10 klisjur um fjölskyldumál
Að undanförnu hefur nokkuð verið fjallað um „klisjur“ í fjölmiðlum. Mig langar af því tilefni til þess að rifja upp nokkrar „klisjur” um fjölskyldumál.
„Klisja” þýðir samkvæmt orðabók orðasamband sem er margendurtekið og útþvælt.
Allar þær „klisjur” sem hér verða nefndar bera nafn með rentu því þær hafa borið á góma aftur og aftur í umræðunni. En þó þær séu þannig margþvældar, standa þær fyrir sínu því það er eins og ekkert haggi þeim.
Fyrsta „klisjan” sem ég vil nefna er sú, að það eru ótrúlega margar fjölskyldur sem eiga í erfiðleikum hér á landi. Það er margt sem gerir fjölskyldum erfitt uppdráttar þrátt fyrir góðæri í landinu og vaxandi velmegun. Önnur „klisjan” tengist þeirri fyrstu og er um vinnuálagið. Mikið vinnuálag einkennir flestar fjölskyldur til sjávar og sveita. Sérstaklega áberandi sé lengd vinnudags hér á landi borin saman við vinnudaga annarra Evrópuþjóða.
Það er margt sem veldur því að vinnudagurinn er svona langur en fyrst og fremst sú staðreynd að laun eru mun lægri hér en í nágrannalöndum okkar og nauðsynjavörur heimilisins dýrari. Lengri vinnutíma þarf því til að endar nái saman . Þriðja „klisjan” bendir á að langur vinnutími komi niður á sambandinu innan fjölskyldunnar. Þetta er sérstaklega eftirtektarvert hjá ungu fólki sem er að koma undir sig fótunum eins og það er kallað, eignast húsnæði, börn, bíl og mennta sig í leiðinni. Fjórða „klisjan” er um lánin sem tekin eru til að fjármagna þetta allt. Þau eru verðtryggð og því margfalt dýrari en gengur og gerist á meginlandinu. Fimmta „klisjan” tengist barnabótunum. Af því að foreldrarnir þurfa að vinna baki brotnu fyrir fjölskyldunni, til að standa undir afborgunum og daglegum rekstri, eru þau fljót að fara yfir þau tekjumörk sem veita rétt til barnabóta. Barnabæturnar eru þá skertar og enn meiri vinnu er þörf.
Sjötta „klisjan” er sú að foreldrar hafa aðeins rétt á 7 veikindadögum á ári vegna veikinda barna sinna, hvort sem börnin eru eitt eða fleiri. Á norðurlöndunum hafa foreldrar rétt á 90-160 daga veikindaorlofi vegna veikinda barna. Sjöunda “klisjan” er afleiðing af hinum 6. Hún vekur upp spurninguna um hjónin sem skilja þrátt fyrir að allt sé gott á yfirborðinu. Og hvers vegna? Jú vegna þess að þau voru svo upptekin af því að standa sig í öllu og kröfurnar á þau voru svo miklar að þau gleymdu að standa sig hvort fyrir annað. Það var ekki brennivínið eða fjármálin sem fóru með sambandið. Hjónin þekktust einfaldlega ekki lengur.
Samskiptaleysið innan fjölskyldunnar er líka rótin að mörgum þeim vanda sem að unglingunum steðjar og þá erum við komin að áttundu „klisjunni”. Foreldrar hafa ekki tíma til að sinna börnunum sínum eins og vera skyldi. Afleiðingin liggur fyrir.
Sýna ekki skoðannakannanir að mikill meirihluti unglinga á aldrinum 13-16 ára óttast ofbeldi í umhverfi sínu? Ofbeldið stafar aftur á móti af agaleysi sem aftur byggir á afskiptaleysi hinna fullorðnu. Níunda „klisjan” er síðan um fjölskyldur sem eru í erfiðri stöðu í þjóðfélaginu. Margar fjölskyldur eiga í miklum erfiðleikum bæði fjárhagslega og félagslega. Ekki þarf að fjölyrða um stöðu öryrkja. Fólk sem missir heisluna í langan tíma og fer á sjúkradagpeninga missir líka grundvöllin undan framfærslu heimilisins.
Fátækt ríkir því miður orðið víða í samfélaginu okkar. Fátækt gerir það að verkum að foreldrar geta ekki veitt börnunum sínum jafnstöðu á við önnur börn, geta ekki veitt þeim sjálfsagða hluti eins og t.d. tónlistarmenntun eða tannréttingar. Og þá er komið að tíundu og verstu „klisjunni”. Hún er um þá foreldra sem undir lok mánaðarins knýja dyra hjá prestum og hjálparstofnunum í leit að aðstoð, því að ekki er til matur á heimilinu handa börnunum.
Þetta eru margtuggnar „klisjur”. En hér gildir eins og svo oft áður, að sjaldan er góð „klisja” of oft kveðin. Því einn góðan veðurdag verður „klisjan” e.t.v. til þess að tekið verður á þeim vanda sem að fjölskyldunum steðjar og hér hefur verið rifjaður upp – enn einu sinni!
Grein fengin af vef doktor.is