Viltu forðast að brenna út í starfi? Drífðu þig þá í ræktina!
Kannski er það síðasta sem þig langar til að gera eftir langan og erfiðan vinnudag að skella þér í hlaupaskóna og taka sprett eða drífa þig í líkamsræktina og svitna með öllu hinu liðinu. Ef þú hins vegar hefur þig af stað nokkrum sinnum í viku er líklegra að þú verðir í betra skapi í vinnunni.
Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn sem birt hefur verið í Journal of Applied Psychology. Greinin ber heitið Job burnout and depression: Unraveling their temporal relationship and considering the role of physical activity.
Vísindamenn frá háskólanum í Tel Aviv komust að því í þessarri rannsókn að starfsmenn sem stunda líkamsrækt í nokkra klukkutíma í hverri viku eru ólíklegri en aðrir til að upplifa versnandi geðheilsu í starfi. Dr. Sharon Toker sem fór fyrir rannsókninni telur að þeir einstaklingar sem stunda líkamsrækt samtals í fjóra tíma í viku verði síður útbrenndir í starfi og upplifi síður einkenni þunglyndis.
Dr. Toker segir að útbrennsla (burnout) sé í raun líkamleg, huglæg og tlfinningaleg örmögnun. Útbrennsla í starfi getur haft alvarlegar afleiðingar og segir Toker að hún hafi oft eins konar "domino" áhrif sem geti leitt til þess að einstaklingurinn missir starf sitt, jafnvel fjölskyldu, heimili og standi svo eftir berskjaldaður og finnist hann einskis virði.
Toker og félagar rannsökuðu 1.632 einstaklinga sem störfuðu bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Þeim var skipt í fjóra hópa. Einn hópur stundaði enga líkamsrækt, annar hópurinn stundaði líkamsrækt í 75-150 mínútur í viku, sá þriðji í 150 - 240 mínútur í viku og sá fjórði í meira en 240 minútur vikulega. Þátttakendurnir svöruðu spurningalistum og komu í þrisvar í reglulegt eftirit á rannsóknarstöðina á níu ára tímabili. Þunglyndi og útbrennsla var greinilega algengust meðal þeirra sem stunduðu enga líkamsrækt. Því meira sem einstaklingarnir hreyfðu sig, því ólíklegra var að þeir sýndi enkenni um þunglyndi eða útbrennslu.
Höfundarnir hvetja vinnuveitendur til að setja upp líkamræktaraðstöðu á vinnustöðum eða sjá til þess að vinnutími sé sveigjanlegur svo starfsmenn hafi tíma til að stunda reglulega líkamshreyfingu. Þeir telja að þegar til lengdar lætur muni vinnuveitandinn hagnast á slíkum aðgerðum.
Grein eftir Axel F. Sigurðsson hjartalækni.