Fara í efni

1 ár frá sprengju Bostonmaraþoni

Í dag, 15. apríl, er ár liðið frá Boston maraþoninu þar sem hryðjuverkamenn myrtu og örkumluðu fjölda manns. Atburðarins er minnst víða um heim og við hjá Heilsutorgi gerum það með þessari grein frá Melkorku Árnýju Kvaran sem var þátttakandi í hlaupinu.
Bostonmaraþonið er elsta maraþonið í USA.
Bostonmaraþonið er elsta maraþonið í USA.

Í dag, 15. apríl, er ár liðið frá Boston maraþoninu þar sem hryðjuverkamenn myrtu og örkumluðu fjölda manns. Atburðarins er minnst víða um heim og við hjá Heilsutorgi gerum það með þessari grein frá Melkorku Árnýju Kvaran sem var þátttakandi í hlaupinu.

Ég hafði æft af kappi allan veturinn undir góðri leiðsögn Fríðu Rúnar Þórðardóttur. Veturinn var góður hér á höfuðborgarsvæðinu þannig að það var í flestum tilfellum lítið mál að hafa sig út á hlaupaæfingu. Stöku snjódagar og hálkudagar en ekkert sem að góður æfingafatnaður og gormar gátu ekki hlaupið af sér. Undirbúningstímabilið hafði gengið vel og skrokkurinn heill enda fylgdi ég æfingaáætluninni vel, líka m.t.t hvíldar, næringar og almenna endurheimtu.

    13. apríl flaug ég yfir Atlantshafið til Boston, ásamt klappstýrunum mínum þremur, manninum mínum, vinkonu og hennar manni. Það var mikil eftirvænting og ég með fiðring í maganum, bæði fyrir hlaupinu stóra og komandi frídögum sem áttu að fylgja í kjölfar hlaupsins í þessum góða félagsskap. Við tókum leigubíl af flugvellinum á hótelið okkar sem við höfðum valið sérstaklega m.t.t staðsetningar, en það var á Boylstone stræti þar sem hlaupið endar ár hvert. Hótelið var nánar tiltekið við marklínuna (finish line). Það var mikil stemning í borginni þessa daga fyrir hlaupið, enda löng helgi framundan og svokallaður „patriots day“, frídagur sem Bostonbúar eru vanir að halda hátíðlegan og tengja við maraþonið, en Bostonmaraþonið er elsta maraþonið í USA. Þetta var í 117. skiptið sem hlaupið var haldið. Klukkustundirnar fram að hlaupi snerust fyrst og fremst um að sækja keppnisgögn, borða og drekka vel og hvíla sig ásamt örlitlu rölti um Newberry stræti. Ég hafði einmitt orð á því við fólkið mitt hvað ég hlakkaði til að skoða borgina betur og njóta alls sem hún hefði upp á að bjóða að hlaupi loknu.


 Mynd tekin fyrir utan hótelið okkar og við markið u.þ.b klst. áður en sprengjan sprakk nákvæmlega á þessum stað.

Það var komið að hlaupadegi, 15. apríl, og ég vaknaði kl 5:00, klæddi mig í föt, setti á mig rásnúmer og fékk mér næringarríkan morgunverð. Fór út þar sem ég var búin að mæla mér mót við aðra Íslendinga sem voru að fara að hlaupa líka. Framundan var klukkustundar löng rútuferð á rásstað og tilfinningin var blönduð spennu og eftirvæntingu. Þarna var komið að því sem ég hafði stefnt að og æft svo vel fyrir í marga mánuði. Hlaupaaðstæður voru eins og best verður á kosið eða um 10-15 stiga hiti og léttaskýjað og öll umgjörðin í kringum hlaupið til fyrirmyndar.

