Fara í efni

Brjósklos

Hryggsúlan er sett saman úr 26 smábeinum sem kallast hryggjarliðir og brjóskþófum sem tengja beinin saman.
Brjósklos
Brjósklos

Hryggsúlan er sett saman úr 26 smábeinum sem kallast hryggjarliðir og brjóskþófum sem tengja beinin saman. Þessir þættir raðast upp í súlu sem umlykur mænuna og styður við efrihluta líkamans.

Hryggsúlunni er gjarnan skipt í 3 hluta, auk spjaldhryggjar og rófubeins:

  • hálshluta, sem samanstendur af 7 hálsliðum
  • brjósthluta, sem myndaður er af 12 brjóstliðum og tengjast rifbeinin þeim
  • lendarhluta, sem er myndaður af 5 lendarliðum og eru þeir stærstir af hryggjarliðunum. Mestur hluti af líkamsþunganum fer í gegnum þennan hluta og er álagið því mest á hann
  • spjaldhryggurinn sem samanstendur af flötu þríhyrningslaga beini sem tengir svo hryggsúluna við mjaðmagrindina
  • rófubeinið er svo neðst, 2–4 lítil bein sem eru samvaxin að hluta.

Brjóskþófar tengja hryggjarliðina saman og mynda þannig hryggsúluna ásamt hryggjarliðunum. Þeir eru samsettir úr bandvefshring sem liggur umhverfis hlaupkenndan kjarna (nucleus pulposus). Brjóskþófinn er 80% vatn sem gerir hann mjög teygjanlegan og eykur það á hreyfigetu hryggjarins og styður einnig við hann, í honum liggja engar æðar og þarf hann því að fá næringu frá aðlægum æðum.

Á hryggjarliðina og hliðar brjóskþófana festast svo þeir vöðvar sem taka þátt í hreyfingum hryggsúlunnar og gera það kleift að við getum beygt okkur og snúið.

Mænan nær frá heilastofni (neðsta hluta heilans), liggur í beingöngunum sem hryggjarliðirnir mynda og nær niður að fyrsta eða öðrum lendarlið þar sem hún greinist í knippi sem kallast cauda equina (mænutagl). Frá mænunni liggja taugarætur sem liggja út úr beingöngunum og tengja þannig heilann við aðra hluta líkamans.

Verkir í baki

Verkir í mjóbaki er algengasta form bakverkja, en orsök verkjanna er oft ekki fullþekkt. Oft kemur verkur í kjölfar slyss, eftir að þungum hlut hefur verið lyft eða eftir snöggar hreyfingar, en einnig getur verkur komið án sýnilegrar ástæðu.

Verkjum í baki er oft skipt í:

  • bráða bakverki, sem eru slæmir verkir í baki sem hafa staðið í minna en 1 mánuð og ekki eru undirliggjandi aðrir sjúkdómar
  • langvinna bakverki, talað er um verki í baki sem langvinna þegar þeir hafa staðið í meira en 6 mánuði.

Það er ýmislegt sem getur framkallað verki í baki

Orsakir verkja í baki eru marþættar en oft eru verkir tilkomnir vegna aflögunar á vefjum sem liggja aðlægt hryggsúlunni sem aftur veldur þrýstingi á taugaræturnar og framkalla þannig verk.

  • Brot eða áverkar á hryggjarliði eða hryggjartinda (beinþættir sem standa út úr hryggbolnum).
  • Þrengsli geta myndast í mænugöngunum, þetta ástand er kallaðspinal stenosa (mænuþrengsli).
  • Krampar (spasm) geta orðið í vöðvunum.
  • Slit í liðunum sem tengja hryggbolina saman og kallast það slitgigt (osteoarthritis).
  • Skrið verður á hryggjarliðum og þar með aflögun á hryggsúlunni, ástand sem kallast spondylolisthesis (hryggjarliðsskrið)
  • Beinþynning, sem veldur því að hryggbolirnir missa styrk sinn, verða brothættir og geta fallið saman við minnsta tilefni.

Brjósklos, hver er orsökin?

Brjósklos kallast það þegar kjarninn í brjóskþófunum sem liggja milli hryggjarliðanna þrýstir á bandvefshringinn og veldur því að hann bungar út eða rifnar og þrýstingur verður á aðliggjandi taugarætur. Í sumum tilfellum er ekki nein þekkt ástæða fyrir því að þetta gerist, en hrörnun, sem verður á bandvefnum með aldrinum, getur orsakað þetta. Einnig getur þetta orðið til við áreynslu s.s. líkamlega vinnu eða slys. Útbunganir á brjóskþófum valda þó ekki alltaf einkennum, því rannsóknir hafa sýnt að fjölmargir einstaklingar hafa útbunganir á brjóskþófunum án þess þó að hafa nein einkenni.

