Fara í efni

Bragðmikið kúskús salat með ofnbökuðu grænmeti, avocado og parmesan osti

Mér finnst alveg frábær tilbreyting frá grilltíð sem einkennist oft og tíðum af dálítið miklu kjöti, að sneiða hjá kjötmáltíðum og bera á borð kvöldmat sem inniheldur einungis grænmeti.
Bragðmikið kúskús salat með ofnbökuðu grænmeti, avocado og parmesan osti

Mér finnst alveg frábær tilbreyting frá grilltíð sem einkennist oft og tíðum af dálítið miklu kjöti, að sneiða hjá kjötmáltíðum og bera á borð kvöldmat sem inniheldur einungis grænmeti.

Ég tala nú ekki um núna þegar fer að líða á ágúst mánuð og íslenskt grænmeti fer að fylla grænmetiskæla matvöruverslana.

Ég get nú reyndar ekki státað mig af því að hafa notað eingöngu íslenskt grænmeti í þennan rétt, en góður var hann. Ég lét hann standa algjörlega einan og sér sem kvöldmat á dögunum og fannst avacado teningarnir alveg gera útslagið í að skila okkur mettandi og góðum kvöldverði. Ég hvet ykkur til að prófa að hafa grænmetisrétt á borðum allavega einu sinni í viku ef þið hafið ekki vanist því. Það er bæði hagstætt og ljúffengt og alltaf upplagt að nota til dæmis grænmetisafganga sem liggja óhreyfðir í grænmetisskúffunni í staðin fyrir að henda þeim. Ég notaði hreint kúskús í þennan rétt sem ég kryddaði sjálf. Það væri líka vel hægt að kaupa tilbúið kryddað kúskús.

Prófið bara!

Bragðmikið kúskús salat með ofnbökuðu grænmeti, lárperu og parmesan osti (fyrir 3-4):

  • 200 gr hreint kúskús – kryddað með 1 tsk oregano, 1 tsk paprikukryddi, 1/4 tsk kanil, 1 tsk grófu sjávarsalti, 1/2 tsk svörtum pipar, 1/2 tsk cummin, 1/2 tsk kóríander og 1/4 tsk þurrkuðum chilliflögum (líka hægt að nota kryddað kúskús)
  • 1 -2 öskjur konfekt tómatar eða piccolo tómatar (magn fer þó eftir smekk)
  • 2 vænir rauðlaukar
  • 1 msk ólífuolía
  • 2 msk balsamikedik
  • 1 msk hunang
  • Sjávarsalt og pipar
  • Nokkrar sneiðar grilluð marineruð paprika úr krukku (líka hægt að nota t.d þistilhjörtu eða ólifur)
  • 2 lárperur
  • Rifinn ferskur parmesan ostur
  • Góð lúka fersk steinselja og graslaukur, smátt saxað
  • 1 sítróna skorin í báta

Aðferð:

Hitið ofn í 220 gráður. Byrjið á að setja kúskúsið í skál og krydda það. Blandið vel saman. Hellið sjóðandi vatni yfir kúskúsið. Ég mæli aldrei vatnið heldur helli þar til vatnið þekur alveg kúskúsið og nær ca. 1/2 cm yfir það. Leggið disk eða plastfilmu yfir skálina og látið standa í 10 mínútur eða á meðan þið gerið restina af réttinum. Skerið laukinn í tvennt og svo í dálítið þykkar sneiðar. Skerið tómatana í tvennt. Setjið laukinn og tómatana á bökunarplötu. Hellið ólífuolíu, balsamikediki og hunangi yfir, saltið og piprið og veltið grænmetinu vel uppúr. Bakið í 10-15 mínútur eða þar til laukurinn hefur tekið lit og karamelliserast í hunangs-edik blöndunni. Skerið grilluðu paprikuna í strimla. Ýfið kúskúsið upp með gaffli og hellið því á fat. Setjið grænmetið yfir og blandið aðeins saman. Skerið lárperuna í teninga og dreifið yfir ásamt vel af rifnum parmesan osti og saxaðri steinselju og graslauk. Kreistið smá sítrónusafa yfir og berið fram með sítrónubátum. 

 

Uppskrift af eldhusperlur.com