og slitna liði.

Hvað verður um CH þegar það er komið í magann?
Kollagen er einn algengasti prótínefnaflokkurinn í dýraholdi. Hvort sem við borðum svínaflesk, fisk eða kjúkling þá erum við að taka inn mikið af kollagenefnum. 
Þegar við borðum matarlím, Fortigel®Nutrilenk eða eitthvað annað CH efni þá heldur meltingin einfaldlega áfram og efnið er brotið niður í enn smærri einingar. CH kemst ekki inn í kroppinn fyrr en það er orðið brotið niður í mjög smáar einingar. Það sem við tökum loks inn í blóðrásina eru byggingarefni prótínanna sem kallast amínósýrur. Amínósýrurnar úr Fortigel® eða öðrum CH-vörum eru ekkert merkilegri en þær sem við fáum úr fiski, eggjum, beikoni, baunum, kjúklingi eða öðrum mat. Að það innihaldi þær flest allar eins og seljandinn hampar er heldur ekkert merkilegt.

Við fáum nákvæmlega sömu efnin í okkur með fjölbreyttu mataræði. Góður kjötbiti með salati gefur okkur sennilega meira af amínósýrum en sem samsvarar poka af Berry.En aktiv. Amínósýrurnar fáum við úr kjötinu. Salatið gefur okkur svo C-vítamínið og fleira gagnlegt.
E412 og E 415 (hleypiefnin) eru mjög algeng þykkniefni í salatssósum svo það er um að gera að sletta svolitlu á grænmetið en mér er til efs að þau efni séu nauðsynleg í þessu samhengi. Ef við svo kreistum sítrónu út í vatn og drekkum með þessu þá erum við nánast komin með allt það nauðsynlegasta úr innihaldslýsingu Berry.En Aktiv . Frúktósanum og dularfulla bragðefninu getum við væntanlega að skaðlausu sleppt.

En… allar reynslusögurnar?
Hér sit ég á mínum háa hesti og fullyrði að bragðbætt og sykruð blanda af meltu matarlími og C-vítamíni virki ekki á stoðkerfisverki og slitgigt.
Allt í kringum okkur er svo fólk sem dásamar áhrifin sem það telur sig finna af þessu "heilsufæði" og selur það jafnvel með sannfæringu. Er það ekki full hrokafullt að segja að þetta fólk sé bara að ímynda sér áhrifin?  Nei alls ekki. Færustu sérfræðingar eru meira að segja sammála mér.

Fólk er yfirleitt ekki fífl. En fólk er áhrifagjarnt og fólk hefur sterka tilhneigingu til þess að staðfesta trú sína og upplifa það sem það óskar eftir. Það er mjög vel þekkt hvernig jafnvel hámenntað og fluggáfað fólk getur orðið fyrir því að upplifa áhrif af einhverju sem ekki er virkt. Ýmsar hugarvillur liggja þar að baki. Víða er hægt að finna efni um þetta. Góð grein um hvers vegna óvirkar meðferðir virðast virka er til dæmis hér. Hér er ágæt íslensk lesning um staðfestingarvilluna.

Það eina sem reynslusögur sanna er hversu auðvelt er að tæla fólk til þess að gefa vanhugsaðar yfirlýsingar og að fjölmargir sjúkdómar og einkenni batna með tímanum og það skiptast á skin og skúrir, líka í slitgigtareinkennum. Einkenni slitgigtar aukast stundum og minnka stundm án þess að nokkuð sé að gert. Látið mig þekkja það. Það geta liðið mánuðir þar sem maður er slæmur og aðrir þar sem maður er bara ansi góður.
Það er líka vel þekkt hvernig slæmir liðir geta lagast við aukna hreyfingu, styrkingu vöðva og minnkaða líkamsþyngd. Þeir sem hafa orðið fyrir slysum þar sem liðir hafa skemmst eru oft mörg ár að lagast og liggur slíkur bati að baki mörgum reynslusögum þar sem batinn er þakkaður einhverju allt öðru. 
Fólk byrjar yfirleitt að gera eitthvað í málinu þegar það er sem verst og þegar ástandið lagast eins og gengur, þá er auðvelt að að þakka það einhverju öðru en náttúrulegum bata eða bættum lífstíl
Þegar veðrið er slæmt, þá er líka líklegra að það batni innan tíðar en að það versni. Þetta kallast aðhvarfið að meðaltalinu (e. Regression towards the mean) og er ráðandi fyrirbæri í náttúrunni.