Hlaupið var ræst og ég farin af stað í mannmergðinni. Ég legg alltaf mikið upp úr því í svona stórum hlaupum erlendis, að drekka í mig stemninguna af hliðarlínunni og nýta orkuna frá þessum hundruðum þúsunda sem eru að hvetja hlauparana áfram, og það vantaði sko ekki stemninguna þarna. Það skipti ekki máli hvort ég hljóp í gegnum róleg fjölskylduhverfi, fjölmenn háskólahverfi eða fallegt sveitalandslag, alls staðar var mikil mannmergð sem hvatti mig áfram með því að kalla „Go Iceland“ eða „Go Mel“ þar sem ég var í merktum bol með þessum áletrunum. Ég man sérstaklega eftir því þegar ég hljóp fram hjá Harvard- háskólasvæðinu, þar hélt ég bara að mannskapurinn væri að tryllast svo mikil voru lætin og fagnaðarópin. Einnig er mér minnistæð brekka sem er kölluð „Hartbrake hill“ sem er á u.þ.b 33. kílómetra. Þetta er brekka sem öllum hlaupurum er nánast sagt að hræðast og þegar ég hljóp upp þessa ca. 800 metra brekku, var fólk öskrandi að brekkan væri alveg að verða búin og að það biði mín „down hill“ handan við hornið, sem var að sjálfsögðu kærkomið, því brekkur eru jú alltaf brekkur og taka sinn toll. Öllum umhugað um líðan okkar hlaupara þennan dag og tilbúnir að létta manni lífið hvort sem það var með réttum hrópum og köllum eða færandi manni orku á borð við bananabita og súkkulaðibita. Þegar það voru u.þ.b 4 km eftir trúði ég því ekki að þetta væri að verða búið, sú hugsun skaust upp í kollinn að ég vildi ekki að þetta kláraðist, svo gaman var þetta. Ég kem í mark á tímanum 3:16:08 og geðshræringin var mikil og ég réð ekkert við táraflóðið sem bara rann úr augunum.


Hvatningarorð og skemmtileg lýsing á brekkunni heartbrake hill, sem er á ca. 33 km í hlaupinu.

Ég geng að fjölskyldusvæðinu þar sem klappliðið mitt var komið og við fögnuðum árangri mínum ásamt nokkrum fleirum íslenskum hlaupurum sem voru komnir í mark. Það er erfitt að lýsa tilfinningunni sem maður upplifir að loknu svona hlaupi, maður er í vímu af endorfíni, dauðþreyttur en um leið svo glaður og ánægður með sig að hafa klárað svona þrekraun, líðandi jafn vel og hafandi svona gaman af eins og raunin var.


Fagnað í marki, á fjölskyldusvæðinu með nokkrum íslenskum hlaupurum. Bostonmaraþonið var mitt þriðja heila maraþon.

Eftir dágott spjall og fagn ákveðum við klappliðið mitt, að halda heim á hótel og koma mér í bað, hrein föt og í snertingu við mat. Við þræddum okkur til baka í átt að hótelinu í gegnum mannmergðina og þegar við eigum ca 200-300 metra eftir ófarna til að komast upp á hótel, heyrum við mikinn hvell og miklar drunur. Fyrsta sem fór í gegnum kollinn á okkur fjórmenningunum var, „hvar er verið að fella niður hús“, þetta minnti helst á svona byggingaframkvæmdir, en okkur fannst það samt frekar skrítið svona á miðjum maraþondegi og það frídegi í þokkabót. Nokkrum sekúndum síðar heyrðum við aftur svona mikinn hvell og upp úr því hófst mikið sírenuvæl og við sáum fólk hlaupa í allar áttir og lögregluna hlaupa í sömu átt og við vorum að ganga í. Þarna vorum við stoppuð af og okkur sagt að gjöra svo vel að ganga í hina áttina eða bara eins langt í burtu frá þessum stað og við kæmumst. Og eins barnalega og það hljómar, þá dettur maður samt í þann gírinn að hugsa um sjálfan sig og við spurðum lögregluþjón hvort við mættum komast upp á hótelið okkar til þess eins að ná í hrein föt. Á þessum tímapunkti höfðum við í raun ekki hugmynd um alvarleika málsins en svo kvisaðist það fljótt út að það hafi sprungið sprengja beint fyrir framan markið, beint fyrir framan hótelið okkar, þannig að eðli máli samkvæmt máttum við ekki fara inn á hótelið okkar sem núna var orðið að einum alsherjar glæpavettvangi.

