Esther Helga Guðmundsdóttir starfar við MFM miðstöðina og er formaður Matarheilla, við fengum hana í viðtal
„Ég starfa við MFM miðstöðina, er formaður Matarheilla, í stjórn Foodaddiction Institute. Ég hef einnig verið að vinna í Bandaríkjunum og aðeins á Norðurlöndum bæði við kennslu og meðferðir. Ég á þrjú uppkomin börn og 3 yndisleg barnabörn.“
Esther Helga Guðmundsdóttir, MSc í stjórnun í heilbrigðisþjónustu og sérfræðingur í matarfíknarráðgjöf og meðferðum vegna matarfíknar.
Esther Helga lauk meistaranámi frá Háskólanum á Bifröst í stjórnun í heilbrigðisþjónustu en áður hafði hún lært áfengis- og vímuefnaráðgjöf og lokið þriggja ára námi frá Bandaríkjunum í matarfíknarmeðferðum og ráðgjöf.
Hún stofnaði MFM-miðstöðina vorið 2006 og hefur starfað þar síðan og unnið jöfnum höndum að fræðslu um málefnið fyrir fagaðila og almenning, ásamt því að bjóða upp á einstaklingsmiðaða meðferð við matarfíkn og átröskunum.
Esther Helga kennir og heldur fyrirlestra á alþjóðavettvangi um nýjar meðferðarleiðir vegna matarfíknar. Hún er einn af stofnendum Matarheilla, réttindafélags fyrir þá sem eiga við matarfíkn og átraskanir að stríða, og formaður samtakanna.
Hún situr í stjórn og fagráði Food Addiction Institute í Bandaríkjunum og er einn af stofnendum ISFP (www.foodaddictionprofessionals.org). Hún er einnig félagi í IC&RC.
Hvað er MFM og hversu lengi hafið þið verið starfandi?
MFM miðstöðin er meðferðar- og fræðslumiðstöð vegna matarfíknar og átraskanna sem stofnuð var árið 2006. Við höfum því verið starfandi í rúm 8 ár.
Hver var megin ástæða þess að MFM miðstöðin var stofnuð og er einhver ein erlend fyrirmynd sem þið styðjist við meira en önnur?
Ég stofnaði MFM miðstöðina vegna brynnar þarfar á þessu úrræði fyrir þá sem eru haldnir matarfíkn. Ég er sjálf matarfíkill og átröskunarsjúklíngur í bata og hef verið það s.l. 11 og hálft ár. Ég þekki því af eigin reynslu þennan vanda og hefði viljað geta fengið meðferð við hæfi þegar ég þurfti á því að halda.
Meðferð og meðferðarleiðir MFM miðstöðvarinnar eru sambærilegar þeim meðferðum sem viðhafðar eru við meðhöndlun annarra fíkna s.s. alkóhólisma.
Ég lærði fíkniráðgjöf hjá Ráðgjafaskóla Íslands og síðan matarfíkniráðgjöf hjá ACORN/FAI í Bandaríkjunum. Í gegnum þetta nám mitt þróaði ég meðferð í göngudeildar og námskeiðaformi fyrir þá sem glíma við matarfíkn sem er eintök í heiminum í dag. Mikill áhugi er hjá erlendum fagaðilum á meðferðarformi miðstöðvarinnar og árangur hefur verið góður.
Ég byggi á meðferðarnálgun sem hefur verið notuð um langt skeið hjá þeim sem starfa við meðferðir við matarfíkn og hef tekið þátt í að þróa þessar meðferðir áfram með samstarfsaðilum mínum bæði í Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum.
Af hverju varð sú fyrirmynd fyrir valinu frekar en önnur og hvernig byggið þið ykkar meðferðir upp?
Ég byrja ávallt á að fá skjólstæðing í viðtal. Þar fer ég yfir vandann, við förum yfir skimunarspurningar og ég set upp mat fyrir einstaklinginn um hvort um matarfíkn og/eða átraskanir geti verið að ræða.
Ef skjólstæðingur fær jákvætt mat á þennan vanda þá getur hann hafið meðferðina sem felst í helgarnámskeiði þar sem við vinnum að því að styðja viðkomandi til að komast í fráhald frá þeim fæðutegundum sem valda honum fíkn. Síðan tekur við daglegur stuðningur við matar- og meðferðarprógramm, vikulegir stuðnings- og meðferðarfundir, einstaklingsviðtöl, kynningar og fyrirlestrar.
