Það skiptir máli að þjálfa kviðvöðva á og eftir meðgöngu
Rétt og hæfileg þjálfun kviðvöðva er ávallt nauðsynleg en sér í lagi á meðgöngu.
Nauðsynlegt er þjálfa magavöðva fyrir og eftir meðgöngu. Margar konur hirða ekki um slíkt og það er synd, því magavöðvarnir létta álagi af hryggsúlunni. Þeir koma í veg fyrir bakverki, létta þrýstingi af mjaðmargrind og geta auðveldað okkur að fæða barnið.
Barnsfæðing reynir ekki síst á fætur. Við göngum níu mánuði með barn í maganum og höldum auk þess mikið á því fyrstu mánuðina eftir fæðingu. Farðu vel með fæturna: ef þú gætir vel að þeim er ég viss um að þeir nái sér fyrr en ella eftir meðgöngu. Þú skalt styrkja fætur og kálfa þrátt fyrir þungann.
Á meðgöngu færist þyngdarlína líkamans frá hæl fram á rist. Með einföldum æfingum komum við í veg fyrir verki í fótum. Hvíldu fæturna eins oft og þú getur, tylltu þér og settu fæturna upp á stól, drekktu vatn, - ekki gosdrykki; þannig má koma í veg fyrir krampa í fótum.
Ég minntist áður á nytsemi ólíkra vöðva líkamans. Gerir þú þér grein fyrir því hversu mikilvægt það er að þjálfa vöðvana í grindarbotni? Mikið er á þá lagt meðan á þungun stendur, svo ekki sé minnst á fæðinguna.
Kviðurinn stækkar allt að tuttugu falt og í hríðunum víkka leggöngin tíu til tólf falt. Þessi ótrúlega útvíkkun gerir margri konunni erfitt fyrir. Með því að þjálfa grindarbotnsvöðvana á meðgöngunni má búa líkamann undir þessi átök. Æfingarnar mega bara ekki leiða til of mikils álags á grindarbotninn.
Margar konur eiga við þvagleka að stríða eftir fæðingu. Hann orsakast í langflestum tilfellum af of slöppum vöðvum í grindarbotni. Við þjálfum þá með sérstökum æfingum og komum þeim í eðlilegt jafnvægi. Síðast en ekki síst auðvelda æfingarnar okkur að snúa aftur til ánægjulegs fyrra kynlífs.
Krisztina G. Agueda
Einkaþjálfari og íþróttaþjálfari
Hreyfiland