Fara í efni

Flensur og aðrar pestir - 11. vika 2015

Í síðustu viku dró mikið úr virkni inflúensunnar.
Flensur og aðrar pestir - 11. vika 2015

Í síðustu viku dró mikið úr virkni inflúensunnar eins og sést á mynd 1, sem sýnir fjölda þeirra sem greindust með inflúensu skv. klínísku mati lækna í heilsugæslunni og á bráðamóttökum.

Samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítala dró lítillega úr fjölda innsendra öndunarfærasýna og fjöldi jákvæðra sýna var svipaður borið saman við vikuna á undan, sjá töflu 1.

Alls greindust 11 með inflúensa A(H3), þrír með inflúensu B og einn með inflúensu A(H1), sjá töflu 1. Inflúensa A(H3) er því enn ráðandi stofn, sem hefur greinst langoftast í vetur.

Staðan í Evrópu
Þetta er í samræmi við virkni inflúensu á meginlandi Evrópu en hún hefur náð hámarki í flestum löndum þar og dregur úr útbreiðslu hennar. Ráðandi stofn víðast hvar er inflúensa A(H3N2), sjá nánar á vefsíðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og sóttvarnarstofnunar ESB (ECDC).

Aðrar öndunarfæraveirur
Enn greinist töluvert af Respiratory Syncytial Veiru (RSV), sjá töflu 1. Einnig greindust nokkur tilfelli af Human metapneumoveiru (hMPv) og rhinoveiru ásamt stöku adenó- og enteróveirugreiningum, sjá töflu 1 og töflu 2. RSV og hMPV geta valdið alvarlegum einkennum hjá yngstu börnunum, engin bóluefni eru til gegn þessum veirusýkingum, sjá nánari upplýsingar um RSV á vefsíðu Embættis landlæknis.

Innlagnir á Landspítala
Verulega hefur dregið úr fjölda innlagna á Landspítala vegna inflúensu eins og sést á mynd A. Fjöldi innlagna náði hámarki í 9. viku, en sl. tvær vikur hefur dregið verulega úr þeim. Stærstur hluti þeirra sem hafa þurft á innlögn að halda eru eldri borgarar og/eða einstaklingar með undirliggjandi áhættuþætti.

Samkvæmt þessu eru nokkrar tegundir öndunarfæraveira að valda veikindum í samfélaginu, algengastar eru inflúensa A(H3), RSV, hMPV, inflúensa B og rhinoveira. Samkvæmt niðurstöðum frá veirufræðideildinni virðist vera töluvert um RSV í samfélaginu, eins og áður greinist þessi veira oftast í ungum börnum. En á sama tíma virðist draga verulega úr veikindum af völdum inflúensu og líklegt er að útbreiðsla á öðrum öndunarfæraveirum fari einnig minnkandi á næstunni.

Meltingarfærasýkingar
Samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítala greindist rótaveira hjá þremur börnum á aldrinum 0 – 6 ára í síðustu viku, sjá töflu 3. Rótaveira er algeng orsök niðurgangs og uppkasta hjá börnum og við slæm einkenni er þörf á innlögn til að gefa vökva í æð. Enginn greindist með caliciveiru í síðustu viku. 
Það skal þó ítrekað að þessar tölur gefa takmarkaðar upplýsingar um sýkingar af völdum þessara veira í samfélaginu, því veikindin ganga oftast yfir án þess að sýnataka fari fram.

Fjöldi klínískra tilkynninga til sóttvarnalæknis af niðurgangi (ICD-10 kóði A09) hefur verið nokkuð lægri síðustu vikur samanborið við sl. ár, sjá mynd 2.

Sóttvarnalæknir

Heimild: landlaeknir.is