Mögulegt að endurskoða þurfi ráðleggingar um að sniðganga mettaða fitu
Samkvæmt rannsakendum Bresku Hjartasamtakanna þá virðast ekki vera neinar sannanir sem benda til þess að það að breyta úr „slæmri“ mettaðri fitu yfir í „heilsusamlegri“ fjölómettaða fitu minnki hættuna á hjartasjúkdómum.
Flest okkar borða of mikið af mettaðri fitu. Næringarviðmið gefa til kynna að menn ættu ekki að borða meira en 30 grömm á dag og konur ekki meira en 20 grömm á dag. Mettaða fitu má meðal annars finna í smjöri, kexi, fitu á kjöti, pylsum, beikoni, osti og rjóma.
Mikið hefur verið talað um að fólk eigi að borða meira af fjölómettuðum fitum eins og ólífu- og sólblómaolíu sem og aðrar fitur sem ekki eru dýrafitur.
Aftur á móti hefur rannsókn sem birt var í Annals of Internal Medicine, leidd af rannsakendum frá Háskólanum í Cambridge, ekki fundið nein gögn sem styðja þetta. Rannsakendurnir skoðuðu niðurstöður 72 rannsókna sem voru samtals með yfir 600.000 þátttakendur.
Ekki fundust tengsl milli mettaðrar fitu, hvort sem hún var mæld út frá mataræði eða í blóðstreyminu, og hættu á kransæðasjúkdómum í þeim 72 athugunarrannsóknum sem voru skoðaðar. Fjölómettaðar fitur virtust heldur ekki hafa nein verndandi áhrif fyrir hjartað.
Transfitur voru með sterk jákvæð tengsl við hættu á hjartasjúkdómum. Þessar gervifitur sem finna má í mikið af unnum mat og oft í smjölíki, ætti að forðast, samkvæmt rannsakendunum.
Megin rannsakandi rannsóknarinnar Dr. Rajiv Chowdhury segir að þessar niðurstöður séu athyglisverðar og hvetji mögulega til nýrra rannsókna sem og hvetji til endurskoðunar á núverandi næringarviðmiðum. Hann segir einnig að það að bæta unnum kolvetnum, sykri og salti inn í mataræðið í staðinn fyrir mettaðar fitur sé varhugavert. Hann tekur fram að unnin kolvetni, sykur og salt sé mögulega allt hættulegt fyrir heilbrigði æðakerfisins.
Prófessor Jeremy Pearson segir jafnframt að þessi rannsókn sé ekki að gefa til kynna að það megi borða eins mikla fitu og maður vill. Hann segir að of mikil fita sé slæm fyrir heilsuna. Pearson segir jafnframt að þessi greining á mörgum rannsóknum bendi til að það séu ekki nægar sannanir fyrir því að mataræði sem inniheldur mikið af fjölómettuðum fitum en lítið af mettuðum fitum minnki hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.
Að lokum bendir Pearson á að ásamt því að taka nauðsynleg lyf, þá er besta leiðin til að halda hjartaheilsunni í lagi að hætta að reykja, hreyfa sig og passa að heildar mataræðið sé gott. Horfa ekki bara á fituna heldur líka hvað við borðum af salti, sykri, ávöxtum og grænmeti.
Þýtt og endursagt af BBC.com.
Hanna María Guðbjartsdóttir.
Tekið af vef hjartalif.is