Er ekki í lagi með fólk?
Heilsusúkkulaðisalan enn í gangi.
Súkkulaði sem brennir fitu. Vá!! Ótrúlegt
Heilsusúkkulaði - ertu að grínast?!
Nei, full alvara.
Sala á "heilsusúkkulaði" og öðrum ótrúlegum (bókstaflega) vörum frá Zorbmax / Manna360 /Livesmart 360 eða hvað það nú er kallað hverju sinni virðist enn í fullum gangi heima á "skerinu". Allavega ef marka má nýjar íslenskar auglýsingar um þessar vörur á Facebook og víðar. Þeir eru enn að selja sælgæti sem "heilsuvöru" og græða væntanlega eitthvað á því fyrst þeir halda ennþá uppteknum hætti. Þeir voru og eru væntanlega enn með munnúða til sölu sem á að vera kraftaverk en inniheldur ekkert nema vatn, sölt og súrefni.
Zorbmax (eða hvað það heitir.. þeir eru með mörg nöfn í gangi) framleiðendurnir blanda allskonar efnum , jafnvel svona sem eiga að vera "holl", t.d. smávegis omega-olíu, í sælgæti og tæla svo fólk með fagurgala og þykjustuvísindum til að kaupa vöruna í þeirri trú að hún geri þeim gott við hinu og þessu.
Ein mjög ósvífin aðferð þeirra (ekki bara íslensku söluaðilanna heldur þessa sölukerfis í heild) er að sýna viðskiptafórnarlambinu blóðdropa í smásjá til að "sanna" að einn úði eða moli í munninn lækni eitthvað svakalegt (uppspunnið) heilsuvandamál á tveimur mínútum. Reyndar eru fleiri en Zorbmax liðið sem platar fólk með svona þykjustublóðskoðun. Til dæmis sumir græðarar.
Um það hvað blóðskoðun af þessu tagi er og sérstaklega um hvað það ekki er má lesa á Wikipedia á ensku og um það fjallaði líka Upplýst hópurinn mjög skilmerkilega í fyrra og má lesa um það hér. Í þeirri umfjöllun um blóðdropaskoðanir er hlekkur á íslenskt vídeó frá Zorbmax-liðinu íslenska þar sem sýnt var hvernig svona blóðdropaskoðun og sýndarlækning með munnúðanum fer fram. Þetta vídeó hefur verið fjarlægt en netið gleymir reyndar engu svo ef menn eru útsjónarsamir þá má finna þetta.
Þeir eru líka (til allrar hamingju fyrir fórnarlambið) búnir að taka tvö önnur skelfileg vídeó af Youtube þar sem þeir sýna íslenska konu sem þjáist af mjög alvarlegri offitu. Þeir höfðu fengið hana til þess að lýsa því yfir í myndskeiðunum, með tilþrifum hvernig hún væri heilmikið hressari og liðugri fáeinum mínútum eftir að hafa "fengið sér" mola (já, einn mola!) af þessu sælgæti. Auðvitað er þetta ekkert kraftaverkameðal. Slík sýning sannar bara það eitt hvað hægt er að sefja og táldraga auðtrúa fólk.
Upplýst hópurinn kærði þetta athæfi, heilsusúkkulaðisöluna og blóðskoðanirnar í fyrravetur til neytendastofu. Kannski eru þessar fjarlægingar á vídeóum árangur af því en ég hef ekki enn frétt um neina niðurstöðu úr því máli að öðru leyti.
Rétti nú upp hendi þeir sem í alvöru trúa því að svona fullyrðingar standist:
ThermoBurst - Chocolate that burns fat. Súkkulaði sem brennir fitu. Vá!! Ótrúlegt... já svo sannarlega hreint og beint ekki trúlegt
Í vídeóinu sem þessi facebook-færsla bendir á (myndin), talar afar sannfærandi og myndarlegur maður fjálglega um ýmis efni sem eiga að vera í einni útgáfu af súkkulaðinu og hvað þau hafi dásamleg áhrif á fituna þína.
Ég get með hendina á hjartanu lofað ykkur því að ekkert af þessu virkar. Ég nenni ekki að hrekja það allt hér og þið eflaust ekki að lesa margar langlokur svo ég tek bara tvö dæmi af mörgum úr vídeóinu.
