Fara í efni

Bounty-bitar

Dásamlega einfaldir og sérlega bragðgóðir heimagerðir Bounty-bitar. Flottir í veisluna, saumaklúbbinn eða bara með kaffinu.
Bounty Bitar
Bounty Bitar

Innihald - Bitarnir:

  • ½ bolli kókosmjöl (fínt)
  • 2 msk kókosolía
  • 1 msk hunang
  • 1 msk vatn
  • ¼ tsk vanilla extract dropar
  • Nokkur korn af sjávarsalti

Innihald - Súkkulaðið:

  • 2 msk lífrænt kakóduft
  • 2 msk kókosolía
  • 1 msk hunang

Aðferð:

  • Fínt að byrja á því að setja kókosolíu og hunang saman í lítið glas og velgja t.d. í heitu vatni í vaskinum.  Verður þægilegra að eiga við olíuna þannig.
  • Kókosmjöl, kókosolíu, hunangi, vatni, vanillu extract og sjávarsalti blandað saman í skál.
  • Látið standa í 5-10 mínútur til að allt kókosmjölið verði örugglega blautt í gegn.
  • Fínt að nota litla kúpta skeið til að móta bitana.  Á þessum tímapunkti eru þeir mjög lausir í sér.  Engar áhyggjur þeir munu harðna þegar olían harðnar í frystinum.
  • Bitunum raðað á bökunarpappír t.d. á lítið skurðarbretti sem kemst svo fyrir í frystinum.
  • Sett í frysti í 15-20 mínútur.

Á meðan bitarnir eru í frysti er súkkulaðið gert tilbúið.
Það er einnig vel hægt að notast við tilbúið súkkulaði –þá er það bara brætt t.d. í potti eða vatnsbaði.

  • Lífrænt kakóduft, kókosolía og hunang er blandað saman í skál – hér er einnig gott að setja skálina ofan í eldhúsvaskinn með heitu vatni og hræra þessu saman þar.  Passa bara að vatnið sullist ekki ofan í skálina.
  • Bitarnir teknir út úr frystinum.
  • Ég setti nú bara bitana ofan í súkkulaðið og velti þeim þar svo þeir yrðu alveg þaktir.
  • Aftur sett í frystinn í a.m.k. 10 mínútur.

Hér getur verið spurning hvort þú viljir gera aðra umferð af súkkulaðibaðinu.  Ég gerði það allavegana og þá varð þetta ennþá betra.

  • Svo er fínt að sáldra kókosmjöli yfir síðasta lagið af súkkulaðinu – en þú verður að hafa ansi hraðar hendur því að súkkulaðið harðnar mjög fljótt þar sem bitarnir eru ískaldir.
  • Aftur sett í frystinn og tekið út t.d. 5 mínútum áður en boðið er uppá bitana (þ.e.a.s. ef þeir eru þá ekki þá þegar búnir!).
Njótið!
 
Ásthildur Björns
Heilsumarkþjálfi
Hjúkrunarfræðingur B.Sc
ÍAK-einkaþjálfari
 
Sjá fleiri uppskriftir:  www.maturmillimala.com