Betra bak - Hver vill það ekki !
Heilsutorg býður þér í FRÍAN Prufutíma
Betra bak er nýtt lífsstílsnámskeið sem er ætlað þeim sem glíma við mjóbaksverki eða hafa verið með mjóbaksverki í gegnum tíðina. Námskeiðið er undir handleiðslu tveggja sjúkraþjálfara sem hafa víða þekkingu á mjóbaksverkjum og hvað þarf til að bæta vellíðan og minnka verki. Takmarkaður fjöldi er tekinn inn í hvert námskeið til að hægt sé að hafa sem besta yfirsýn yfir hverjum og einum.
Námskeiðið hefur göngu sína 23.september og verður kennt á þriðjudögum, fimmtudögum og föstudögum kl. 16:30 í World Class Laugum.
Vatnsleikfimi verður í boði fyrir þá sem vilja á föstudögum.
HEILSUTORG býður þér í FRÍAN kynningartíma á námskeiðinu sem verður á þriðjudaginn, 16. sept kl 16:30 í World Class Laugum.
ÞAÐ EINA SEM ÞÚ ÞARFT AÐ GERA ER AÐ MÆTA NIÐUR Í WORLD CLASS LAUGAR.
Kennarar eru:
Hera Rut Hólmarsdóttir, sjúkraþjálfari á Reykjalundi.
Hefur einnig starfað hjá World Class í 4 ár og kennt m.a. spinning, fit pilates og core tíma.
Þekkir af eigin reynslu mjóbaksverki, hefur verið að glíma við þá frá unga aldri og lenti í slysi í febrúar 2013 sem leiddi til brjóskloss. Fylgdist með bakskóla í verknámi á Borgaspítalanum fyrir einstaklinga sem höfðu farið í brjósklosaðgerð og var með fræðslu fyrir þá eftir aðgerðina. Hefur einnig fylgst með líkamsvitundartímum og verkjaskólanum á Reykjalundi.
Ásta Kristín Gunnarsdóttir, sjúkraþjálfari á LSH Hringbraut.
Vann áður á einkastofu á Húsavík. Fór í verknám á bakdeild St. Franciscu spítala í Stykkishólmi og fékk þar góðan æfingabanka og fræðslu sem hún mun nýta á námskeiðinu. Er með langan íþróttabakgrunn, var í frjálsum íþróttum og handbolta sem barn og unglingur og stundar líkamsrækt af kappi.
Hér fyrir neðan má lesa sér frekar til um mjóbaksverki og námskeiðið:
Mjóbaksverkir
Í nútíma samfélagi eru mjóbaksverkir afar stórt heilsufarsvandamál og í kringum 60-80% einstaklinga finna fyrir þeim einhvern tímann á lífsleiðinni. Í 80% tilfella eru mjóbaksverkir óskilgreindir þar sem orsök er óljós en um 4% tilfella er hægt að skilgreina sem brjósklos, útbungun og þess háttar. Oftast er hægt að rekja mjóbaksverki til ójafnvægis í vöðvakerfi líkamans svo sem þegar yfirspenna myndast í yfirborðsvöðvum líkamans t.d. vegna lélegrar líkamsstöðu eða rangrar líkamsbeitingar. Því þarf að meðhöndla þá starfrænu getu, burtséð frá verkjunum, til að breyta ástandinu.
Helstu orsakir mjóbaksverkja eru:
- Léleg líkamsstaða
- Röng líkamsbeiting við ýmsar athafnir
- Léleg vinnuaðstaða
- Slæmar vinnuaðferðir
- Streita
- Kvíði
- Svefntruflanir
Á námskeiðinu: verður farið yfir þá hluti sem hugsanlega geta verið að orsaka mjóbaksverki í daglegu lífi, hvað ber að gera til að varna því að fá verk og fræðslu um bjargráð ef verkur kemur.
Afleiðingar mjóbaksverkja
Afleiðingar mjóbaksverkja geta verið breytt líkamsstaða og göngumynstur þar sem einstaklingar forðast verk og forðast því ákveðnar stöður/hreyfingar sem eru líklegar til að orsaka verkinn. Þetta hegðunarmynstur er talið geta haft áhrif á vöðvavirkni einstaklings, þeir stífa sig meira af og forðast ákveðna hreyfingar vegna hræðslu við að auka verki og gera ástandið þ.a.l. verra.
