Ljúktu nú upp lífsbókinni
Það er gjarnan talað um að lífsreynsla okkar safnist saman yfir ævina og líkja megi við farangri í bakpoka. Manneskjan er þeim eiginleikum gædd að geyma meira en gleyma, s.s. erfiðum atburðum. Að þeir festist í bakpokanum líkt og illa lyktandi farangur. Hafa ber í huga að ákveðnum viðhorfum og lífsreglum pökkum við ekki einu sinni sjálf í bakpokann. Yfir ævina safnast það „góða og slæma“ ef svo mætti að orði komast.
Heilmikil sjálfsvinna sem felst í viðurkenningu og sjálfsumhyggju fyrir sjálfum sér, að staldra við og skoða í bakpokann. Sumir velja að bera hann með öllu því merkilega og ómerkilega sem komið hefur í líf þeirra alla ævi. Góð kona sagði einu sinni: „Ætlar þú að láta þér líða vel með að líða illa?“ Það þarf heilmikið hugrekki að staldra við og hugsa um eigið viðhorf eða lífsreynslu. Máta við stöðu sína í lífinu og velta fyrir sér tilheyrir þetta mér ennþá? Síðan má gefa sér leyfi að skila lífsreglum, viðhorfum, sem eiga ekki við í lífi okkar. Sumir skila skömminni.
Það er merkilegt hvernig varnarviðbrögð okkar birtast með ólíkum hætti, hvernig við svörum með orðum eða látbragði við áreiti. Hvað býr að baki? Upplifun hvers og eins er gjarnan eins og spegill sálarinnar. Sumir velja að taka á vanlíðan með því að harka af sér, ekki að velta sér upp einhverju löngu liðnu. Það er harla ólíklegt að sú aðferð reynist einhverjum vel til lengdar. Þau tilfelli þar sem fólk tekur til í bakpokanum öðlast nýtt líf, frelsi og styrk til að lifa lífinu lifandi. Staðreyndin er sú að sama hversu góð við erum að leika „Pollyönnu“ og brosa, skuldadagar skella á, stundum algjörlega óvænt.
Þá komum við að því sem mér er kærast, samskipti og samvera með börnum. Hvort sem um ræðir eigin börn, barnabörn, sem kennari eða annarskonar umönnunaraðili. Eitt er mikilvægt að muna, börn bera ekki ábyrgð á hegðun eða viðbrögðum okkar.
Fagmenntun ein og sér er ekki nóg, fagaðilinn verður að vera tilbúinn persónulega í mikilvægt starf sem kennsla og umönnun er. Við ráðum okkur til starfa, fáum greitt fyrir það, skylda okkar er gríðarleg. Það að launin séu ekki há, „þetta er ekki í minni starfslýsingu“, þegar kemur að umhyggju fyrir barni á sínum fyrstu árum slík afsökun er ekki í boði! Við höfum nefnilega val, sé þessi vinna ekki að henta í dag, getum við farið. Barnið á ekki að líða fyrir persónulega líðan okkar. Ég vil sjá að skólar og stofnanir sem koma að uppvexti og menntun barna geri þá kröfu á starfsfólk sitt að óuppgerðir bakpokar séu ekki í boði. Gera þarf almennt átak í því víðsvegar, fleiri úrræði og opna umræðuna.
Ég gekk ekki í leikskóla, alin upp í sveit svo það var ekki í boði. Fyrri hluta ævinnar var sjálfsmynd mín slök. Ég hafði ekki skoðun á því hvernig ég átti að vera, líta út, klippa á mér hárið, vaxtarlagið var þétt. Ég valdi að láta foreldra og systur mínar um þessar ákvarðanir fyrir mig. Afmælisdagarnir erfiðustu dagar ársins og myndatökur voru mín mesta hrollvekja.
Það tók mig mörg ár að átta mig á því að ég var meðvirk því sem aðrir sögðu og gerðu. Fannst bara fínt að fljóta með straumnum og alls ekki skera mig út úr hópnum. Ég átti erfitt með að setja mörk gangvart flestum í kringum mig. Í sveitinni heima átti ég ósýnilega vini sem bjuggu í steinunum þau Birnu og Bjössa. Tíkin mín hún Trilla, var mér eins og systir, hún hafði allt sem ég þurfti á þessum árum. Þær fyrirmyndir sem ég hafði var ég ákveðin í að fylgja ekki. 16 ára flutti ég að heiman, byrjaði að búa með eiginmanni mínum Friðrik V. Segja má að við hjónin höfum alið hvort annað upp, eflt og styrkt þar sem bakpokar okkar eru ólíkir. Allir hafa eitthvað í bakpokanum sem þarf að skoða, henda og endurraða og er ég engin undantekning þar. Það tók mig 7 ár hjá sálfræðing, mikið óskaplega er ég þakklát þeirri sjálfsvinnu. Að ég hafi ekki gengið út úr biðstofunni fyrir fyrsta tímann, þar sem fyrsta skrefið reyndist mér mjög erfitt.
