Fara í efni

Hreyfiseðill – ávísun á hreyfingu

Gagnsemi hreyfingar sem meðferð við ýmsum sjúkdómum hefur verið rannsökuð umtalsvert á síðustu árum.
Hreyfiseðill – ávísun á hreyfingu

Aðdragandi

Gagnsemi hreyfingar sem meðferð við ýmsum sjúkdómum hefur verið rannsökuð umtalsvert á síðustu árum. Hreyfingarleysi sem áhættuþáttur var rannsakað í stórum faraldsfræðilegum rannsóknum á síðari hluta 20.aldar. Þannig hefur safnast upp þekking sem sýnir að hreyfingarleysi er sterkur áhættuþáttur fyri sjúkleika og dauða og hreyfing er virk meðferð við ýmsum sjúkdómum. Þessi vitneskja hefur leitt til þróuna í ýmsum löndum, m.a. á Norðurlöndum, á hreyfingu sem meðferð innan heilbrigðiskerfisins.

Í byrjun 20 aldar var flutt þingsályktun á Alþingi, reyndar oftar en einu sinni þess efnis að taka skyldi upp ávísun á hreyfingu á Íslandi en sú tillaga fékk ekki framgang á þinginu.

Fyrsti vísir að skipulagðri ávísun á hreyfingu í íslenskri heilsugæslu var árið 2006 á Heilsugæslunni í Garðabæ og á árunum 2010-2012 var rekið tilraunaverkefni  með hreyfiseðil með styrk frá Velferðarráðuneytinu á 5 heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Það verkefni var svo útvíkkað á síðasta ári og frá miðju ári 2013 hefur öll heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri aðgang að þessu meðferðarúrræði.

Hreyfiseðill –ávísun á hreyfingu er nú komin á fjárlög og undanfarna mánuði  verið unnið  að innleiðingu hreyfiseðils á allri landsbyggðinni og gert er ráð fyrir því að árið 2015 geti sérgreinalæknar á stofum og starfsmenn LSH einnig ávísað hreyfiseðlum.

Hvað er hreyfiseðill?

Skjólstæðingar sem hafa sjúkdóma  þar sem hreyfing er gagnleg sem meðferð eða hluti af meðferð geta fengið ávísun á hreyfiseðil  hjá sínum lækni. Viðkomandi hittir þá hreyfistjóra (sem er menntaður sjúkraþjálfari) í einu upphafsviðtali. Í viðtalinu er lagt faglegt mat á stöðu viðkomandi hvað varðar þol, getu, áhugahvöt og áhugasvið og síðan er lögð upp áætlun um hreyfingu, hvernig, hversu oft, hversu lengi, hversu mikil ákefð osfrv. Þegar skjólstæðingurinn hreyfir sig skv. áætluninni fer hann á heimsíðuna hreyfiseðill.is og merkir við á ákveðinn hátt sem gerir honum kleift að fylgjast með frammistöðu sinni á myndrænan hátt og gerir hreyfistjóranum kleift að fylgjast með henni einnig. Nái skjólstæðingurinn ekki markmiðum hefur hreyfistjórinn samband við hann, hvetur áfram og  leitar nýrra leiða ef þörf krefur. Í flestum tilvikum er gert ráð fyrir að þessi meðferð nái yfir 6 mánaða tímabil með möguleika á framlengingu. Læknir viðkomandi fær svo skýrslu frá hreyfistjóranum.

Hvenær á hreyfiseðill við

Í dag eru til rannsóknir á áhrifum hreyfingar sem meðferð við mörgum sjúkdómum. Algengustu ástæður hreyfiseðils hérlendis hingað til eru fullorðinssykursýki, offita, hár blóðþrýstingur, þunglyndi og kvíði og ýmsir stoðkerfissjúkdómar.

Framtíð hreyfiseðils

Nú er verið að innleiða nýja meðferð í íslensku heilbrigðiskerfi sem er ódýr, með afar fáar aukaverkanir og þar sem skjólstæðingarnir geta sjálfir lagt mikilvæg lóð á vogarskálina til að bæta heilsu sína og meðhöndla  þá sjúkdóma sem þeir glíma við. Reynsla hingað til sýnir að meðferðarheldnin er góð því 6 af hverjum 10 sem fá ávísun á hreyfiseðil fylgja eftir þeirri áætlun sem er lagt upp með. Til þess að hreyfiseðill nái fótfestu er mikilvægt að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk og skjólstæðingar þeirra nýti þetta meðferðarúrræði vel.

Jón Steinar Jónsson, læknir