Stakar reynslusögur eru tilgangslausar sem sönnun. Við sjáum nánast aldrei neikvæðar reynslusögur í slíku samhengi. Því vantar alltaf nefnarann í jöfnuna til þess að vita hvað raunverulega útkoman er.

Öll þessi fyrirbæri geta sem sagt skýrt reynslu þess sem sýndi mér umrædda vöru og aðrar ótrúlegar sögur um virkni Berry.En Aktiv .

En… allar rannsóknirnar sem vitnað er í?
Grundvöllur allrar vitrænnar túlkunar á rannsóknaniðurstöðum er að tilgátan, í þessu tilfelli að CH sem borðað er sé virkt eins og lýst er. Tilgátan verður að byggja á trúverðugri skýringu á því hvernig það sem rannsakað er eigi sér stað (fyrirfram líkindi;  prior probability). Hér er ekki hægt að segja að til sé trúleg skýring á því af hverju melt dýrahold ætti að hafa einhver sérstök áhrif í líkamanum umfram venjulegan mat. Þannig falla allar rannsóknarniðurstöður um CH í raun á fyrirfram líkindum nema þær séu því meira afgerandi og leita þurfi betur að skýringu á virkninni.

Förum samt í saumana á sumu af því sem seljendur Berry.En segja að séu rannsóknir sem styðja efnið.

Seljandi Berry.En-Aktiv setur fram eftirfarandi fullyrðingar:

Nýleg rannsókn sem gerð var við Tufts Medical Center og Harvard Medical School og kynnt á ráðstefnu OARSI árið 2009, sýndi með augljósum hætti að það kollagen sem er í Aktiv endurbætti verulega brjósk í mönnum. MRI skanni var í fyrsta sinn notaður í þessum tilgangi til að mæla niðurstöðuna. OARSI eru alheimssamtök vísindamanna, lækna og annarra í heilbrigðisgeiranum sem rannsaka, meðhöndla  og vinna að forvörnum á slitgigt.  

Þetta er ekki satt. 

Segulómrannsóknin sem seljandi Berry.En hampar þarna var auðfundin. Gelita AG, framleiðandi Fortigel®, lét framkvæma þessa rannsókn á sinn kostnað. Af nærri 200 manna úrtaki fólks með væga slitgigt í hnjám voru það aðeins 29 þátttakendur sem luku rannsókninni. Tíu grömm daglega af Fortigel® voru gefin helmingi þátttakenda en hinum var gefið annað svipað sykrungahlaup sem lyfleysa. Rannsóknin stóð í 48 vikur. Tilgangur rannsóknarinnar var aðeins að kanna hvort hægt væri að mæla breytingar á efnisupptöku í liðbrjóski með sérstakri aðferð við segulómrannsókn. Það er að segja prófun á tækninni, ekki raunveruleg prófun á efninu Fortigel®. Þó það væri ekki hluti af upphaflegum tilgangi rannsóknarinnar var þó um leið spurt um ýmsa þætti svo sem verki og óþægindi. Árið 2009 voru niðurstöður þessarar rannsóknar, sem höfundar kalla for-rannsókn (pilot study) kynntar á þingi og síðan hampað víða til auglýsingar vörum sem innihalda Fortigel®. Á heimasíðu Gelita er fréttatilkynning frá 2009 um efnið sem inniheldur hreinan tilbúning um rannsóknina eins og kemur fram þegar loks kom út grein um hana 2 árum seinna. Í fréttatilkyningunni eru fullyrðingar um rannsóknina sem ekki standast og flumað um aðrar rannsóknir sem ekki eru gefnar tilvitnanir í. Þær fullyrðingar stangast skarplega á við það sem aðrar rannsóknir hafa sýnt.

