Framboði á fiski á heimsvísu verður vart viðhaldið nema með eldisfiski
Eftirspurn eftir fiski eykst stöðust og verður því að auka framboð á eldisfiski til að halda framboði stöðugu og minnka álag af fiskveiðum.
Fiskmjöl er ríkjandi próteingjafi í fiskafóðri en framleiðsla mjölsins hefur dregist saman því nýting uppsjávarfisks í verðmætari afurðir hefur aukist vegna betri fiskveiðitækni og betri kælingar hráefnisins.
Hjá Matís hefur dr. Ragnar Jóhannsson, verkefnisstjóri, verið að vinna að ýmsum verkefnum sem miða að því að finna önnur hráefni en fiskmjöl fyrir fiskeldi og nýta ónotað hráefni. Úrgangur frá sellulósaverksmiðjum í Svíþjóð og ræktun lífmassa í jarðhitalofttegundum frá Hellisheiðarvirkjun eru möguleikar sem hafa verið kannaðir.
Ragnar hefur unnið með sænskum fyrirtækjum við framleiðslu Single Cell Protein (SCP) úr hliðarstraumum frá skógariðnaði. Meginmarkmiðið er að þróa vöru sem kemur í stað fiskimjöls. Finna þurfti hvaða örverur væru heppilegastar og hvaða hliðarstraumar í sellulósa- og pappírsframleiðslu væru best fallnir til þessarar framleiðslu. Próteinmassinn er þurrkaður og blandað við önnur hráefni svo úr verði fiskeldisfóður. Þetta fóður hefur verið reynt í tilapíueldi með góðum árangri og er nú verið að þróa fóður fyrir bleikjueldi.
Önnur aðferð sem hefur verið reynd í fóðurframleiðslu er að nota brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun sem orkugjafa við ræktun örverulífmassa. Örverurnar vaxa hratt á brennisteinsvetninu, eru síðan þurrkaðar og bætt í fiskeldisfóður. Þessu verkefni var nýlega lokið eftir tveggja ára þróunarvinnu, en frekari rannsókna er þörf til að hámarka árangur.
Nánari upplýsingar veitir Ragnar hjá Matís.
Grein af vef matis.is