Flensur og aðrar pestir - 50. vika 2014
Öndunarfærasýkingar
Það sem af er þessum vetri hefur inflúensan ekki greinst hér á landi en búast má við að hún geri það á næstu vikum. Frá heimilislæknum berast mjög fáar tilkynningar um einkenni inflúensu, sjá mynd 1. Það er því ekki of seint að láta bólusetja sig gegn árlegri inflúensu. Lítið er um inflúensu í nágrannalöndum okkar, en þar hafa þó sést fyrstu merki um hana með stöku jákvæðum greiningum.
Sömu fréttir berast frá öðrum Evrópulöndum, sjá nánar á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og Sóttvarnarstofnun Evrópusambandsins (ECDC).
Enginn hefur greinst með RSV (Respiratory Syncitial virus) hér á landi það sem af er vetri, en frá því um miðjan nóvember hafa fimm einstaklingar greinst með metapneumóveiru, allt börn á aldrinum 10 mánaða til þriggja ára.
Fá tilfelli hafa greinst af öðrum öndunarfæraveirum eins og rínóveiru, adenóveiru, enteróveiru og parainflúensu 3.
Samkvæmt upplýsingum frá sýkladeild Landspítala hefur Mycoplasma pneumoniae verið staðfest hjá 46 einstaklingum á þessu ári, þar af hafa um 40 manns greinst frá því í byrjun ágúst. Sýkingin hefur oftast greinst hjá börnum og unglingum, þar sem 35 af 46 einstaklingum eru undir tvítugu. Þetta er mikil aukning miðað við síðastliðin ár, en frá 2010 hefur mýkóplasmasýking verið staðfest árlega hjá 3–10 einstaklingum. Á sama tíma hefur tilkynningum um lungnabólgu frá læknum í heilsugæslunni og á bráðamóttökum fjölgað, samanborið við sambærileg tímabil á síðastliðnum árum. Sú aukning endurspeglar mögulega aukinn fjölda mýkóplasmasýkinga í samfélaginu á þessu misseri.
Mycoplasma pneumoniae er baktería sem veldur öndunarfærasýkingum hjá mönnum. Sýkingin er oft væg með einkennum frá efri loftvegum en hún berst einnig oft niður í berkjur og lungu og getur það leitt til innlagnar á sjúkrahús, en leiðir afar sjaldan til dauða. Bakterían berst með dropasmiti manna á milli. Hún er ekki talin vera mjög smitandi en smit innan fjölskyldna er algengt. Talið er að faraldrar af völdum Mycoplasma pneumoniae geti gengið yfir á 3–7 ára fresti.
Meltingarfærasýkingar
Stöku einstaklingar hafa greinst með nóróveirusýkingu samkvæmt upplýsingum frá rannsóknarstofu Landspítala í veirufræði. Tilkynningar um niðurgang eru svipaðar og á sama árstíma síðastliðin ár, sjá mynd 2.
Heimild: landlaeknir.is