Það var ekki fyrr en 2011 sem formleg grein kom út um þessa segulómrannsókn. Þá kom fram að fyrri fullyrðingar eru meira og minna ýktar og upplognar. Einn höfunda greinarinnar er rannsókna- og þróunarstjóri Gelita AG.  Það að rannsóknin hafi verið gerð með tækjum virtra háskóla segir í sjálfu sér segir ekki mikið um trúverðugleika eða gæði. Aðeins að þar var hægt að leigja aðstöðu og aðstoð. Slík auglýsingabrella er kölluð vísun í virðuleika eða vísun í yfirvald og algeng aðferð í sölumennsku á heilsubótarvörum. Greinin um segulómrannsóknina var gefin út í tímariti OARSI, alþjóðasamtaka slitgigtar-rannsakenda.

Í stuttu máli var niðurstaða rannsóknarinnar heldur lítilfjörleg hvað varðar segulómunaraðferðina. Hægt var að finna lítinn, varla marktækan mun á segulóm-myndinni milli hópanna eftir 24 vikur en eftir 48 vikur af Fortigel@ inntöku var enginn munur til staðar. Af einhverjum ástæðum var ekki talið nauðsynlegt að nefna það í niðustöðukafla greinarinnar þar sem segir að segulómunaraðferðin geti verið nothæf við 24. viku (sem getur eins hafa verið tilviljun). Það sem þó er merkilegast er að er tekið fram í umræðunni að enginn(!!) munur hafi fundist á einkennum í hópunum, hvorki við 24 eða 48 vikur!! Þetta hlýtur að verða að túlkast þannig að rannsóknin hafi  stutt þá tilgátu að CH verki ekki á einkenni slitgigtar í hné.

Önnur fullyrðing seljanda á sama miðli:

Rannsók unnin af Collagen Research Institute in Kiel í Þýskalandi, sýndi að kollagenið í Aktiv safnast fyrir í bandvefjum liðamóta og örvar myndun kollagens og proteoglycans, sem eru sameindir sem finnast í bandvef líkamans. Eftir 3 mánaða meðferð, mátti sjá mikla breytingu á skemmdu brjóski. Í samanburði við skemmt brjósk sem hlaut enga meðferð var geinlegt að skemmt brjósk sem hafði fengið kollagen, reyndist mjúkt og heillegt í útliti.

Þarna er ekki getið heimilda en væntanlega er verið að vitna í niðurstöður á frumu- og dýratilraunum sem getið er í tveimur gömlum fréttabréfum frá Gelita AG frá 2004. Þarna er margt athugavert.

Fyrir það fyrsta þá er í seinna fréttabréfinu frjallað um 16 klínískar rannsóknir með samtals 2000 einstaklingum í mörgum löndum. Þetta hefði átt að vera afgerandi rannsókn en niðurstöðurnar virðast ekki hafa verið jákvæðar fyrir Fortigel® nema í þýska hlutanum (maður veltir fyrir sér hvers vegna ;) ). Miklu púðri er eytt í að reyna að finna afsakanir fyrir því en í heildina virðist tilraunin ekki hafa staðfest virkni Fortigel®

Í öðru lagi þá er ekkert merkilegt við það að amínósýrur úr meltu CH komi fram í brjóskræktun sem fóðruð er með efninu. Niðurstöður þeirra benda reyndar til þess að CH-ið þeirra virki betur en t.d. prótín unnið úr hveiti og einhver önnur kollagenefni. Þetta eru frumutilraunir og sanna hvorki eitt eða neitt um hvort CH virki í mönnum á slitgigtareinkenni eða brjóskskemmdir í mönnum eftir meltingu.

