Fara í efni

Beinþynning og brothættir hryggir

Beinþynning og beinþynningarbrot er stórt lýðheilsulegt vandamál. Alþjóðlegu beinverndarsamtökin áætla að þriðja hver kona og áttundi hver karl brotni af völdum beinþynningar einhvern tíma á lífsleiðinni. Á Íslandi er gert ráð fyrir að árlega megi rekja 1200 – 1400 beinbrot til beinþynningar.
Passa þarf upp á kalkbúskap alla ævi
Passa þarf upp á kalkbúskap alla ævi

Beinþynning

Beinþynning og beinþynningarbrot er stórt lýðheilsulegt vandamál. Alþjóðlegu beinverndarsamtökin áætla að þriðja hver kona og áttundi hver karl brotni af völdum beinþynningar einhvern tíma á lífsleiðinni. Á Íslandi er gert ráð fyrir að árlega megi rekja 1200 – 1400 beinbrot til beinþynningar.

Beinþynning (osteoporosis) er sjúkdómur sem orsakar að bein tapa kalki með þeim afleiðingum að beinstyrkur skerðist og hættan á beinbrotum eykst. Beinþéttni minnkar hjá öllum með aldrinum og er liður í eðlilegu öldrunarferli bæði hjá konum og körlum. Tveir þættir skipta miklu máli í beinstyrk, þ.e. hversu mikið beinmagn byggist upp í æsku og hversu hratt beintapið verður með hækkandi aldri.

Mikilvægt að greina og meðhöndla beinþynningu

Það er einfalt að greina beinþynningu með svokölluðum beinþéttnimælum. Það auðveldar að finna þá sem eru í hættu á að fá beinbrot af völdum beinþynningar og veita tímanlega einstaklingsbundna ráðgjöf um forvarnir og meðferð, með það að markmiði að koma í veg fyrir beinbrot. Miklar framfarir hafa verið í lyfjameðferð við beinþynningu síðustu ár. Rétt lyfjaval getur helmingað brotahættuna. Ýmsir þættir ýta undir það að beinstyrkur minnkar. Margir af þessum áhættuþáttum eru þekktir (sjá beinvernd.is). Vert er að hafa í huga að það er hægt að meðhöndla beinþynningu og beinbrot er unnt að fyrirbyggja.

Beinþynningabrot

Beinþynning er einkennalaus og hefur þess vegna stundum verið kallaður þögull sjúkdómur. Einkennin koma fyrst fram þegar bein brotnar. Þó að beinbrot grói, orsakar það oft langvinna verki, skerta starfshæfni og þunglyndi með þeim afleiðingum að lífsgæði skerðast. Dánartíðni eykst, sérstaklega í kjölfar samfallsbrota í hrygg og mjaðmabrota.

Helstu brotastaðir vegna beinþynningar eru framhandleggur, hryggjarliðsbolir og lærleggsháls eða mjöðm. Talið er að tæplega helmingur greindra beinþynningarbrota séu samfallsbrot í hrygg,

Brothættir hryggir

Samfallsbrot í hryggjaliðum eru algengustu beinbrotin sem tengjast beinþynningu. Helmingur allra kvenna 80 ára og eldri hafa samfallsbrot í hrygg. Við samfallsbrot fellur beinið í hryggjaliðbol að hluta til saman. Í fyrstu geta brotin verið örsmá og einkennalítil og greinast því sjaldan. Þessi brot veikja burðargetu hryggjarins og geta orsakað fleiri samfallsbrot. Samfallsbrot af völdum beinþynningar verður fyrst og fremst í neðri hluta brjósthryggjar og í efri lendaliðsbolum. 

Einkenni og greining samfallsbrota

Einkenni samfallsbrota í hrygg er stundum smellur og skyndilegur verkur í baki. Oft gerist þetta við lítið álag, t.d snögga hreyfingu, að lyfta upp hlut, hósta, hnerra, við að beygja sig og setjast á stól. Aðeins fjórðungur samfallsbrota er talinn orsakast af byltum. Það getur tekið 6-8 vikur fyrir samfallsbrot að gróa. Verkirnir eru verstir í byrjun, en geta orðið langvinnir í kjölfar samfallsbrotsins.

Bakverkur er algengur og eldra fólk telur oft bakverki tilheyra aldrinum og leitar sér ekki hjálpar með greiningu og verkjastillingu. Það er mjög mikilvægt að greina samfallsbrot til að fá aðstoð fagaðila við forvarnir og meðferð. Aðeins lítill hluti samfallsbrota leiða til sjúkrahúsvistar. Endurtekin samfallsbrot orsaka það aðhryggsúlan styttist og líkamshæð minnkar og það myndast kryppa eða herðakistill.

Afleiðingar samfallsbrota

Alvarleiki samfallsbrota í hrygg eru mikill því að eitt samfallsbrot í hrygg eykur hættuna á fleiri samfallsbrotum, auk þess að vera undanfari annarra beinþynningabrota, t.d. mjaðmabrota. Herðakistill orsakar það að þangeta lungna minnkar sem getur orsakað lungnavandamál. Auk þess þrengir að líffærum í kviðarholi sem getur orsakað bakflæði og önnur einkenni frá meltingarfærum. Verkjavandamál geta verið mikil.

Það sem þú getur gert

Beinin þurfa álag til þess að viðhalda styrk sínum. Því er hreyfing og líkamsrækt nauðsynleg. Gönguferðir er góð aðferð til að auka beinstyrk og styrkja vöðva. Þeim sem hafa hlotið beinbrot er þó ráðlagt að ráðfæra sig við fagaðila í sambandi við hreyfingu. Þar sem mörg beinbrot orsakast af byltum, er einnig nauðsynlegt sem hluti af byltuvörnum að æfa vöðva, jafnvægi og samhæfingu hreyfinga. Mikilvægt er að huga að slysagildrum í umhverfinu s.s. lausum mottum, hafa góða lýsingu, nota sjóngleraugu, forðast rafmagnslínur eða aðrar hindranir, nota trausta skó innanhús og varast hálku.

Hollur og næringaríkur matur er mikilvægur, sérstaklega kalk- og D-vítamínrík fæða. Reykingar eru eitur í beinum og áfengi skyldi neyta í hófi.

Farsæl öldrun

Oft er litið á heilbrigði sem sjálfsagðan hlut. Það er fyrst við heilsubrest sem heilbrigði er metið, því enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Það er mikilvægt að stuðla að heilbrigði og farsælli öldrun. Beinþynning getur hindrað virka þátttöku í lífinu, orsakað heilsubrest og minnkað líkamlega og andlega getu. Rannsóknir á beinþynningu hafa sýnt fram á verulega skerðingu á lífsgæðum þeirra einstaklinga sem fá beinþynningarbrot.

Höf. Kolbrún Albertsdóttir, MS, hjúkrunarfræðingur.

Heimild: beinvernd.is