Talað er um svokallaðan vítahring mjóbaksverkja:
Í flestum tilvikum hafa mjóbaksverkir hamlandi áhrif á virkni bolvöðva og valda þannig veikleika og rýrnunar ákveðinna vöðva en aukinnar virkni í öðrum vöðvum. Þessi aukna vöðvaspenna er kölluð varnarspenna, sem getur viðhaldið bakverknum. Djúpu bolvöðvarnir sem geta „slökkvt á sér“ hjá einstaklingum með mjóbaksverki eru gjarnan kallaðir „core“ eða „kjarna vöðvar“ . Þeir mynda svokallað korselett um mjóbakið (sjá mynd)
Við þessa óvirkni breytist líkamsstaða einstaklinga þannig að fettan í mjóbakinu eykst og kviðurinn stækkar. Einstaklingar finna oft fyrir því eftir langan vinnudag að þeir eru „útþanndari“ en vanalega og með þreytuverki í bakinu. Hægt er að tengja það við óvirkni í djúpa vöðvakerfinu vegna bakverkjarins.
Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að virknin í gluteus maximus (rassvöðvanum) sé skert hjá einstaklingum með mjóbaksverki. Tilgátur um ástæðu þess eru þær að einstaklingar með mjóbaksverki nota frekar yfirspenntu vöðvana í bakinu auk aftanlærisvöðvans í daglegu lífi miðað við heilbrigða einstaklinga, sem nota meira rassvöðvann.
Á námskeiðinu: Áhersla lögð á að auka virkni og úthald djúpu vöðva hryggsins („core“) og rassvöðvans. Ná fram eðlilegu vöðvamynstri og auka þ.a.l. stöðugleika og minnka varnaspennu.
Líkamsstaða/líkamsbeiting
Algengt getur verið að líkamsvitund einstaklinga með mjóbaksverki, eða tilfinningin fyrir líkamanum, stöðu hans, hreyfingu og spennu sé skert. Líkt og kom fram að ofan getur breytt vöðvavirkni talin vera afleiðing breyttrar líkamsstöðu, líkamsbeitingu og göngumynsturs sem einstaklingar með mjóbaksverki venja sig á til að reyna að vernda bakið. Því er mikilvægt að hugað sé að þessum þáttum. Rétt líkamsstaða og líkamsbeiting skiptir einnig miklu máli í tengslum við heilbrigðan lið. Þungaburður nærri miðstöðu er æskilegur fyrir liðina og þola þeir illa að vera lengi í ystu stöðu. Of mikil viðvarandi vöðvaspenna er óæskileg fyrir liði. Til þess að viðhalda heilbrigðum lið þarf hæfilega löng liðbönd, nógu sterka vöðva með eðlilega samhæfingu og næga hreyfingu til þess að næra liðbrjóskið. Reglubundin hreyfing viðheldur vöðvum, liðböndum, liðbrjóski og beinum.
Á námskeiðinu: Fræðsla og kennsla um rétta líkamsstöðu og líkamsbeitingu við ýmsar athafnir í daglegu lífi.
Meðferð mjóbaksverkja
Ýmsar meðferðir eru til við mjóbaksverkjum og eru þær margar einstaklingsbundnar.
Hreyfingarleysi er þó versti óvinur mjóbaksverkja og því mikilvægt að halda sér virkum. Áður fyrr var talið að þeir sem fengu í bakið ættu að liggja fyrir og hvíla sig en nú hefur verið sannað að það leiðir frekar til aukinna bakverkja og besta leiðin til að minnka bakverki er að halda sér áfram virkum og hreyfa sig. Þó þarf samt að passa að skynsemi sé í fyrirrúmi hvað varðar hreyfingu og vanda skal valið á hreyfingu. T.d. getur þung lyftingaræfing þar sem verið er að vinna á ýmsum vöðvahópum svo sem í gegnum hnébeygju, réttstöðulyftu og þess hátta aukið varnaspennuna sem líkaminn hefur myndaði í kringum verkinn.
Á námskeiðinu: Aðstoð við að koma sér af stað í reglubundinni þjálfun sem hentar fyrir hvern og einn, án þess að auka verki.
Lokaorð
Hafa þarf í huga að þetta námskeið gæti ekki hentað þeim sem eru með nýtilkomið brjósklos sem fela í sér mikla leiðniverki niður í fót/fætur. Hægt er að hafa samband við Heru, hera@reykjalundur.is, ef óskað er eftir frekari upplýsingum. Annars er eindregið mælt með að mæta í kynningartímann!
Hægt er að skrá sig á námskeiðið á öllum World Class stöðvum eða gegnum heimasíðu www.worldclass.is/namskeid.
Bestu kveðjur,
Ásta Kristín og Hera Rut