Ég vel að segja frá, því mikilvægast af öllu er að þekkja sjálfan sig. Hvað þá áður en farið er að annast börn, hvort sem á við að kenna þeim, þjálfa, stjórna, eða eignast þau.
Við erum tilfinningaverur og mörg dæmi sýna fram á að erfið lífsreynsla getur bankað upp á, á ólíklegasta tíma. Samskipti og viðbrögð geta snúist upp í andhverfu sína. Jafnvel án þess að við áttum okkur á því hvað er að gerast. Það er þekkt að slæma lífsreynslu er hægt að grafa svo djúpt í mannsálina að hún virðist algjörlega gleymd, þangað til að einn daginn skellur hún upp á ólíklegasta tíma. Með leyfi vitna ég í bókina Barnið í garðinum. Þar sem hræðilegt ofbeldi var grafið í sálina, kom ekki í ljós fyrr en tugum árum seinna þegar þolandi ofbeldisins fór að vinna í samskonar máli fyrir skjólstæðing sinn. Við það var eins og kveikt hafi verið á öllum tilfinningum og atburðir virtust ljóslifandi.
Ég er óþreytandi að fræða börn, foreldra, kennara, alla sem starfa með börnum um mikilvægi þess að vernda bernskuna, efla börn í að þekkja líkama sinn, setja mörk og segja frá.
Ég hef gagnreynt og þróað forvarnarverkefni mitt FRÆÐSLA EKKI HRÆÐSLA í yfir 20 ár. Viðbrögð mín 9 ára að heyra um kynferðisofbeldi gegn vinkonu minni, vakti mikinn óhug og ótta. Undirmeðvitundin hefur líklega verið byrjuð í þessari vinnu í barnæsku. Ég hef sterka trú á að þar byrjaði hugur minn að undirbúa þá góðu vegferð sem ég er lögð af stað í 41 ári seinna.
Undanfarin 21 ár með hléum, hef ég notið þeirra forréttinda að kenna og heimsækja starfsfólk í leikskólum. Ræða við þau um mikilvægi þess að kenna börnum að setja mörk, auk þess að skoða sig sjálf í þeim efnum. Ég fullyrði það hér að undantekningalaust, hefur verið leitað til mín með ráð vegna erfiðrar reynslu úr bernsku. Þar sem opinská umræða kveikir á tilfinningum og minningar fljóta uppá yfirborðið. Það segir mér að þörfin er gríðarlega mikil að opna enn frekar umræðuna og efla forvarnir til muna.
Fjölmargar íslenskar og erlendar rannsóknir sýna fram á að einstaklingar sem búið hafa við vanrækslu og eða ofbeldi af einhverjum toga í bernsku eiga oft erfitt með að setja mörk, tjá tilfinningar, mynda tengsl og segja frá.
Að setja mörk er ekki meðfætt, því síður ef barn býr við óæskilegar aðstæður þar sem mörkin eru óskýr. Barn veit ekki og þekkir ekki, hvaða lög og reglur gilda í landinu sem okkur fullorðna fólkinu ber skylda að framfylgja. Ég vil minna okkur öll á að það er skylda okkar Íslendinga að fara eftir lögum og reglum. Sé fólk í vanda statt má leita til heilsugæslu, sálfræðinga og einnig eiga símtal við barnaverndina og fá ráð. (https://www.althingi.is/lagas/nuna/2002080.html)
Það er skylda okkar að hafa hagi og líðan barnsins að leiðarljósi.
Skyndihjálp sem við mörg lærum, förum reglulega og markvisst á námskeið. Eftir það vitum við hvernig bregðast á við, við skyndilegum atburðum. Skólar gera viðbragðsáætlun ef slys ber að höndum.
Mín skoðun er sú að öll skólastig ættu að vera með, sýnilega, markvissa forvarnaráætlun gegn ofbeldi að auki aðgerðaáætlun ef grunur um ofbeldi og/eða vanrækslu. Þessar áætlanir væru endurskoðaðar reglulega og kynntar nýju starfsfólki.
Gleymum því ekki að börn heyra, hlusta, sjá og geyma vel það sem þau upplifa!
Við þurfum að æfa okkur að hlusta, heyra, sá og BREGAÐST VIÐ STRAX.
Textinn við lagið „Lífsbókin“ eftir Laufey Jakobsdóttur baráttukonu fyrir réttlæti þeirra sem minna mega sín sem á við enn þann dag í dag.
„Breyta þeim sem böli valda
breyta stríði margra alda.
Breyta þeim sem lygin lamar,
leiða vit og krafta framar.
Gull og metorð gagna ekki
gangir þú með sálarhlekki“
Minn draumur er að menntun fagstétta sé enn betur undirbúin í þessu ljósi.
Ég get ekki breytt því sem liðið er, en get breytt því sem koma skal – SEGÐU FRÁ
Arnrún Magnúsdóttir
leikskólakennari
Fræðsla ekki hræðsla