Á röngum tíma
Við hér á Íslandi búum við þær sérkennilegu aðstæður að vera á röngum tíma stóran hluta ársins. Síðan árið 1968 hefur klukkan á Íslandi verið stillt á sumartíma allt árið sem veldur því að sumarkvöldin eru bjartari og vetrarmorgnar dimmari. Raunverulegt hádegi miðað við sólarstöðu er kl. 13:30 á Íslandi og því birtir um 1 og ½ tíma seinna hjá okkur en þeim löndum sem stilla klukkuna eftir vetrar- og sumartíma.
Þetta gerir það að verkum að skammdegið varir í lengri tíma og vetrarmorgnar eru dimmir og drungalegir. Við fáum einungis örfáa tíma af dagsbirtu yfir dimmustu mánuðina og oft nýtast þessir tímar illa þar sem margir fara í vinnuna í myrkri og koma heim í lok dags þegar orðið er dimmt á ný.
Í líkamanum er svokölluð líkamsklukka sem hefur áhrif á svefn- og vökumynstur okkar. Þessi klukka stjórnast að verulegu leyti af birtubreytingum sem stýra framleiðslu á hormóninu melatónín. Styrkur melantóníns í blóðinu eykst þegar dimmir og á stóran þátt í að stilla líkamsklukkuna og stuðla að því að okkur syfjar á kvöldin.
Dagsbirta temprar hins vegar framleiðslu melantóníns þar sem styrkur þess minnkar um leið og sólarljós berst til augnanna og þetta ferli hjálpar okkur að vakna og eykur árverkni okkar. Þar sem dagsbirta varir einungis í örfáar klukkustundir á sólarhring yfir vetrarmánuðina á Íslandi getur það leitt til ójafnvægis í dægursveiflu og haft truflandi áhrif á svefnmynstur okkar. Þegar skortur er á sólarljósi eykst framleiðsla melantóníns sem getur valdið orkuleysi, sleni og svefnvandamálum í skammdeginu. Margir kannast við það að eiga erfitt með að vakna á morgnanna í mesta skammdeginu og einnig getur reynst erfitt að sofna á réttum tíma á kvöldin.
Ástæðuna er meðal annars að finna í þessu ósamræmi milli innri og ytri klukku, þegar við vöknum kl. 07:00 á morgnana er okkar innri klukka einungis 05:30 og því ekki að furða að erfitt sé að vakna. Að sama skapi er innri klukkan einungis um 10:30 þegar við leggjumst á koddann á miðnætti til að fara að sofa og því getur reynst erfitt að sofna á æskilegum tíma í skammdeginu.
Þetta getur haft sérstaklega slæm áhrif á unglinga þar sem hormónasveiflur kynþroskaskeiðsins geta valdið breytingum á líkamsklukkunni og seinkað tímanum sem unglingar fara að finna fyrir syfju um allt að tvær klukkustundir og því er enn meiri skekkja á milli þeirra innri klukku og hinnar ytri. Þegar þeir þurfa að mæta í skólann eldsnemma á morgnana er enn hánótt samkvæmt þeirra innri klukku og þetta veldur því að margir unglingar eiga erfitt með að vakna á morgnana og þjást af mikilli dagssyfju. Eitt ráð við þessu væri að seinka byrjun skóladags hjá þessum aldurshópi en erlendar rannsóknir hafa sýnt góðan árangur af slíkum inngripum.
Nokkur umræða hefur skapast um málið og fögnum við því!
Breytum klukkunni og göngum í takt!