Fara í efni

VIÐTALIÐ: Eydís Valgarðsdóttir sjúkraþjálfari vinnur með þeim sem þjást af vefjagigt

Afar áhugavert viðtal við hana Eydísi. Ertu með eða þekkir þú einhvern sem er með vefjagigt? Ef svo er þá mælum við með því að þú lesir þetta viðtal.
VIÐTALIÐ: Eydís Valgarðsdóttir sjúkraþjálfari vinnur með þeim sem þjást af vefjagigt

Afar áhugavert viðtal við hana Eydísi. Ertu með eða þekkir þú einhvern sem er með vefjagigt?

Ef svo er þá mælum við með því að þú lesir þetta viðtal.

 

Fullt nafn: 

Eydís Valgarðsdóttir

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan ertu?

Ég er fædd og uppalin á Brekkunni á Akureyri og bý þar enn í dag. Maðurinn minn er Clark McCormick frá Winnipeg í Kanada. Við kynntumst á Íslandi þegar Clark kom að þjálfa íshokký.  Við eigum þrjú börn. Sigrúnu Mary 20 ára, nemandi í Listaháskóla Íslands. Bryndísi Ann 16 ára, nemandi í Menntaskólanum á Akureyri og Alexander sem er 6 ára.

 

Menntun og við hvað starfar þú í dag

Í Menntaskólanum á Akureyri áttaði ég mig fljótlega á því að áhugasvið mitt var á sviði líffræði og tengdra greina. Ég ákvað að læra sjúkraþjálfun því það hentaði mér ekki þá að vinna inni á spítölum með veiku fólki. Í dag starfa ég sem sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfari og hef lagt mig eftir því að hjálpa fólki með greininguna vefjagigt.

Hver eru helstu einkenni vefjagigtar? 

Helstu einkenni vefjagigtar eru verkir og eymsli í öllum líkamanum (líkt og hann sé marinn), stirðleiki (sem er verstur á morgnana), svefntruflanir, þreyta og orkuleysi.

Er vefjagigt ættgengur sjúkdómur eða er hún áunnin og hverjir eru álitnir helstu þættirnir sem koma vefjagigt af stað? 

Það er ákveðin fylgni ef vefjagigt er í fjölskyldunni einkum ef móðir er með vefjagigt eða ef mikið er af gigtarsjúkdómum í fjölskyldunni. Ýmislegt á lífsleiðinni getur hrint vefjagigtinni af stað og er það einkum langvarandi líkamlegt álag, verkir t.d. eftir slys eða andleg vandamál eins og kvíði og depurð. 

Það sem gerist er að einstaklingurinn er í stöðugri viðbragðsstöðu (streituviðbragði).  Langvarandi streita er mjög óholl fyrir okkur. Þessi streita sem við erum að tala um er oft mjög falin (óáþreifanleg) og að sama skapi er það mjög óeðlilegt ástand fyrir líkama, huga og sál að geta aldrei slakað á. Eftir því sem þetta ástand varir lengur fara að koma fram starfrænar truflanir í líkama okkar, svefninn riðlast og verður ekki eins endurnærandi, spenna myndast í vöðva-bandvefskerfi líkamans sem veldur verkjum og meltingartruflanir geta komið fram. 

Mörg önnur einkenni frá öllum líffærakerfum geta komið fram en það er einstaklingsbundið. Það er mikilvægt að átta sig á því að einkenni vefjagigtar koma upphaflega vegna truflunar í taugakerfinu og ýmislegt bendir til þess að þeir sem fá  vefjagigt séu með viðkvæmt taugakerfi í grunninn. Eftir því sem þetta ástand varir lengur án þess að gripið sé til ráðstafana, þeim mun lengra gengur það, líkt og snjóbolti sem rúllar af stað og stækkar. Þannig er líklegt að vandamálið stækki að umfangi sé ekkert að gert og erfiðara verður að snúa til baka. Því er ákaflega mikilvægt að grípa inn í ferlið fyrr en seinna.

Hvaða meðferð virðist áhrifaríkust við að halda einkennum niðri?

Til að byrja með er mikilvægt að greina streituþættina í lífi einstaklingsins. Oft veit fólk alveg hvað um er að ræða, oft er streitan liðin hjá en líkami, hugur og sál föst í streituviðbragðinu og allt komið í rugl. Stundum þarf fólk aðstoð fagaðila til að átta sig á streituþáttunum og vinna með þá.  Það er mjög mikilvægt að vinna með þessa streituþætti. Þá er ég að tala um atriði eins og gömul áföll, að minnka álagið í lífinu og einfalda lífið, setja sér raunhæf markmið, passa upp á hvíld og reyna að ná eins góðum og endurnærandi svefni og hægt er.  

Aðrir þættir sem skipta gríðarlegu miklu máli er regluleg hreyfing/þjálfun við hæfi og hollt og hentugt mataræði.

Lyf geta verið nauðsynlegur partur af meðferðinni en lyfjameðferð án annarra meðferðarúrræða er röng meðferð.