Grænar kaffibaunir urðu firna eftirsóttar þegar heilsuskrumarinn heimsfrægi, hinn kynþokkafulli Mehmet Öz, öðru nafni "Dr. Oz" auglýsti þær í sjónvarpsþættinum sínum. Hann var nýlega tekinn rækilega á beinið af bandarískri þingnefnd og neyddist til að viðurkenna að mest af því sem hann hafði auglýst sem megrunarvöru virkaði reyndar ekki. Hann reyndi að afsaka sig með því að þetta mundi hvetja fólk til dáða en það gekk nú ekki beinlínis heim hjá þingnefndinni sem skammaði hann eins og hund. Grænn kaffibaunaextrakt var einmitt nefnt margoftsem sérstaklega gott dæmi um vöru sem ekki uppfyllir það sem lofað er um megrunareiginleika.
Hitt dæmið er Chromium picolinate sem nefnt er þarna. Það er ekki megrunarmeðal. Efnið hefur reyndar mikið verið notað í megrunarsvikavörum en það virkar alls ekki eins og lesa má um hér.
Loddarinn í vídeóinu er auðvitað ákaflega flottur, það vantar ekki. Hvítur sloppur með áritun sem fær hann til að sýnast afar merkilegur og allt það.
Munið bara gott fólk að ef það hljómar of gott til að vera satt, þá er það mjög líklega ekki satt. Hvað sem líður hvítum sloppum og glansandi heimasíðum. Eða þá síendurteknum auglýsingum í Fréttablaðinu, á Facebook, á auglýsingastaurum við sundlaugarnar eða á strætóskýlum, í apótekum og kjörbúðum.
Það er ekki til nein töfralausn við ofþyngd eða offitu. Ekki einu sinni skurðaðgerðirnar eru það þó þær virki vel fyrir þá sem hafa fyrir því að nýta sér það úrræði vel.
Það eru margar, ótrúlega margar vörur á markaðnum sem haldið er fram að hjálpi ykkur með aukakílóin. Engin þeirra er í raun peninganna virði. Ég legg æruna við það loforð. Ég græði ekkert á að halda þessu fram. (Best að taka það fram svona með tilliti til reynslu síðustu daga )
Það eru margar, ótrúlega margar vörur á markaðnum sem haldið er fram að hjálpi ykkur með aukakílóin. Engin þeirra er í raun peninganna virði. Ég legg æruna við það loforð. Ég græði ekkert á að halda þessu fram. (Best að taka það fram svona með tilliti til reynslu síðustu daga )
Ekkert nema einbeitni og vinna að betri lífstíl virkar. Það eru ekki til nein einföld hjálparefni í hylkjum eða dósum. Ef eitthvað af öllum þessum efnum sem þið sjáið í kjörbúðum og apótekum skyldi nú þrátt fyrir allt slysast til að virka eitthvað á þig, þá er það alveg örugglega ekki meira en óverulegur munur og algerlega háð þvi að þú hvort eð er breytir mataræðinu og gerir aðrar nauðsynlegar breytingar á lífstílnum.
Og það sem meira er. Ef slík áhrif skyldu vera til staðar í einhverjum af öllum þessum pillum og púlverum, þá eru þau alveg örugglega aðeins bundin við þann tíma sem þú tekur inn vöruna. Sama gildir um þau lyf sem hafa verið á markaði til að hjálpa við megrun. Þau hjálpa aðeisn tímabundið og lítið og eru þar að auki takmörkuð af aukaverkunum
Og það sem meira er. Ef slík áhrif skyldu vera til staðar í einhverjum af öllum þessum pillum og púlverum, þá eru þau alveg örugglega aðeins bundin við þann tíma sem þú tekur inn vöruna. Sama gildir um þau lyf sem hafa verið á markaði til að hjálpa við megrun. Þau hjálpa aðeisn tímabundið og lítið og eru þar að auki takmörkuð af aukaverkunum
Hentu frekar namminu, kexinu og gosinu og öllu hinu draslinu út, taktu til í mataræðinu og kauptu þér kort í ræktina fyrir peninginn frekar en að kaupa enn eina dolluna af platmegrunarmeðali.
Ef þú ert illa haldinn af offitu eða fylgisjúkdómum hennar, talaðu þá við lækninn þinn lika, en slepptu því að taka með enn eina dýra dós af hindberjaketónum eða öðru ónýti þegar þú verslar í matinn eða apótekinu.
Eftirskrift:
Það má geta þess svona til að varpa enn frekara ljósi á þetta með blóðskoðanirnar að átrúnaðargoð og kennari íslenskra blóðskoðara Robert Oldham Young var handtekinn í janúar síðastliðnum fyrir að narra tugþúsundir dollara út úr langt leiddum krabbameinssjúklingum og þykjast ætla að lækna þá. Hann er laus gegn 100.000 dollara tryggingu og bíður dóms sem getur orðið allt að fimmtán ára fangelsi.
Höfundur: Björn Geir Leifsson, Skurðlæknir : sjá meira efni hér síðu Björns