Fara í efni

Eitt par af hverjum sex

Katrín Björk Baldvinsdóttir
Katrín Björk Baldvinsdóttir

Eitt par af hverjum sex á barneignaraldri glímir við ófrjósemi. Það fylgir því mikið áfall þegar í ljós kemur að utanaðkomandi aðstoðar er þörf til að eignast barn og sú barátta tekur mun meira á andlega og tilfinningalega heldur en almenningur gerir sér grein fyrir.

Einnig getur hún verið afskaplega kostnaðarsöm þar sem greiðsluþátttaka íslenska ríkisins í tæknfrjóvgunum er lægst af Norðurlöndunum og langt að baki ansi margra annarra Evrópulanda.

Tilvera samtök um ófrjósemi eru hagsmunasamtök þeirra sem glíma við ófrjósemi og/eða þurfa á utanaðkomandi aðstoð að halda til að eignast barn, hvort sem það er af líffræðilegum eða félagslegum orsökum. Fyrir utan almenna hagsmunagæslu fyrir félagsmenn gagnvart heilbrigiðisyfirvöldum og þeim sem veita félagsmönnum heilbrigðisþjónustu, þá standa samtökin fyrir reglulegum fræðslufundum, sumargrilli, mánaðarlegu kaffihúsaspjalli, heimasíðu og útgáfu fréttabréfs. Stjórn samtakanna skipa sjö einstaklingar í sjálfboðastarfi.

Vikuna 10.-16. apríl stendur Tilvera fyrir vitundarvakningu um ófrjósemi undir yfirskriftinni Ófrjósemi er barátta. Vitundarvakningin er hugsuð til þess að auka skilning almennings og stjórnvalda á því hve erfitt það er að vera í þessari baráttu, sem og að vekja athygli fólks sem glímir við það að eignast barn á því að það er ekki eitt í baráttunni.

Samtökin vilja að þessu tilefni vekja athygli á þremur áherslumálum:

1. Að fyrsta glasa- eða smásjármeðferð verði aftur niðurgreidd. Hætt var að niðurgreiða fyrstu glasa- og smásjármeðferðina í janúar 2012. Að afnema niðurgreiðslu fyrstu meðferðar í stað fjórðu voru mikil mistök, t.d. vegna fólks sem þarf að fara í tæknifrjóvgun vegna krabbameinsmeðferðar. Eins er lyfjakostnaður mestur í byrjun, vegna nýrra laga um greiðluþátttöku í lyfjakostnaði. Því verður fyrsta meðferðin ansi stór biti að kyngja fjárhagslega.

2. Að þeir sem þurfa að sækja þjónustu ART Medica fái ferðakostnað niðurgreiddann. Sjúkratryggingar Íslands greiða nú einungis ferðakostnað þegar fólk er að fara í niðurgreidda meðferð. Niðurgreiddar meðferðir eru aðeins brot af þeim meðferðum sem stendur fólki til boða. Þetta þýðir að fólk á landsbyggðinni lendir í gífurlegum aukakostnaði.

3. Að heilli meðferð sé ekki lokið nema til uppsetningar á fósturvísi komi. Lendi fólk í því að ekki verði til fósturvísir til uppsetningar telst sú meðferð engu að síður sem heil meðferð og því fækkar niðurgreiddum meðferðum um eina.

Stjórn Tilveru biður íslensku þjóðina að veita stuðning í þessum áherslumálum og minnir á að mjög líklega þekkir hver og einn einhvern sem er eða hefur þurft að glíma við ófrjósemi. Sýnið tillitssemi því ófrjósemi er erfið barátta.

Skrifað af : Katrín Björk Baldvinsdóttir

Nánar á www.tilvera.is