Næstu klukkutíma gengum við um borgina og upplifðum panikástandið og ringulreiðina sem fylgdi í kjölfar sprenginganna. Við reyndum að setjast á kaffihús þar sem hægt væri að fylgjast með fréttum en hvert sem við fórum inn, var okkur vísað aftur út, því glæpavettvangssvæðið stækkaði ört. Við sáum fólk grátandi í húsasundum og hlaupandi um götur í símunum og talandi um „the bomb“. Við tókum loks ákvörðun um að hoppa upp í næsta leigubíl og reyna að koma okkur inn á annað hótel þegar við áttuðum okkur á því að við myndum ekki komast inn á okkar hótel það sem eftir lifði ferðar. Leigubíllinn rúntaði með okkur stóran hring í kringum borgina til að koma okkur á ákveðið hótel sem við vissum að íslenska flugáhöfnin gistir alltaf á. Til allra hamingju voru laus tvö herbergi þar, sem við fengum.

Þarna vorum við komin farangurslaus, vegabréfslaus, ég enn í hlaupafötunum með engin önnur föt en þakklát fyrir að hafa komist heil á húfi inn á annað hótel og byrja að taka við símtölum frá klakanum og láta vita að allt væri í lagi með okkur. Þarna komst ég loks í bað og í hrein föt sem íslenskar flugfreyjur á hótelinu lánuðu mér og á þessum tímapunkti var ég orðin svo svöng að mini-barinn fékk ærlega að finna fyrir því. Það sem eftir lifði kvölds þessa skrítna dags, fór í að fylgjast með fréttaflutningu og fljótlega fórum við að átta okkur á alvarleika málsins og hugsanir á borð við „Hvað ef? Hvað hefði?“ skutust upp í kollinn. Þarna vorum við stödd saman hjónin svo óralangt frá börnunum okkar, vegabréfslaus og farangurslaus og vissum ekkert hvenær við kæmumst úr landi og heim, þar sem okkur langaði hvergi annars staðar að vera á þessum tímapunkti.

Næsti dagur fór svo í það að ná aðeins áttum, hafa samband við sendiráðið til að fá bráðbirgðavegabréf, flýta heimförinni, heilsa hermönnum eins og hótelstarfsmönnum og endurheimta orkuna, sem síðar kom í ljós að tók ansi margar vikur að vinna til baka. Það er vissulega alltaf gott að koma heim frá útlöndum, en ég hef aldrei verið eins glöð að lenda á Keflarvíkurflugvelli eins og morguninn sem við lentum.

Þeirri hugsun skaut svo upp í kollinn á mér mjög reglulega næstu vikurnar að „börnin okkar hefðu í raun verið mjög nálægt því að verða munaðarlaus“. Ég upplifði einhversskonar andlegt „burn out“ eftir þennan atburð. Fjölskyldustundirnar fóru að skipta mig meira máli, mitt upptekna félagslíf og vinnustundir minna máli og hlaupamarkmiðin mín breyttust í kjölfarið. Forgangsröðin mín breyttist og keppnishlaup voru fyrir mér ekki lengur eins mikilvæg og eftirsóknaverð og áður. Tilgangurinn og hvatinn til þess að hlaupa nokkrum mínútum hraðar en ég hafði áður gert hvarf eins og dögg fyrir sólu og hlaupin og hreyfingin fyrir mér upp frá þessum atburði, eða síðastliðið árið, snúist um heilsueflingu og ánægju, frekar en keppni og sekúndu-/mínútubætingar. Upp frá þessari lífsreynslu finnst mér ég hafa lært það enn frekar að njóta stundarinnar, taka einn dag fyrir í einu og taka honum alls ekki sem sjálfsögðum.

Ég útiloka alls ekki að ég komi aftur til baka með það að markmiði að bæta tímana mína í hinum og þessum hlaupavegalengdum, enda veit ég ekkert hvað þetta fjölbreytta, skemmtilega og krefjandi líf mitt hefur upp á að bjóða.


Höfundur:
Melkorka Árný Kvaran, eiginkona og þriggja barna móðir, framkvæmdastjóri og þjálfari Kerrupúls sf. - íþróttakennari og matvælafræðingur