Hvað borða keppendur í Biggest Loser?
Eftirfarandi kemur af heimasíðu SkjásEins sem sýnir þættina Biggest Loser á Íslandi um mataræði keppendana:
Guðríður Torfadóttir þjálfari:
Mataræði keppenda var sett upp með það í huga að fá líkama keppenda til að hreinsa sig en einnig til að fá meltingarkerfi og hormónakerfi í jafnvægi.
Með það í huga að þau væru að fara í miklar æfingar og þyrftu frábæra næringu til að geta tekist á við þær af fullum krafti.
Maturinn
Keppendur borðuðu kjöt (lambakjöt, nautakjöt og kjúkling), fisk og fullt af honum, lífræn brún egg, hnetur, fræ, góðar lífrænar kaldpressaðar olíur, ávexti og grænmeti.
Ísskápurinn var því fullur af grænmeti, kjöti, fiski og ávöxtum.
Ákveðið var að taka út allar mjólkurvörur og kornmeti því margir virðast vera með óþol fyrir þesskonar mat. Það var svo í þeirra höndum þegar þau komu heim að taka þetta inn aftur og sjá hvernig þessar matvörur fóru í þau. Ég mæli með hreinum mjólkurvörum ef fólk þolir þær vel eins og ab-mjólk, hrein jógúrt og hreint skyr.
Sykurlöngun
Fyrstu 3 vikurnar í svona matarræði eru alltaf erfiðastar en eftir þann tíma ætti líkaminn að vera komin í það gott horf að hann kallar ekki lengur á mikinn sykur og unna matvöru.
Fyrsta vikan er þó erfiðust og sérstaklega fyrstu dagarnir. Aukaverkanir eins og ógleði, svimi og hausverkur eru algengar en það gengur yfir og oft fylgir mikil aukin orka eftir að þessir dagar ganga yfir. Til að takast á við þetta er best að hreyfa sig hóflega, drekka vel af vatni og vera jákvæður því þetta gengur yfir. Ef mikil sykurlöngun gerir vart við sig er gott að fara í göngutúr og fá sér te eða vatn að drekka. Ef það dugar ekki til eru ávextir eins og melónur, ananas, döðlur eða rúsínur góðir til að slá á mestu sykurlöngunina.
Drykkir
Eini drykkurinn var vatn, te og svart kaffi. Íslendingar búa svo vel að geta drukkið hreint vatn úr krananum og til að bragðbæta vatnið er hægt að setja lime, sítrónu, jarðarber eða appelsínu út í vatnið. Hreint/óbragðbætt sódavatn er líka í fínu lagi.
Keppendur í Biggest Loser borðuðu fjórum sinnum á dag. Morgunmat, hádegismat, snarl um miðjan dag og svo kvöldmat. Lögð var mikil áhersla á matarvenjur eins og að setja bara einu sinni á diskinn, tyggja matinn mjög vel og setjast niður og borða í rólegheitum.
Góðar reglur
· Tyggja matinn þangað til hann er komin í vökva
· Setja einu sinni á diskinn og nota hóflega stærð af disk
· Ekki borða mat sem rotnar ekki
· Drekktu vatn reglulega yfir daginn þarf ekki að vera mikið í einu.
· Settu prótein, flókin kolvetni og fitu á diskinn þinn
· Notaðu góð krydd til að gera matinn góðan, ég mæli með kryddum frá Pottagöldrum.
Evert Víglundsson þjálfari:
Hvernig er mataræðið byggt upp?
Ég set upp mjög einfaldar reglur um mataræði
a. Borðaðu hreint, reglulega og í hófi – veldu mat sem gerir þér gott
b. Miðaðu skammtana við orkuþörf þína yfir daginn - skammtastærðinar eiga að færa þér næga orku í daglegu amstri án þess að safna fitu.