Ég lít svo á að vefjagigt sé ástand þ.e. að líkami og sál er af einhverjum ástæðum kominn úr jafnvægi og föst þar. Það er mjög margt hægt að gera til að líða betur en í því felst án undantekninga breyttur hugsunarháttur og lífstílsbreytingar. Hversu langt er hægt að ná í bataferlinu er mjög mismunandi. Því fyrr sem gripið er inní því betra, því meiri sjálfsvinna sem lögð er í ferlið þeim mun lengra má komast og eins skiptir það gríðarlega miklu máli að hafa gott jafnvægi í lífinu í kring og bakland (stuðning).

Er hreyfing, önnur en sjúkraþjálfun áhrifarík og hvaða hreyfing þá helst? 

Hreyfing er algjörlega nauðsynlegur þáttur í meðferð vefjagigtar. Það sem er flókið er að átta sig á því hvar maður á að byrja og að halda álaginu við æfingarnar í skefjum. Framfarir eru hægari hjá fólki með vefjagigt heldur en hinum sem ekki eru með vefjagigt og það getur verið svo erfitt að kunna sér hóf þá daga sem manni líður betur. Það á reyndar bæði við um dagleg störf og þjálfun.  Markmið hreyfingar ætti að vera að líða betur í eigin líkama en ekki að byggja upp vöðva eða missa kíló. Það kemur með tímanum þegar manni fer að líða betur andlega og líkamlega. Lykilatriðið er að gera hreyfingu/þjálfun  að lífsstíl og stunda reglulega. 

Alls konar hreyfing kemur til greina. Í fyrsta lagi er mikilvægt að hafa gaman að því sem verið er að gera. Það er gott að hafa fjölbreytni að leiðarljósi og stunda bæði þol og styrktarþjálfun. Ganga, sund, sundleikfimi, hjólreiðar, dans, jóga, ræktin sem dæmi, allt getur virkað. Sá þáttur sem ég kenni mínum skjólstæðingum er sjálfsmeðferð.  Sú meðferð byggir á skoðun og greiningu stoðkerfisvandamáls. Þannig geta áherslur verið mismunandi en ég byrja alltaf út frá líkamsstöðunni, að bæta hana, kenni fólki að vinna með og losa spennu úr líkamanum, teygja á stuttum vöðvum, styrkja slappa/veika vöðva og liðka svæði sem eru stirð. Mjúk æfingarúlla, mjúkir (eða harðir) nuddboltar og dýna er allt sem þarf fyrir utan kunnáttuna

Getur þú útskýrt í stuttu máli þá meðferð sem þú notar fyrir þína sjúklinga?

Fræðsla er gríðarlega mikilvægur þáttur og hefur alltaf verið partur af meðferðinni. Ég vil að mínir skjólstæðingar sæki vefjagigtarnámskeið sem ég held 3-4x á ári en það er allur gangur á því hvort fólk gerir það eða ekki. 

Ég hef starfað sem sjúkraþjálfari í 24 ár. Á þeim tíma hef ég farið á ótal námskeið með það að markmiði að geta hjálpað mínum skjólstæðingum betur. Ég hef lengi verið leitandi að meðferð sem virkar enda var ég oft ekki sátt við árangur meðferðarinnar. Fyrir 3 árum síðan las ég bók eftir bandaríska konu sem er læknir og sjálf með vefjagigt. Bókin heitir Figuring out Fibromyalgia (eða Reynt að skilja vefjagigtina). Þar talar hún um meðferðarform sem heitir Myofascial Release (vöðva-bandvefslosun) að hætti John F.Barnes sem er sjúkraþjálfari. Þetta var meðferð sem hafði gagnast henni vel sem verkjameðferð og hún mælir með fyrir sína skjólstæðinga. 

Eitt leiddi að öðru, ég las fleiri bækur og ákvað svo að skella mér til Bandaríkjanna ásamt vinkonu minni Sólveigu I. Skúladóttur, sjúkranuddara á Akureyri og læra þessa meðferð. Við erum búnar að fara út þrisvar sinnum og taka 8 námskeið þegar þetta er skrifað og erum hvergi nærri hættar.  Þetta er alveg hreint frábær meðferð sem útskýrir margt sem ég hef verið að leita svara við gegnum árin og hefur lausnir. Meðferðin fókuserar á bandvefskerfi líkamans. Bandvefurinn klæðir allt, þetta er í rauninni eins og kóngulóarvefur af himnum sem klæða vöðva, æðar, taugar og líffæri. Vegna slysa, lélegrar líkamsstöðu eða álags andlegs eða líkamlegs myndast stífleiki og festur (restrictions) í þessu kerfi.  Það veldur togi og þrýstingi á viðkvæma vefi.  Þrýstingurinn getur orðið mjög mikill eða allt að 2000 pund (1000 kg) skv. kennara mínum John F. Barnes. Bandvefurinn er undir miklum áhrifum frá ósjálfráða taugakerfinu þannig að ef við erum undir miklu álagi, kvíðin og spennt þá spennist bandvefurinn upp. Þetta kemur allt mjög vel heim og saman við vefjagigtina og marga aðra kvilla sem við höfum enga skýringu á. Þetta tog og þrýstingur í bandvefskerfi líkamans kemur ekki fram í neinum rannsóknum og því er oft um óútskýrð einkenni að ræða.

