Ólögleg sala fæðubótarefna og lyfja á netinu kærð til lögreglu
Matvælastofnun hefur, í samvinnu við Lyfjastofnun, kært vef með íslensku léni til lögreglu og farið fram á að honum verði lokað. Rétthafi léns er skráður í Mið-Ameríku en vefleit gefur til kynna starfsemi í Ástralíu.
Á vefnum eru auglýst til sölu bæði ólögleg fæðubótarefni og lyf.
Matvælastofnun varar við viðskiptum við vefinn www.roidstop.is og neyslu fæðubótarefna og lyfja sem vefurinn segist selja. Neytendur skulu ávallt vera á varðbergi þegar kemur að kaupum á fæðubótarefnum og lyfjum á netinu.
Á síðunni eru til sölu hættuleg efni s.s. DNP og Nootropics. Nýlega féll dómur í Bretlandi vegna dauðsfalls ungrar stúlku sem hafði neytt DNP. Sölumaðurinn var dæmdur í 7 ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi og fyrir að selja hættulegt efni til manneldis. Grunur er um að nýlegt andlát einstaklings á Íslandi megi rekja til inntöku á Nootropics (tianeptine).
Matvælastofnun barst ábending um vefinn í gegnum hraðviðvörunarkerfi Evrópu um matvæli og fóður (RASFF).
Ítarefni