Einnig er boðið uppá framhaldsnámskeið fyrir endurkomufólk og þá sem vilja meiri stuðning og vinnu.
Tekur TR þátt í að niðurgreiða meðferðir hjá ykkur?
Nei TR gerir það ekki. Stéttarfélög hafa hinsvegar tekið þátt í að greiða niður meðferðir og námskeið hjá okkur og VIRK hefur verið að senda til okkar skjólstæðinga sína.
Finnst þér að þið séuð að ná eyrum heilbrigðisstarfsmanna til að mynda lækna og annarra fagaðila sem vísa fólki til ykkar og starfa þá með ykkur?
Það er sífellt að aukast skilningur bæði meðal fagfólks og almennings um þennan vanda og ég heyri mikið um það að læknar og hjúkrunarfólk benti á MFM og/eða 12 sporasamtök sem taka á þessum vanda. Þau gera það vegna þess að þau hafa tekið eftir bata og árangri hjá þeim sjúklingum sem hafa fengið meðferð og/eða tekið þátt í 12 sporastarfi OA eða GSA samtakanna.
Þegar snýr að Matarheill, hvernig byggið þið ykkar starfsemi upp, eruð þið með fundi í ætt við AA samtökin, sponsora og osfrv.?
Matarheill eru réttindasamtök fyrir þá sem eiga við matarvanda (matarfíkn, átraskanir) að stríða, þau eru ekki 12 spora samtök. Við erum fyrst og fremst að vinna að fræðslu og að knýja stjórnvöld og fagfólk til að sinna þessum vanda. Við viljum stuðla að meðferðum við hæfi fyrir þá sem glíma við matarfíkn. Við viljum breikka sýn fagfólks og stjórnvalda og auka skilning og getur fagfólks til að taka á vandandum sem fíknivanda, en það hefur vantað alfarið í þær meðferðir sem eru til staðar fyrir þá sem eiga við ofþyngdar og/eða átvanda að stríða.
Hvað finnst þér um það þegar verið er að birta reynslusögur fólks til að vekja aðra til umhugsunar um eigin vandamál og lausnir á þeim?
Ég hef allt gott um það að segja. Það virkar oft sem hvatning fyrir einstaklinga að taka á sínum málum. Þó skiptir máli að á bak við reynslusöguna sé raunveruleg leiðsögn til bata.
Hafið þið verið lengi að vinna að skipulagningu á málþinginu með Bitten og hvað hefur hún framyfir aðra fagaðila í þessum geira?
Við höfum verið að vinna að þessu málþingi frá því s.l. vetur.
Bitten Jonsson hefur um 25 ára reynslu sem fíknimeðferðaraðili bæði í Bandaríkjunum og í Svíþjóð. Hún hefur gríðarlega þekkingu og reynslu í greiningum og meðferðum við matarfíkn og öðrum þeim fíknum sem viðkomandi getur verið haldinn. Hún hefur einnig skrifað vinsælar bækur um málefnið fyrir utan að vera sérlega skemmtilegur fræðari og fyrirlesari.
Hún hefur þróað ADDIS S sem er sértækt greiningartæki til að greina matarfíkn. Þetta greiningartæki er fyrsta sinnar tegundar og aðstoðar meðferðaraðila að brjóta afneitun sjúklings á vanda sínum og hjálpar að setja upp meðferðarplan fyrir hann.
Eitthvað sem þig langar að koma á framfæri í lokin?
Við hjá Matarheill höfum verið að útbúa upplýsingaefni fyrir fagfólk um matarfíkn sem við munum formlega afhenda fulltrúa heilbrigðisráðherra á málþinginu á laugardaginn kemur. Þetta efni verður síðan gert aðgengilegt öllu fagfólki í landinu með von um að það aðstoði það við greiningu og leiðbeiningu fyrir þá skjólstæðinga sem geta átt við matarfíkn að stríða!
Við munum einnig kynna nám fyrir fagfólk um matarfíkn sem hefst á næsta ári.