Hvenær myndast brjósklos?

Brjósklos í lendarhrygg (mjóbaki) er algengasta form brjósloss og er algengt hjá einstaklingum á aldrinum 30-50 ára. Brjósklos í hálsliðshlutanum er sjaldgæfara og brjósklos í brjósthlutanum er sjaldgæft.

 

Þættir sem auka hættu á brjósklosi

  • Ýmsar starfsgreinar eru í meiri hættu á að fá brjósklos. Þeir sem vinna við að lyfta þungu, snúa sér og beygja við vinnu þannig að aukið álag verður á bakið og einnig þeir sem vinna við langkeyrslur eru í meiri hættu.
  • Einstaklingar sem eru í lélegu líkamlegu formi eru í meiri hættu og sérstaklega er hættan aukin ef þeir taka sér fyrir störf þar sem álag verður á bakið eins og t.d. að lyfta þungum hlutum.
  • Einstaklingar sem eru í lélegu líkamlegu formi eiga í meiri hættu á brjósklosi, og sérstaklega er hættan aukin ef þeir sinna störfum þar sem álag verður á bakið, eins og t.d. að lyfta þungum hlutum. Einstaklingar sem eru í lélegu líkamlegu formi, hafa stífa bakvöðva sem gerir það að verkum að hreyfingar hr yggsúlunnar verða takmarkaðar og slappir magavöðvar valda því að staða mjaðmagrindarinnar breytist og aukið álag verður á mjóbakið, offita eykur svo enn frekar á líkur á að brjósklos myndist.
  • Rangar líkamsæfingar geta valdið brjósklosi og því er mikilvægt að gera allar æfingar rétt þegar líkamsþjálfun er stunduð.

Hver eru einkennin?

Einkenni verða aðallega vegna þrýstings á taugaenda:

  • Einkenni þrýstings á taugaenda:

Máttminnkun eða lömun á einstaka vöðvum og/eða verkir sem leiða út í handlegg eða fætur og/eða skyntruflanir í höndum eða fótum.

  • Einkenni þrýstings á mænu:

Krampar og/eða lömun og skyntruflanir í þeim hluta líkamans sem þær taugar sem verða fyrir þrýstingnum liggja til.

  • Einkenni þrýstinga á cauda equina (mænutagl):

Truflanir á þvaglátum og/eða skyntruflanir við endaþarm og innan á lærum og/eða máttminnkun eða lömun á báðum fótum.

Hvað er til ráða?

Við upphaf skyndilegs bakverkjar er mikilvægt að leggjast og taka verkjalyf til að lina sársaukann. Í byrjun er ráðlagt að taka verkjalyf sem hægt er að kaupa í apóteki s.s. parasetamól og bólgueyðandi lyf s.s. Íbúfen. Gott er að nota kælipoka og hitapoka til skiptis á svæðið þar sem verkurinn er, byrja skal á að nota kælipoka í 20 mínútur og síðan hitapokann í 20 mínútur og svo koll af kolli og enda alltaf á köldum poka. Með því að setja heitt og kalt til skiptis myndast nokkurs konar pumpa á æðakerfið og það eykur blóðflæðið. Ekki er ráðlegt að setja hita ef grunur leikur á að um bólgu sé að ræða ( þ.e. ef hiti er yfir svæðinu) en setja frekar hita sitt hvorum megin við hryggsúluna, til að auka blóðflæðið í nærliggjandi vöðvum. Fyrstu 1–2 dagana er hvíld mikilvæg, ekki setja álag á bakið og hafa aðstæður þannig að mögulegt sé að leggjast útaf. Rúmlega er ekki ráðlögð í meira en 2 daga.

Nætursvefn er mikilvægur og því oft nauðsynlegt að taka verkjalyf fyrir svefninn ef verkir eru slæmir. Gott getur verið að fara í heitt bað fyrir svefn, eða liggja á hitapoka og mikilvægt er að forðast kaffidrykkju seinnipart dags. Það getur hjálpað til við að minnka verkinn að hnipra sig saman á hliðinni með kodda milli hnjánna.

Að byrja að þjálfa bakið strax og sjúklingur treystir sér til hjálpar, en mikilvægt er að byrja rólega og forðast hraðar og flóknar æfingar. Best er að byrja á styrktaræfingum með mjög litlu álagi og teygjum sem eru mjög mikilvægar, og best er að fá leiðsögn sjúkraþjálfara. Einungis skal þjálfa upp að sársaukamörkum og hætta strax og sársauki gerir vart við sig.