Í þriðja lagi eru þetta niðurstöður rannsóknastofu sem er kostuð af fyrirtækinu og hafa ekki veriði staðfestar af óháðum aðilum. Allt bendir til þess að þarna hafi farið fram grófleg "kirsuberjatínsla" við val, hönnun og framkvæmd rannsókna. Í þessum fréttabréfum fyrirtækisins er mikið skrafað um hugsanlegt gagn og gæði Fortigels® og settar fram ýmsar getgátur af augljósri óskhyggju um það hvernig yfirfæra megi þessar frumurannsóknir á menn. 

Í fjórða og síðasta lagi þá er augljóst að Dr Oesser sem var aðalmaðurinn í þessari rannsóknarvinnu þeirra er fyrir löngu hættur að rannsaka áhrif CH á slitgigt. Þetta kemur fram við tilvitnanaleit í gagnagrunnum. Hann var þarna fyrir rúmum áratug að framkvæma frumu- og dýratilraunir, að því er virðist mikið til eftir pöntun frá Gelita AG.  Hann hefur eflaust fundið að efnið var ekki að ganga upp og snúið sér að öðru. Greinar sem komið hafa út á seinustu árum og hann er meðhöfundur að fjalla m.a. um áhrif kollagen hýdrólýsats á húð. Ekkert um slitgigt eða liðbrjósk eftir 2006.

Heilsubótargildi CH afskrifað
Í samantekt OARSI á rannsóknum um slitgigt sem gefin var út 2012, árið eftir að áðurnefnd segulómrannsókn Gelita AG kom loks út, er lítið gert úr þessum og öðrum niðurstöðum rannsókna á notagildi CH við liðverkjum og slitgigt. Þar er sagt skýrum orðum að ekki sé hægt að mæla með notkun CH við meðferð slitgigtar (OA) og tekið fram að það skorti óháðar og vandaðar (sérstaklega tekið fram!) rannsóknir ef greina á hugsanleg áhrif þess á einkenni slitgigtar. Athugið að hér er fjallað um allt sem er að finna af rannsóknum á heilsuáhrifum CH, ekki bara það sem minnst er á hér að ofan.

Conclusions: There is insufficient evidence to recommend the generalized use of CHs in daily practice for the treatment of patients with OA. More independent high-quality studies are needed to confirm the therapeutic effects of collagen derivatives on OA complaints

Bein þýðing:

Niðurstöður: Það liggja ekki fyrir nægar vísbendingar til þess að mæla með almennri notkun CH í daglegri meðhöndlun sjúklinga með slitgigt. Fleiri óháðar rannsóknir af háum gæðum þarf til þess að staðfesta meðferðaráhrif kollagen afleiða á slitgigtarkvartanir

Þeir útiloka ekki með þessum orðum að CH gæti haft einhver heilsuáhrif, væntanlega af virðingu við þá sem enn trúa á það. Slíkt er algeng kurteisi í niðurstöðum greina um umdeild efni.

Fullyrðingar Gelita AG () um ágæti Fortigel® sem röksemdafærslur seljendaBerry.En Aktiv byggja á, standast sem sagt ekki samkvæmt áliti þeirra sem best ættu að vita þetta. 

Sölufullyrðingar Berry.En buyggja semsagt á meira en tíu ára gömlum frumrannsóknum og ekki hefur tekist að staðfesta áhrif CH á liðbrjósk, uppbyggingu eftir sekmmdir og enn síður á einkenni slitgigtar.

Til viðbótar má að benda á að CH til inntöku er ekki einu sinni nefnt á nafn lengur þegar fjallað er um meðferð á slitgigt og stoðkerfisvandamálum í meðferðarleiðbeiningum bandarískra bæklunarlækna.  Heldur ekki í bresku leiðbeiningunum frá NICE. Þeir taka líka fram að ekki skuli ráðleggja glucosamin eða chondroitin. 
CH  virkar einfaldlega ekki. Þegar haft er í huga hvernig það er til komið, hvað það inniheldur og hvað verður um það við meltinguna þá skyldi engan undra.

