Fara í efni

Hún Eva Sveinsdóttir er í hjúkrunarfræðinámi, hún starfar einnig við sjúkraflutninga og er dugleg í ræktinni

Hún Eva Sveinsdóttir er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum og flutti til Reykjavíkur fyrir 7 árum.
Eva ásamt dóttir sinni og hundi
Eva ásamt dóttir sinni og hundi

Hún Eva Sveinsdóttir er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum og flutti til Reykjavíkur fyrir 7 árum.

„Ég hef stundað íþróttir frá því ég man eftir mér, ég var lengst af í fótbolta áður en ég byrjaði í líkamsrækt. Ég kláraði stúdentinn í framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum og fór síðan í Lögregluskólann og starfaði í lögreglunni í Vestmannaeyjum í rúm 8 ár.“

“Með starfi mínu í Lögreglunni sá ég einnig um forvarnarstarf lögreglunnar um tíma og fór í leikskóla og grunnskóla með fræðslur. Þegar ég starfaði í eyjum þá var lögreglan þar einnig með sjúkraflutninga og tók ég því líka sjúkraflutningsskólann til að geta starfað á sjúkrabílnum, sem EMT-Basic.”

“Ég fékk meiri áhuga á heilbrigðisgeiranum eftir að starfa á sjúkrabíl og ákvað að fara í nám í Hjúkrunarfræði í HÍ og er ég að klára það næst vor.”

Hvernig er hefðbundinn morgunn hjá þér?

Mér finnst alltaf best að fara í ræktina á morgnana og ég byrja yfirleitt á því, áður en ég mæti í skólann. Ég reyni alltaf að mæta 5-6 daga í ræktina í hverri viku. Það er minn tími og einnig finnst mér gott að vera búin að fara í ræktina áður en stelpan mín kemur heim úr skólanum, til að geta sinnt henni. Mér finnst ég mun orkumeiri þá daga sem ég mæti í ræktina og er tilbúnari fyrir það sem dagurinn hefur upp á að bjóða. 

Ertu með stóra fjölskyldu?

Ég er í sambúð og við eigum eina stelpu sem er að verða 11. ára. 

Nú ert þú í hjúkrunarfræðinámi, segðu mér svolítið frá því.

Hjúkrunarfræði er mjög skemmtilegt og krefjandi nám. Námið er fjögur ár og er ég að nálgast lokasprettinn núna, Skemmtilegasta við námið er að fara í verknám og kynnast hinum ýmsu deildum spítalans ásamt því að læra að nota fræðin. Ég held að ég sé líka í besta árgangnum, ekkert nema snillingar og náum við allar vel saman. Mig hlakkar mikið til að útskrifast með þeim á næsta ári. 

Þú varst að taka próf hjá slökkviliðinu og verður á sjúkrabíl að vinna í sumar, hvernig starf er þetta og í hverju fellst þetta próf?

Já, það passar, til þess að geta starfað hjá Slökkviliðinu á Höfuðborgarsvæðinu þarf að standast þrekpróf ásamt fleiri hæfniskröfum,ég var hjá þeim síðasta sumar og líkaði mjög vel, því ákvað ég að sækja aftur um núna í ár og byrja ég í Maí. Þrekprófið samanstendur af styrkleika- og göngprófi. Það þarf að ganga í 12% halla í slökkviliðsgalla með reykköfunarkút á baki, einnig þarf að taka bekkbressu róður og fótabressu. Það kemur á óvart hvað það tekur á að ganga í gallanum með kútinn á bakinu. Vinnan á sjúkrabílnum er mjög fjölbreytt og í raun veit maður aldrei hverju maður á von á þegar maður mætir á vakt, þetta er allt frá því að flytja sjúklinga á milli spítala í að fara í alvarleg slys/veikindi. 

Hvernig hreyfingu stundar þú til að halda þér í formi?

Ég stunda líkamsrækt að jafnaði 5 til 6 sinnum í viku og þá er ég aðallega að lyfta í tækjasal, ég skipti líkamanum upp og tek oftast einn vöðvahóp fyrir á hverri æfingu, svo á ég tvo hunda sem ég og stelpan mín förum oft með í göngur saman.

g

Er eitthvað sem þú lætur aldrei inn fyrir þínar varir matarkyns?

Nei, ég borða í raun allt, það er ekkert á bannlista hjá mér, ef það væri þá mundi ég líklega borða það oftar, því er betra að hafa ekkert á bannlista og borða það sem ég vil. Ég er alltaf meðvituð um það sem ég borða, þetta er bara löngu orðin vani hjá mér, ég er þó harðari við mig þegar ég er að undirbúa mig fyrir fitnessmót. Ég er ekki að spá of mikið í mat, í raun fæ mér bara það sem mig langar í hverju sinni en það er þó sjaldnast skyndibiti. Mér finnst oft mjög erfitt að svara þegar ég er spurð hvað ég er að borða því ég spái svo lítið í því. Ég er þessi týpa sem er alltaf með nesti með mér í skólanum , annars dett ég bara í samlokurnar,bakkelsið og nammið sem er því miður í meirihluta í mötuneyti skólans. 

Hvaða álit hefur þú á skyndilausnum þegar kemur að því að létta sig?

Ég hef enga trú á skyndilausnum, heilsan er langhlaup og árangursríkast er að gera hana að lífsstíl. Ég myndi frekar mæla með þvi að fara vel yfir það sem þú ert að borða, við vitum flest öll hvað er hollt og hvað ekki. Byrja svo smá saman að taka til í matarræðinu, Það eru of margir sem ætla að taka allt óhollt út byrja að hreyfa sig og halda það svo ekki út og fara því alltaf aftur í sama farið. Einnig virkar líka vel að byrja á því að hreyfa sig, hreyfingunni fylgir oftast áhuginn fyrir hollara matarræði. 

Hvað finnst þér um að íslendingar skuli vera feitasta þjóðin af öllum norðurlöndunum?

Mér finnst það langt frá því að vera í lagi, við þurfum að grípa inní hvert og eitt, sjá hverju við getum breytt hjá okkur og okkar fjölskyldu það er sorglegt að sjá hve mörg börn eru í slæmu líkamlegu ásandi. Offitu fylgja mörg heilsufarsvandamál sem skerða lífsgæði og lífsánægju. 

Ef þú værir beðin um að gefa hópi fólks eitt gott ráð, hvaða ráð væri það?

Settu heilsuna þína í fyrsta sætið, við konurnar erum alltof mikið í því að sinna öllum öðrum á undan, við erum betur í stakk búnar að taka á hinni daglegu rútínu ef við höfum tíma fyrir heilsuna.