Brynja Nordquist horfðist í augu við alkóhólismann
Nóvemberhefti tímaritsis MAN kemur í verslanir á morgun en forsíðuna prýðir Brynja Nordquist, flugfreyja og fyrrverandi fyrirsæta. Í vitðtali við MAN segir hún meðal annars frá því að hún hafi hætt að drekka fyrir tæpu ári, eftir að hún áttaði sig á því að hún væri alkóhólisti.
„Ég held að það tengist aldrinum að þola vín verr,“ segir Brynja einlæg en hún er 62 ára gömul. Það hafi vakið hana til umhugsunar þegar sonarsonurinn og augasteinn hennar hafi sagt við hana: „Amma, þú ert skrítin!“ og þá hafi hún ákveðið að það gengi ekki lengur að vera undir áhrifum fyrir framan barnið. Nú segist hún bara vilja að hun hefði hætt að drekka fyrr.
Brynja fór þó ekki í meðferð en hefur sótt kvennafundi AA-samtakanna. Hún segir áfengið hafa verið farið að fara sér illa og hún hafa tekið eftir því að hún yrði of full, finndi of mikið á sér.
Brynja segir opinskátt frá uppvextinum, fjölskyldunni og sambandi sínu við Þórhall Gunnarsson, sem ritstýrði Kastljósinu um árabil. Samband þeirra vakti athygli þegar það hófst fyrir 21 ári fyrir þær sakir að hann er tíu árum yngri en hún.
Þeim varð aldrei barna auðið en Brynja segir meðal annars frá því að þau hafi skoðað möguleikann á því en verið sagt að hún væri orðin of gömul, þá rétt um fertugt.
Meðal annars efnis í blaðiu er umfjöllun um hreinar og skítugar meyjar, en að missa mey- eða sveindóminn hefur löngum verið túlkað sem mikilvæg eldskírn og innvígsla ungmenna inn í heim hinna fullorðnu.
MAN birtir einnig áhugaverða úttekt undir fyrirsögninni Safnað fyrir barni - kostnaðurinn við ófrjósemisaðgerðir, en þar er rætt við hjónin Inger Rós Jónsdóttur og Kristinn Jón Eysteinsson sem hafa safnað fyrir margar tæknifrjóvgunum frá árinu 2002. Þau langar í þriðja barnið en hafa beðið með það í nokkur ár vegna þess hversu dýr meðferðin er.