Sérfræðingar Evrópusambandsins hafa heldur ekki fundið neitt
...sem styður fullyrðingar um virkni CH. Eins og flestum ætti að vera kunnugt þá situr fullt af fólki og rannsakar og skrifa reglugerðir og álit fyrir Evrópusambandið. Flest af þeim reglugerðum sem gilda þar gilda líka fyrir okkur.

EFSA -Evrópska fæðuöryggisstofnunin vinnur mikið starf til þess að vernda okkur fyrir fæðutengdum hættum svo sem skemmdum mat, eiturefnum og fölsku nautakjöti. En þeir hafa líka eftirlit með oflofi og lygum í þessum efnum. Þar er mjög auðvelt að fletta upp í skrám þeirra yfir fæðuefni og sjá hvaða fullyrðingar uppfylla skilyrði um trúverðugleika. Allt sem ekki telst lyf samkvæmt skilgreiningu um virkni telst vera fæðuefni eða fæðubótarefni og CH er þar í flokki þar sem það hefur ekki lyfvirkni.

Hér má sjá hvaða fullyrðingar um eiginleika CH fá falleinkunn í athugunum EFSA þar sem ekkert hefur funndist neitt sem styður þær (smellið á myndina til að stækka):

aa 

Hér eru fullyrðingarnar taldar upp með íslenskum þýðingum: 

·      Contributes to the functioning of cartilage building cells
- Stuðlar að virkni brjóskmyndandi fruma

·      Supports the (natural) regeneration of joint cartilage
- styður (náttúrulega) endurbyggingu liðbrjósks

·      Stimulates the build-up of joint cartilage
- Örvar uppbyggingu liðrjósks

·      Contributes to improved joint functioning and joint mobility
- Stuðlar að bættri virkni og liðhreyfanleika

·      Contributes to joint comfort
- Stuðlar að vellíðan í liðamótum

·      Provides the building blocks (peptides) for the biosynthesis of cartilage
- Leggur til byggingareiningar (peptíð) til lífmyndunar brjósks.

·      Provides strength, flexibility and support to skin connective tissues, ligaments, tendons, bones and other parts of the body
- Veitir húð, bandvef, sinum, beinum og öðrum líkamshlutum styrk, liðleika og stuðning.

·      Characteristic collagen peptide mixture (collagen hydrolysate) having a beneficial physiological effect on the maintenance of joint health in physically active people
- [Að] dæmigerð kollagen-peptíðblanda hafi bætandi líffræðileg áhrif á viðhald liðheilsu hjá fólki sem er virkt í hreyfingu

Allar þessar fullyrðingar um virkni CH eru sem sagt ekki leyfilegar í auglýsingum innan EU.

Vísvitandi blekkingar?
Á heimasíðu seljanda Berry.En má finna eftirfarandi varnagla (feitletrunin er mín):

Athugið: Ekki má taka meira en ráðlagðan dagskammt. Fæðubótarefni eiga ekki að koma í staðinn fyrir fjölbreytt  mataræði.Geymið þar sem börn ná ekki til. Notist í samráði við lækni ef um þungun er að ræða, eða  börn undir eins árs aldri. Þessari vöru er ekki ætlað að greina, meðhöndla eða koma í veg fyrir sjúkdóma.

Í ljósi þess að innihaldið er það sama og í hlaupsælgæti eru varnaðarorðin um að halda sig við ráðlagða skammta og um geymslu fjarri börnum athyglisverð. Væntanlega eru þessi varnaðarorð höfð með þarna til þess að gefa í skyn að um virka vöru sé að ræða.

Eru þá íslensku innflytjendurnir á Berry.En og öðrum vafasömum heilsubótarvörum vísvitandi að blekkja okkur neytendur? Af samtölum við þá og skoðun á þýðingum þeirra á auglýsingaefni tel ég fullvíst að þeir hafa einfaldlega ekki nægilega þekkingu til þess að átta sig á ýkjunum og falsinu á bak við markaðssetningu framleiðendanna.
Þeir taka fullyrðingar framleiðenda trúanlegar og þýða textann á flotta söluvefnum eftir bestu getu. Þær þýðingar sýna oftar en ekki hversu takmörkuð raungreinakunnátta býr að baki. Því er varla við þau að sakast að þau séu vísvitandi að bergmála rangar fullyrðingar. Þau eru einfaldlega í fákunnáttu sinni að endursegja ósannaðar og rangar staðhæfingar og kæra sig kannski ekki um að kafa dýpra í vitneskjuna því peningar eru í húfi.

