Fara í efni

Bleika slaufan 2015 verður opinberuð 1.október

Í ár er hægt að kaupa slaufuna í forsölu.
Bleika slaufan 2015 verður opinberuð 1.október

Nú líður senn að þvi að Bleika slaufan 2015 verður opinberuð en árlegt árveknisátak hefst 1. október. Í ár munum við bjóða slaufuna í forsölu!

Ef Bleika slaufan er keypt í forsölu í netverslun Krabbameinsfélagsins verður hún send í umslagi með Póstinum til kaupanda 29. september þannig að hún ætti að berast til kaupanda 30. september, degi áður en formleg sala hefst í verslunum og apótekum. Sendingarkostnaður er innifalinn. 

Í ár er það Erling Jóhannesson gullsmiður sem hannar Bleiku slaufuna 2015.

Erling hefur starfað að mestu sjálftætt við gullsmíði frá því hann útskrifaðist árið 1983 frá Iðnskólanum í Reykjavík, þó tímabundið á verkstæðum í Reykjavík og hjá Georg Jensen í Danmörku. Frá hausti 2014 hefur Erling hefur rekið verslun og gallerí í Aðalstræti 10. Samhliða gullsmíði hefur Erling starfað sem leikari og leikstjóri. 
  
Þetta er í fjórða sinn sem Krabbameinsfélagið og Félag íslenskra gullsmiða halda samkeppni um hönnun Bleiku slaufunnar.

Sigurvegari í fyrra var Stefán Bogi Stefánsson gullsmiður.

Krabbameinsfélagið telur mikinn hag í því fyrir báða aðila að hönnun Bleiku slaufunnar sé í höndum íslenskra fagmanna. Sú hefð sem skapast hefur með samstarfinu og framleiðslu slaufunnar er einstök í heiminum, fjölmargir safna slaufunni ár frá ári og hróður íslenskra hönnuða berst langt úr fyrir landssteinana. 
  
Með bestu kveðju, 
Starfsfólk Krabbmeinsfélagsins