Oft lagast bakverkur sem er af völdum brjóskloss eða vöðvatognunar á nokkrum dögum án frekari meðferðar, en getur þó tekið allt að sex vikur. Ef einkenni máttminnkunar eða truflanir verða á þvaglátum, er mikilvægt að leita læknis strax og ef verkir eru það slæmir að rúmlegu er þörf, er rétt að hafa samband við lækni innan 2 sólarhringa.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Vegna þess hversu margvíslegar orsakir geta legið að baki bakverkja er mikilvægt að taka nákvæma sjúkrasögu og skoða sjúklinginn til að útiloka aðra sjúkdóma. Mikilvægt er að fyrir liggi upplýsingar um fyrri verkjasögu frá baki sem og slys og áverka á hryggsúluna, hvernig verkurinn lýsir sér og hvað geri hann verri eða bæti líðan. Ef grunur leikur á að um brjósklos sé að ræða má senda sjúkling í frekari rannsóknir, tölvusneiðmyndatöku, segulómun eða skuggaefnisrannsókn af mænugöngum, til að staðfesta greiningu. Læknir metur í hverju tilfelli fyrir sig hvaða rannsóknir eru nauðsynlegar. Mikilvægt er að greiningin sé nákvæm, þar sem margir sjúkdómar geta gefið svipuð einkenni.

Hver er meðferðin?

Í dag eru menn sammála um að ef ekki eru til staðar einkenni um máttminnkun eða truflanir á þvaglátum sé rétt að reyna að meðhöndla brjósklos án skurðaðgerða. Ef einkenni eru langvarandi er þó rétt að meta hvort aðgerð geti hjálpað.

Áður en gripið er til aðgerðar er sjúklingurinn látinn liggja fyrir og honum gefinn verkjastillandi lyf, hann er einnig settur í sjúkraþjálfun eða sendur til hnykkjara. Mikilvægt er að greining liggi fyrir áður en sjúklingur fer til sjúkraþjálfa eða hnykkjara. Læknirinn metur síðan hvort skurðaðgerð sé nauðsynleg.

  • Þrýstingur á mænuna krefst bráðrar skurðaðgerðar.
  • Við mikla lömun er brýn þörf á skurðaðgerð.
  • Þrýstingur á cauda equina (mænutagl) krefst einnig skurðaðgerðar, en ef hún er ekki framkvæmd getur það leitt til þvagvandamála.
  • Ef bakverkur hefur staðið í nokkrar vikur og hefur veruleg áhrif á daglegt líf sjúklings, er rétt að meta hvort aðgerð geti bætt líðan.

Leitið læknishjálpar ef einkenni bakverkja breytast eða versna eða ef þvagleki, lömun og krampar verða, slíkt krefst tafarlausrar læknismeðhöndlunar.

Hvernig fyrirbyggja má bakverki

Líkamsstaða er mikilvæg til að fyrirbyggja bakverki. Standið bein þannig að mjaðmir, axlir og eyru liggi í beinni línu.

Langar stöður auka álagið á bakið og því mikilvægt að reyna að ganga um hvenær sem tækifæri gefst. Þægilegur skófatnaður er einnig mikilvægur.

Langar setur auka einnig álagið á bakið, mikilvægt er að hafa góðan stól með stuðning við bakið og reyna að hafa hné örlítið hærra en mjaðmirnar þegar setið er, t.d. með því að nota fótaskemil til að hvíla fæturna á. Hægt þarf að vera að snúa stólnum auðveldlega til að forðast að snúa og vinda upp á bakið. Gott er að standa upp á klukkustundar fresti og liðka sig. Það sama gildir á langkeyrslum, hafa hné hærra en mjaðmir, sitja ekki of aftarlega svo ekki þurfi að teygja sig, halla bakinu ekki meira en 30 og hafa stuðning við bakið.

Svefninn er mikilvægur og til að góður nætursvefn náist er nauðsynlegt að rúmdýnan sé þægileg ekki of mjúk og ekki of stíf.

Líkamsþjálfun er nauðsynleg bæði fyrirbyggjandi og einnig fyrir þá sem eru að ná sér eftir bakverki. Sterkir magavöðvar og vöðvar í baki hjálpa til við að gera hryggsúluna stöðuga. Teygjur í baki og mjöðmum eru mikilvægur hluti af líkamsþjálfuninni til að halda réttri stöðu á beinagrindinni. Þeir sem eru viðkvæmir í baki ættu þó að forðast líkamsþjálfun þar sem mikið er um snöggar hreyfingar eins og fótbolta og lyftingar, betra er að ganga, hjóla eða synda.

Ef lyfta á einhverju, verið viss um að líkaminn sé í réttri stöðu áður en þið lyftið og notið fæturna ekki bakið. Til að auka jafnvægið er gott að hafa bil á milli fótanna. Varist að lyfta þungum hlutum ein, fáið hjálp.

Heimild: doktor.is