Anna Dís Guðbergsdóttir Eydal er formaður félags Einstakra mæðra, hún gaf sér tíma í smá viðtal við okkur
Anna Dís er 42ja ára og er formaður félagsins Einstakar mæður. Hún er með BS í Iðjuþjálfum og MS í mannauðsstjórnun. Í dag starfar Anna Dís sem yfiriðjuþjálfi á hjúkrunarheimili.
Hvað var það sem fékk þig til að fara í tæknifrjógvun?
Mig hefur alltaf langað mikið til að eignast barn og þegar draumaprinsinn bankaði aldrei uppá hjá mér og ég var ekkert að yngjast fór ég að huga að þessu. Núna þegar börnin eru komin hef ég allan tímann í heiminum til að finna þann eina rétta.
Var langur aðdragandi og var ákvörðunin erfið?
Í raun tók ég ákvörðunina fljótlega eftir að ég vissi af því að þetta væri möguleiki fyrir einhleypar konur. Ég tók mér samt tvö ár til frekari umhugsunar áður en ég tók af skarið.
Þurftir þú að fara oft eða tókst þetta í fyrstu tilraun?
Ég fór fjórum sinnum í tæknisæðingu sem lukkuðust ekki, tvisvar í Stork Klinik í Köben, áður en einhleypum gafst kostur á því hér heima, og svo tvisvar í Art Medica í Kópavogi. Fyrsta glasafrjóvgunin lukkaðist svona líka glimrandi vel að ég fékk tvo yndislega stráka.
Hvernig gekk meðgangan?
Meðgangan gekk mjög vel, ég var laus við flesta fylgikvilla eins og ógleði og verki. Ég fékk að vísu mikinn bjúg og var mjög þreytt seinni hluta meðgöngunnar. Enda mikið álag á líkamann að ganga fulla meðgöngu með tvíbura.
Finnur þú fyrir fordómum varðandi þessa ákvörðun þína?
Ég hef ekki fengið neitt nema jákvæð viðbrögð frá öllum. Það eru eflaust einhverjir sem eru á móti þessu en ég hef aldrei fundið fyrir neinum fordómum.
Einstakar mæður er félagsskapur kvenna sem hafa farið einar síns liðs í tæknifrjógvun, hittist þið og berið saman bækur ykkar ?
Já þetta er frábært félag með 39 ferlega flottum og sjálfstæðum konum. Þetta eru allt konur sem eru búnar að koma sér vel fyrir í lífinu, eru að reyna eða hafa eignast börn einar. Skilyrði fyrir inngöngu í félagið er að barnið sé skráð föðurlaust í þjóðskrá.
Við hittumst með börnin einu sinni í mánuði, höldum jólaball, sumargrill og útilegu o.fl. Við teljum mikilvægt fyrir börnin okkar að hittast og kynnast öðrum börnum með samskonar fjölskyldumynstur og þeirra, þ.e. sem eiga ekki pabba. Við konurnar hittumst svo líka reglulega og spjöllum um allt og ekkert.
Hvenær fæddust svo þínir strákar og gekk fæðingin vel?
Strákarnir mínir eru fæddir í febrúar 2010 og eru því ný orðnir 4. ára. Ég gekk með þá í rúmlega 37 vikur, en þar sem þeir voru báðir í þverlegu þurfti ég að fara í keisara sem gekk mjög vel.
Hafa þeir átt við einhver heilsufarsleg vandamál að stríða?
Þeir eru hraustir og kátir guttar og allt hefur gengið eins og í sögu hjá okkur. Þeir eru voða rólegir og góðir og hafa alltaf sofið vel þannig að ég hef ekki yfir neinu að kvarta.
Ég tel það mjög mikilvægt að hafa gott stuðningsnet í kringum sig þegar kona ákveður að eignast barn ein. Það var mér ómetanlegt að eiga góða að sem studdu mig í gegnum þetta allt saman. Sérstaklega mamma mín sem býr í næsta húsi við okkur en hún hefur hjálpað mér alveg ótrúlega mikið.
Er þetta eitthvað sem þú myndir hiklaust mæla með fyrir konur og þá á ég við einstæðar konur?
Þetta er klárlega besta ákvörðun sem ég hef tekið um ævina. Ég mæli hiklaust með því fyrir þær konur sem þrá að eignast barn, hafa andlegan, líkamlegan og fjárhagslegan styrk til þess en hafa ekki enn fundið þann eina rétta.