Fara í efni

Átak til að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum þann 6. október 2015 að heilbrigðisráðherra gangi frá samkomulagi um samstarfsverkefni heilbrigðisyfirvalda og lyfjafyrirtækisins Gilead um átak til að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi.
Átak til að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum þann 6. október 2015 að heilbrigðisráðherra gangi frá samkomulagi um samstarfsverkefni heilbrigðisyfirvalda og lyfjafyrirtækisins Gilead um átak til að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi.

 

Í fréttatilkynningu velferðarráðuneytisins kemur fram að stefnt er að því að hefja átakið fyrir lok þessa árs. Átakið mun vara í 3 ár og hefur ríkisstjórnin samþykkt að leggja til þess 150 milljónir króna á ári, sem varið verður til blóðrannsókna og annarrar þjónustu sem tengist meðferðinni.

Verkefnið fellur að 5. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 og mun ráðuneytið fela sóttvarnalækni að hafa yfirumsjón með verkefninu. Landspítali mun leggja til starfsmenn, aðstöðu og nauðsynlegar greiningarrannsóknir. Sótt hefur verið um viðeigandi leyfi til vísindarannsókna.

Hópur lækna á Landspítala hefur haft forystu um innleiðingu átaksverkefnis sem hefur það markmið að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi. Hópurinn hefur í umboði heilbrigðisráðherra unnið að undirbúningi samnings við fyrirtækið Gilead Sciences. Samhliða þessari vinnu hefur breiður hópur fagfólks Landspítala ásamt ráðuneytinu, sóttvarnalækni, SÁÁ og fleiri aðilum unnið að fjölþættum undirbúningi átaksins

Faraldur lifrarbólgu C (HCV) barst til landsins um miðjan 9. áratug síðustu aldar með fíkniefnaneyslu um æð. Hélst faraldurinn af völdum lifrarbólgunnar í hendur við fíkniefnafaraldurinn. Aðrir sem áttu á hættu að smitast af völdum HCV áður en mótefnamælingar hófust voru dreyrasjúklingar sem þurftu á blóðhlutagjöfum að halda og blóðþegar.

Þegar mótefnamælingar hófust í blóðbankanum í september 1992 greindist HCV-smit hjá átta blóðgjöfum sem höfðu neytt fíkniefna um æð, en sex af þeim höfðu áður gefið blóð. Hægt var að rekja smit til 27 blóðþega, en 23 af þeim höfðu smitast. Ekki fundust aðrir smitaðir fíkniefnaneytendur sem gefið höfðu blóð.

Sóttvarnalækni er ekki kunnugt um annað en eitt tilfelli af smiti af völdum blóðgjafar frá árunum fyrir 1992 fyrir utan þau tilfelli sem áður eru nefnd og tengdust prófunum frá 1992. Það tengist íslenskum manni sem varð fyrir alvarlegu slysi í Bandaríkjunum 1983 og þurfti á miklum blóðgjöfum að halda þar í landi og virðist hann hafa smitast af HCV við það. Eftir heimkomuna gaf hann einu sinni blóð sem leiddi til þess að blóðþegi smitaðist.

Sýking af völdum lifrarbólgu C verður viðvarandi í um 70–80% tilvika. Afar sjaldgæft er að sýking af völdum þessarar veiru valdi bráðum einkennum. Því er það að hver sá sem greinist með kjarnasýru veirunnar (virka sýkingu) eða með mótefni gegn veirunni er talinn sýktur samkvæmt skráningu.

Sjúkdómurinn er vaxandi vandamál á Íslandi eins og víða um heim. Smitið er oftast einkennalaust í upphafi en þeir sem fá viðvarandi lifrarbólgu búa stundum við skert lífsgæði og fá í sumum tilvikum skorpulifur. Skorpulifur fylgir verulega aukin hætta á lifrarfrumukrabbameini en því fylgir há dánartíðni. Lifrarbólga C er ein algengasta orsök skorpulifrar á Vesturlöndum og algeng ástæða lifrarígræðslu.

Sóttvarnalæknir

Frétt af vef landlaeknir.is