Matseðillinn er einfaldur og eftirfarandi:
- Kjöt, fiskur og egg
- Grænmeti og ávextir
- Hnetur og fræ
- Drekktu vatn
Mataræði keppenda í Biggest Loser byggir á svokölluðu Paleo/Caveman mataræði sem er þekkt um allan heim og mikið notað meðal fólks sem er annt um heilsuna. Paleo mælir einfaldlega með að þú borðir náttúrulega fæðu í eins náttúrulegu ástandi og unnt er (sjá matseðil) líkt og frummaðurinn gerði forðum.
Til að einfalda keppendum að koma sér af stað í mataræðinu færði ég þeim bók sem heitir „It Starts With Food“ og er eftir hjónakornin Dallas og Melissu Hartwig. Í bókinni setja Dallas og Melissa upp kerfi sem þau kalla Whole30 sem er 30 daga hreinsun/endurstilling fyrir líkamann. Í bókinni útskýra þau kerfið ýtarlega, á mannamáli og fara yfir það hvaða fæðu þú átt að velja til að hámarka afkastagetu líkamans og byggja upp heilsuna, hvað gerist í líkamanum þegar þú velur fæðu sem gerir þér ekki gott, hvernig best er að bera sig að við matseld og allt annað sem skiptir máli varðandi mat og heilsu.
Ástæðan fyrir að ég nota þessa bók er að þetta er besta bók sem ég hef lesið um mataræði og heilsu og ekki síður að hún hentar öllum, bæði offitusjúklingum, afreksíþróttamönnum og öllum þar á milli.
It starts with food hefur hjálpað mér mikið bæði í mínu daglega lífi og ekki síður á erfiðum æfingum og harðri keppni á alþjóða grundvelli í CrossFit.
Fyrir ykkur íþróttafólkið þarna úti þá vil ég segja að þegar þú borðar rétt er líkaminn mikið fljótari að jafna sig eftir æfingar/keppni og að þar af leiðandi verður allur árangur skjótari og varanlegri. Bókin er til sölu í CrossFit Reykjavík og ég er að reyna að fá Dallas og Melissu til Íslands til að halda fyrirlestra í mars eða apríl.
Hversu oft er borðað ?
Ég mæli með að þú stillir skammtasærðirnar og næringarinnihald máltíðanna við það að þú borðir þrisvar á dag. Það tekur nokkra daga að stilla sig af en markmiðið er að hver máltíð veiti þér næga orku og fyllingu til að duga fram að næstu máltíð. Það er í lagi að borða oftar og þá minna í einu en ekki sjaldnar.
Hvað má borða í „sykur kasti?
Þú átt ekki að lenda í „sykurkasti“ þegar þú hefur skipt yfir í hreina fæðu, þar sem líkaminn hefur ekki þörf fyrir sykurinn lengur. Það sætasta sem þú átt að borða eru ávextir og ber.
Hvar má nálgast uppskriftir af þessum toga ?
Alnetið er eins og allir vita endalaus uppspretta af upplýsingum og það á einnig við hér. Hér eru tvær heimasíður sem ég mæli með
a. http://whole9life.com/ sem er heimasíða Dallas og Melissu Hartwig höfunda bókarinnar góðu.
b. http://www.marksdailyapple.com/#axzz2sCgDNq6w sem er heimasíða sem kennir þér allt um Paleo mataræði.
Er vatn eini leyfilegi drykkurinn?
Vatn er eini lífsnauðsynlegi drykkurinn fyrir líkamann.
Er fyrsta vikan erfiðust ?
Já. Það tekur yfirleitt 4-10 daga að komast yfir sykurþörfina en um leið kemur þér til með að líða svo mikið betur að það er þess virði.
Hvaða aukaverkanir geta fylgt því að af sykra sig og losa við aukaefni á þennan máta ?
Svipaðar aukaverkanir, geri ég ráð fyrir og þegar verið er að venja líkamann af öðrum eiturefnum en vellíðanin kemur mjög fljótt.
85% Reglan
Þú verður að gera þér grein fyrir því að enginn er heilagur í þessum efnum og borðar svona alltaf. Settu þér það markmið að borða hreint í 85%+ tilfella og þá ættir þú að vera í nokkuð góðum málum.