Skiptir mataræðið einhverju máli og hvaða mataræði telur þú að hafi mestu virknina?

Já margir minna skjólstæðinga finna að mataræði skipti máli. Almennt gildir að borða hreina fæðu eins líka því og náttúran gefur af sér, drekka vatn og hafa sykur og hvítt hveiti í algjöru lágmarki.  Forðast örvandi drykki eins og kaffi, te (koffín) og gosdrykki, aukaefni í fæðu og skyndibita. Sumir þurfa að ganga lengra þar sem líkami þeirra hefur þróað óþol gagnvart einhverju í fæðunni. Þar efst að blaði lenda mjólkurvörur.  Einhverra hluta vegna er algengt að þær fari að þolast illa og þá þarf að gefa líkamanum hvíld frá þeim. Glutein fer líka stundum að þolast illa og svo geta það verið einstaka fæðutegundir sem jafnvel eru hollar en líkaminn fer að þola illa.  Það er mikilvægt að prófa sig áfram með þetta og hlusta á líkamann.  Ef fæða þolist illa þá ræsist ónæmiskerfi líkamans, ekki eins og ef um ofnæmi væri að ræða heldur miklu vægar. Bólgumyndun fer af stað í líkamanum og einkenni eru m.a.verkir og flensulíðan. 

Í hverju felst þín meðferð og þarft þú oft að kenna fólki að slaka á og hvíla sig meira og bera meiri virðingu fyrir líkamanum sínum?

  Ég byrja á að taka sögu og skoðun og greina vandamálið. Þar sem ég vinn ein og ekki í teymi með neinum þá bendi ég mínu fólki á aðrar leiðir sem gætu hjálpað, því það þarf alltaf að horfa á vefjagigtareinstaklinginn heildrænt og skoða alla þætti. Ég meðhöndla og hjálpa fólki að losa um verkjakveikjur í líkamanum, kenni sjálfsmeðferð og set upp æfingaprógram ýmist heimaprógram eða í ræktinni. Það er gott að þú nefnir hvíld og slökun því það er þáttur sem oft er stórlega vanmetinn og ekki sinnt.  Fólk með vefjagigt hefur takmarkaða orku, það þarf að passa upp á orkuna sína, að klára hana ekki alveg.  Það er mjög mikilvægt að staldra við annað slagið og gefa sér stund. Ég kalla það eftir góðum kennara mínum Önnu Kristínu Kristjánsdóttur sjúkraþjálfara, AÐ SAFNA SÉR SAMAN. Til þess eru ýmsar leiðir en það sem skiptir máli er að komast frá endalausu áreitinu, tengjast líkama sínum og öndun og núllstilla hugann. Vera meðvitaður í líkama sínum.

Hver eru þín helstu áhugamál? 

Börnin mín eru aðaláhugamálið mitt. Ég elska að fylgjast með þeim vaxa og þroskast og takast á við gleði, sorgir og sigra. Ég er líklega svo lánsöm að ég elska líka vinnuna mína, mér finnst hún mjög skemmtileg en það er reyndar og hefur í mörg ár verið allt of mikið að gera hjá mér og vinnudagurinn lengri en ég hefði kosið. Svo finnst mér svakalega gaman að ferðast og reyni að fara nokkrar ferðir á ári. Ýmist er það löng helgi með eiginmanninum, heimsókn til ömmu og afa í Kanada með fjölskyldunni eða fjölskylduferð til Tenerife og svo námskeiðsferðir til Bandaríkjanna.    Ég er að reyna að búa mér til nýtt áhugamál og er nýbyrjuð að læra golf. Það á eftir að koma í ljós hvort að ég geri það á áhugamáli eða ekki.

Stundar þú einhverja heilsurækt?

Já ég VERÐ að hreyfa mig, ef ég gerði það ekki þá gæti ég ekki unnið vinnuna mína því ég væri líklega frá af vöðvaspennu og verkjum. Ég hef lengi verið með leikfimihópa en minnkaði þann þátt vinnunnar s.l. haust. Núna fer ég í ræktina kl. 6 á morgnana virka daga og finnst það meiriháttar

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Egg, mjólk og epli.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður

Mér finnst flestur matur góður. Stundum er ég í Sushi stuði og stundum ekki en RUB 23 er uppáhaldsstaðurinn minn á Akureyri ekki spurning.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið? 

Ég er ekki dugleg að lesa bækur en hef auðvitað lesið margar góðar bækur. Mest er ég að glugga í bækur sem tengjast vinnunni. En ætli ég segi ekki Flugdrekahlauparinn eftir Khaled Hosseini til að segja eitthvað.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú? 

Þá fer ég á RUB 23.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni? 

Yfirleitt ekki neitt. Ég bara byrja á því þegar mér finnst ég vera að renna út á tíma og þá vinn ég best.

Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár

Í vinnunni minni, búin að læra meira Myofascial Release að hætti John F.Barnes og orðin skrambi góð í því.