Samfélagsmiðlasölumennska
Facebook er óspart notuð til auglýsinga og tengslasölu á vörum eins og Berry.En enda öflugasta tengslanet sem um getur og ekki bara auðvelt heldur líka ókeypis að auglýsa þar gegnum vinatengsl. Þjóðþekkt fólk, íþróttafólk (t.d landsliðsmaður), leikarar, stjórnmálafólk og jafnvel heilbrigismenntað fólk eru meðal þeirra sem ég hef séð eða heyrt um að hafi verið fengin til að segja frá „kraftaverkalyfjum“ Berry.En og selja það áfram. Þetta fólk birtir eða leyfir birtingu frásagna af því sem það upplifir sem ótrúleg áhrif vörunnar og þannig breiðist boðskapurinn út eins og eldur í sinu. Sumir gerast endursöluaðilar og fá þá væntanlega skerf af ágóðanum. Þessir aðilar nýta vináttu, kunningsskap, vinnufélaga og ættarsambönd í viðskiptalegum tilgangi. Sögurnar um ágæti vörunnar magnast og maður heyrir ótrúlegustu útgáfur af lofi og láði um sælgætið. Öll eiga þau það sameiginlegt að vita ekki hvað þau eru að selja og átta sig ekki á oflofinu.

Ekki veit ég hvað svona sölukerfi kallast, kannski "vinasölukerfi" eða "keðjusölukerfi"? Pýramídasala er víst ólögleg en ég átta mig ekki alveg á því hver munurinn er því hagnaðurinn endar jú alltaf mestur hjá þeim sem er á upphafsenda keðjunnar, eða hvað?

Samantekt:

  • Berry.En Aktiv telst ekki lyf þar sem það hefur ekki lyfvirkni. Það telst fæða enda inniheldur það eingöngu efni sem koma fyrir margskonar mat.
  • Eðli Berry.En-Aktiv vörunnar, samsetning og eiginleikar eru nánast fyllilega samsvarandi hlaupsælgæti og ætti því varan að flokkast sem slík.
  • Efnið sem fullyrt að sé virka innihaldsefnið er niðurbrotið (melt) matarlím frá Gelita AG unnið úr svínshúðum.
  • Engar rannsóknir, raunþekking eða önnur gögn staðfesta að Fortigel® hafi lífvirk, bætandi eða læknandi áhrif fram yfir önnur matvæli eða sælgæti sem innihalda prótínefni unnin úr dýraholdi. Fullyrðingar um að virkni innihaldsefnanna á mannslíkamann séu staðfestar með rannsóknum eru ósannar. Það er svo gott sem útilokað að innihaldsefni vörunnar hafi nein sérstök, jákvæð áhrif á heilsu manna, slitgigt eða aðra krankleika umfram fjölbreytt mataræði.
  • Áhrifin sem neytendur telja sig finna eiga sér aðrar, eðlilegar orsakir sem ekki stafa af verkun innihaldsefnanna eða inntöku vörunnar.
  • Sala þessarar vöru undir yfirskyni eða með loforðum um heilsubætandi áhrif eru mjög líklega brot á fleiri en einum bókstaf laga um eftirlit með markaðssetningu og viðskiptaháttum og lögum um neytendakaup.

 Fleiri hafa fjallað um sama efni. Hér er blogg-grein eftir lyfjafræðing um Genacol en Fortigel® er einmitt notað í þá vöru sem seld er í norður-ameríku. Niðurstaðan er að sjálfsögðu sú sama og mín. Umræðan á eftir greininni er eiginlega meira fræðandi.

Björn Geir Leifsson, skurðlæknir